Verður stöðugleiki, verður Framsókn með?

Þessar kosningar fóru nokkurn veginn eins og á spáð að öðru leyti en því að Framsókn fékk meira fylgi en Vinstri Grænir minni fylgi og Sjálfstæðismenn skruppu meira saman en búist hafði við.  Það er samt af og frá að þetta hafi verið einhver sigur Samfylkingar, það sem þessar kosningar römmuðu inn var gríðarlegt tap Sjálfstæðisflokksins og útrýming á Frjálslynda flokknum.

Framsóknarflokkurinn vann hins vegar mikinn kosningasigur á höfuðborgarsvæðinu, á svæðinu þar sem afleiðingar hrunsins hafa komið fyrst fram. Hluti af fylgi okkar Framsóknarmanna er örugglega óánægðir Sjálfstæðismenn en stór hluti hefur líka lagt okkur lið vegna trúar á að við séum stjórnmálaafl sem hefur þegar gengð í gegnum endurnýjun eftir hrunið og breytt um stefnu, horfið frá þjónkun við gróðahyggju og einkavæðingu. Sennilega hafa margir hafi lagt Framsókn lið vegna skynsamlegra efnahagstillagna sem ganga út á að hluti skulda sé afskrifaður, ekki bara í bókhaldi bankanna eins og þegar hefur verið gert, heldur líka hjá einstökum skuldurum.

Það kemur reyndar á óvart hversu lítið ný öfl hafa vaxið upp, það getur ekki talist mikið eftir mestu kollsteypu sem nokkuð vestrænt ríki hefur farið á síðustu árum að það komi upp ný hreyfing sem er með 4 þingmenn af 61 og 7.3 % fylgi eins og Borgarahreyfingin hefur nú. Það virðist raunar vera einhvers konar töfratala fyrir nýhreyfingafylgi, sama prósenta og Þjóðvaki fékk á sínum tíma, sama prósenta og Frjálslyndir fengu á sínum tíma. Báðar þessar hreyfingar þurrkuðust út. Gaman verður að fylgjast með Borgarahreyfingunni, mun hún fara sömu leið eða mun hún vaxa og dafna?

Í heildina má segja að Íslendingar hafi tekið hruninu af nokkru æðruleysi og kollsteypan endurspeglist ekki í þingsölum nema nú eru þar fleiri konur og vinstri flokkar eru stærstir. En sami flokkurinn og var við völd þegar Hrunið varð mun væntanlega leiða næstu ríkisstjórn, það er ekkert sem bendir til annars.

Nú er að spá í hvernig stjórn verður mynduð.

Stjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna hefur góðan meirihluta og þarf ekki á öðrum að halda. Þannig var líka með fráfarandi ríkisstjórn, þessa vanhæfu, þar var góður meirihluti Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Það gagnaðist þeirri ríkisstjórn þó ekkert, hún hrökklaðist frá þegar uppþot og götuóeirðir brutust út á Íslandi í janúar.

Ég held að það sé vonlaust að mynda hér stjórn án Samfylkingar og án Vinstri Grænna. Það þarf að fara í aðildarviðræður við Evrópubandalagið eða bindast einhverjum öðrum þjóðum í einhvers konar efnahagsbandalagi. Eða halda áfram í því einangraða og lamaða haftahagkerfi sem við erum í þessa stundina. Það þarf líka liðstyrk Vinstri grænna - aðallega vegna þess að það er eina sem getur komið í veg fyrir að hér brjótist aftur út götuóreirðir og uppþot. Það væri líka gott að Borgarahreyfingin kæmi að stjórn landsins einmitt af sömu ástæðu.

Og það þarf Framsóknarflokkinn til að taka á þessum gríðarlega efnahagasvanda sem íslenska þjóðin er í  núna, það þarf rödd skynsemi og það þarf róttækar efnahagstillögur eins og niðurfellingu á hluta skulda. 

Raunar eru aðstæður ennþá þannig að langaffarasælast er núna að reyna aftur þjóðstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn er reyndar svo laskaður að það er erfitt að sjá hvernig hann gæti eitthvað lagt til í þjóðmálum. En það má ekki gleymast að 23,7 % kusu Sjálfstæðisflokkinn

Það er raunar undarlegt að það sé ekki unnið út frá þeirri reglu að framkvæmdavaldið þ.e. skipting ráðherraembætta skiptist milli flokka eftir þingstyrk, hugsunin við stjórnarmyndun ætti að vera fyrst hvernig hægt væri að hafa sem flesta flokka við stjórn á sama tíma til að tryggja að fulltrúar sem flestra Íslendinga hefðu aðkomu að stjórnmálum.

Hins vegar hef ég séð í umræðuþætti eftir umræðuþátt að stjórnmálafræðingar og stjórnmálaskýrendur hjakka í hinu farinu, tönglast á því að "nú sé hægt að mynda tveggja flokka stjórn".  Af hverju ætti það að vera markmið að mynda tveggja flokka stjórn? Það eru einmitt þannig tímar á Íslandi að það væri fýsilegast og affarasælast að mynda stjórn með sem flestum flokkum og að sem mest sátt verði um þær aðgerðir ráðast verður í á næstunni.

Það er talað um að Samfylkingin (29,8) og Vinstri Grænir (21,7) hafa samanlagt  rúmlega 51 % atkvæða. Það er mikið. En það er má líka segja að 49 %  kjósenda kusu EKKi þessa flokka. Eiga fulltrúar okkar sem ekki kusum rauðgrænt engan rétt til að taka þátt í framkvæmd í stjórnsýslu á Íslandi? Eiga þeir að sitja aðgerðalausir og vanmáttugir hjá á Alþingi eins og við sáum þingmenn gera eftir fyrra hrunið? 


mbl.is Þingað um nýja stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Ég er þér sammála með þjóðstjórnina en tel að við eigum að leysa okkar vandamál áður en við förum að spá í Esb aðild eða eitthvað annað ríkjasamband.

Offari, 26.4.2009 kl. 22:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband