Leiðtogaþáttur á RÚV - Hver vann?

Sjónvarpsumræða ein og sér er mjög grunn. Það er ekki hægt að ræða vanda Íslands á sekúndubrotum og taka afstöðu til þess hverjum þú eigir að fela umboð til að fara með atkvæði þitt með því að horfa á einn þátt. Það verður að gera ráð fyrir að fólk hafi kynnt sér flokkana og hvað er bak við þá, ekki bara leiðtogana heldur allt hitt fólkið og stefnuskrá og vinnubrögð og hve trúverðugir flokkarnir eru.

Þrjár hreyfingar eru alls ekkert trúverðugar núna og ábyrgir kjósendur geta strax útilokað þær. Það eru Sjálfstæðisflokkurinn sem er í molum  vegna  innri átaka og upplausnarástands sem bætist við hörmulega hugmyndafræði sem steypt hefur heilli þjóð í glötun og afleita stjórnsýslu og hvern afleikinn á fætur öðrum á örlagatímum. Úr leik er líka Frjálslyndi flokkurinn sem hefur spænst niður í frumeindir og virðist mér enginn geta unnið með öðrum í því skrýtna rekaldi sem sá flokkur er orðinn. Ástþórsframboðið hefur aldrei verið valkostur fyrir óbrjálaða Íslendinga og þarf ekki að eyða fleiri orðum á það.

Eftir standa þá Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin og Vinstri grænir og Borgarahreyfingin.  Leiðtogar þessara fylkinga stóðu sig allir vel, hver á sinn hátt. Jóhanna var svona umfaðmandi og fjarlæg, þessi sem er góð við alla sem eiga bágt og pælir ekki í hvaðan peningarnir koma eða hvernig heimurinn utan Íslands spilar inn í þetta. Steingrímur fór úr hinu vanalega "Éttann sjálfur" gervi sínu og átti góða spretti þegar hann var að útskýra hvers vegna núna þyrfti leyndarhjúp og dulkóðun utan um allt sem gerist í rannsókn á bankahruninu, það væri liður í að allt væri mjög ljóst og gagnsætt í stjórnsýslunni, Vinstri grænir hefðu ekkert að fela. Verð að viðurkenna að ég skildi ekkert í þessum röksemdafærslum hjá Steingrími en hann sagði þetta mjög mjúklega og fallega og notaði alls konar lögfræðiorð þannig að þetta virkaði mjög vel og svæfandi, Steingrímur virtist alveg vera að ná þessum geir-haarde-leynum-fyrir-almenningi-hver-staðan-er  stíl, Steingrímur er að ná þessum fjármálaráðherratakti Íslands, sama takti og sleginn var í tíð Geirs Haarde og Árna Mathiesens.  Þór frá Borgarahreyfingunni var skemmtilega Framsóknarlegur í sínum málflutningi, hress rödd íslensks almennings sem skilur að það er ekki allt með felldu. 

En auðvitað vann Sigmundur Davíð. Hann stýrði umræðunni og átti senuna í upphafi þáttarins og það er flott að Framsóknarflokknum tókst að velta stjórnmálaumræðunni daginn fyrir kosningar frá því að velta sér endalaust upp úr hver borgaði hvað í prófkjörinu hans Gulla fyrir nokkrum árum upp í hvernig staða Íslands er í mesta efnahagshruni sem nokkur þjóð hefur gengið í gegnum síðan á dögum heimskreppunnar á þriðja áratug síðustu aldar og hvernig stjórnvöld leyna okkur stöðunni rétt fyrir kosningar og síðast en ekki síst einhverjar raunhæfar lausnir um hvernig eigi að stöðva hrunið og koma í veg fyrir annað hrun.  Það eru innantómar tillögur sem koma frá stjórnarflokkunum, svona yfirklór og leyndarhjúpur, finnst stjórnvöldum ekki kominn tími til að hætta að blekkja okkur?


mbl.is Samfylkingin enn stærst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þett er ekki spurning um hver vann heldur hver tapaði.

Það var Kastljósparið sem tapaði.

Frambjóðendur gátu ekki staðið sig betur en stjórnendur buðu uppá með spurningum sínum. 

Jón Óskarsson (IP-tala skráð) 25.4.2009 kl. 00:03

2 identicon

Mikil er trú þín kona. Sigmundur Davíð var æði hallærislegur að mínu mati.  Gæti trúað að hann hefði tekið 1 til 2% af Framsóknarflokknum.

Sverrir (IP-tala skráð) 25.4.2009 kl. 00:59

3 Smámynd: Hlédís

Sigmundur Davíð átti góða spretti og flest kom vel út hjá honum. Enginn foringjanna varð sé til skammar - nema Á. - svona pínulítið!. Verri voru furðuinnskotin með Silfur-Agli og "vitringunum þrem" - Þökkum fyrir að nú er slagnum að ljúka ;)

Hlédís, 25.4.2009 kl. 01:11

4 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Anna Sigríður: Varðandi fiskveiðikvótann þá var ástandið þannig að það þurfti að koma til fiskveiðistjórnunarkerfi og var kvótinn þannig kerfi. Það hefði ekki átt að vera eingöngu úthlutun til útgerðarmanna, þar hefði líka átt að koma til réttur sjómanna og réttur landvinnslufólks og réttur byggðalaga. Á sínum tíma var ég í Kvennalistanum og þar töluðum við fyrir byggðakvóta. En þá var jafnan röksemdin - hverjar eru byggðirnar, sveitarfélögin voru svo lítil og tætt og í innbyrðis baráttu? Svo má líka sjá hvernig byggðirnar sem áttu allar bæjarútgerðir fóru með sína eign. Alls staðar var hún seld í burtu, sjáið til dæmis Raufarhöfn sem seldi sinn kvóta og setti peningana í áhættuhlutabréf og spilaði öllu burtu.

Það að gera fólki svona kleift að selja kvóta og veðsetja kvóta hindrunarlaust hefu haft gríðarlega neikvæðar afleiðingar. Flestir eru hins vegar sammála um að það sé ekki hægt að bakka til baka, kvótaeigendur núna hafa keypt sinn kvóta.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 25.4.2009 kl. 10:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband