Útileigumenn í Ódáðahraun, eru kannski að smala fé á laun - Sjóður9 og sjóður Sjálfstæðisflokksins

Ég er að hlusta á útvarp sögu, þar er maður að tala um bók Einars Kárasonar Jónsbók en í þeirri bók þá mun Jón Ólafsson halda því fram að Sjálfstæðismenn hafi krafið hann um 5 milljón króna gjald í sjóð Sjálfstæðismanna en Jón neitað og Jón taldi að þetta væri undirrót óvildar Sjálfstæðisflokksins í sinn garð. Nú er Jón Ólafsson vatnsölumaður svo sannarlega enginn engill  en saga hans í þessu verður aðeins trúverðugri núna þegar maður veit hve ófyrirleitnir Sjálfstæðismenn voru þegar smalað var fé inn í sjóði flokksins.

Ég sá líka á forsíðunni utvarpsaga.is ágæta samantekt um Sjóð 9 hjá Glitni, sjóð sem ég vissi ekki að væri til fyrr en eftir Hrunið þaðan af síður hve beintengdur sá sjóður var Sjálfstæðisflokknum, mér virðist satt að segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi í gegnum ýmis konar flækjur plantað sínum lykilmönnum alls staðar þar sem fé safnaðist saman og einhvern veginn farið að halda að allt fé í öllum sjóðum væru þeirra spilapeningar sem þeir gætu möndlað með að vild.

Ég var  búin að gleyma þessu Sjóð 9 máli, mér fannst ákaflega undarlegt að Illugi var ekki látinn svara betur fyrir það mál í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins nýverið en ég hef nú ekki djúpan skilning á stjórnmálahegðun Sjálfstæðismanna, ég hef t.d. heldur aldrei skilið hvernig þeir hampa dæmdum fjárglæpamanni eins og Árna Johnsen og fannst ekkert athugavert við einkafjármálabrölt Árna Matthíassen fyrir sig og sína fjölskyldu eða kúlulánum Þorgerðar Katrínar og fjölskyldu hennar.

En ég botna bara ekkert í trúgirni og þolgæði sumra  Sjálfstæðismanna, það er frábært að sjá að Stefán Friðrik er alveg búinn ð missa þolinmæðina. En hvernig getur jafn greind og ágæt kona og Áslaug Friðriksdóttir sagt þetta auma yfirklór Snör og heiðarleg viðbrögð og þetta  sjóðasukk Illuga Illugi hefur gert hreint fyrir sínum dyrum?

Auðvitað vill Áslaug eins og aðrir góðir Sjálfstæðismenn trúa hinu besta um sína leiðtoga en Guðlaugur Þór er í efsta sæti í Reykjavík norður og Illugi Gunnarsson í efsta sæti í Reykjavík suður  en það bókstaflega öskar á mann að það sé mjög mikið að hjá leiðtogum Sjálfstæðisflokksins og þessi mál tengjast verulega. Það er um sömu fyrirtækin að ræða og það eru sömu hagsmunirnir. Og þessi mál tengjast hugsanlega REI málinu og hvernig reynt var leynt og ljóst að sölsa undir einkafyrirtæki orkuauðlindir Íslendinga. 

Það er ekki fyrir nokkurn mann að skilja allan blekkingarleikinn með fyrirtækin sem velktust til og frá enda var leikurinn gerður til að villa um fyrir almenningi, við sjáum það núna. Sjá t.d. þessa frétt FL Group verður Stoðir

Hér eru upplýsingar um þetta fyrirtæki FL Group eða Stoðir, fyrirtækið sem gaf stórar fúlgur í kosningasjóð Sjálfstæðismanna og það voru hlutabréf í þessu fyrirtæki sem Illugi Gunnarsson lét kaupa út úr Sjóði 9.

Hér klippi ég út pistilinn um þetta Sjóð 9 mál frá vefsíðu utvarpsaga.is

Sjóður undir stjórn Illuga Gunnarssonar kostaði skattgreiðendur 11 milljarða.

 
 föstudagur, 20 mars 2009
Sjóður undir stjórn Illuga Gunnarssonar kostaði skattgreiðendur 11 milljarða. Fullyrðingar um sjóðinn á heimasíðu Illuga standast ekki
raunveruleikann.
Það sem Illugi þarf meðal annars að svara:
-Hver var þáttur Illuga í neðangreindri ákvarðanatöku og atburðarás?
-Var hlutdeild skuldabréfa í eignasafni sjóðanna orðin of há miðað við samþykktir og fjárfestingarstefnu þannig að losa þyrfti bréf út úr
sjóðnum?
-Samrýmist það að hans mati góðum stjórnsýsluháttum að alþingismaður og fulltrúi í fjárlaganefnd þingsins sitji í stjórn sjóðs sem lýtur eftirliti
Fjármálaeftirlitsins, sem svo lýtur yfirstjórn ríkisvaldsins?
Afskipti ríkisstjórnarinnar af sjóði 9.
Þann 29.september 2008 yfirtók ríkið Glitni, þegar 75% í bankanum voru yfirtekin. Tveir fundir voru haldnir í stjórn Glitnis daginn eftir yfirtöku
ríkisins þann 30. september 2008 þar sem aðallega var verið að ræða mál Glitnis
sjóða hf.


Úr fundargerð stjórnar Glitnis frá 30. sept. 2008 kl. 8:00.
Á fyrri fundinum kl. 8:00 útskýrðu Lárus Welding og Eggert Þór Kristófersson stöðu sjóða Glitnis. Vegna ástands á fjármálamörkuðum og vegna
þess að ríkið hafði eignast 75% í bankanum, var talin umtalsverð hætta á því að
sjóðirnir gætu orðið fyrir miklum innlausnarhöggum. Þar sem eignastýringin sé
það mikilvæg tekjulind fyrir bankann er það mikilvægt að varðveita traust og
áreiðanleika sjóðanna. Það er því lagt til að bankastjórum verði veitt heimild
til þess fyrir hönd bankans að kaupa út úr sjóðunum skuldabréf sem gefin hafi
verið út af Stoðum, Baugi group og tengdum aðilum að fjárhæð 35 milljarðar kr.
Lárus Welding útskýrir að hann hafi rætt þetta við forsætisráðherra.
Þessarri tillögu var hafnað af stjórninni.


Úr fundargerð stjórnar Glitnis frá 30. sept. 2008 kl. 21:30.
Á síðari fundinum kl. 21:30 voru lagðir fram minnispunktar frá Lárus Welding. Útskýrði Lárus Welding nauðsyn þess að styðja við sjóðina við núverandi
aðstæður. Hann lagði til að bankinnkeypti allar kröfur á hendur Stoðum með
afslætti. Keyptar yrðu kröfur að fjárhæð 22 milljarðar á 11 milljarða kr. sem
myndi gera sjóð 1 og Sjóð 9 færi á að opna með 7% niðurfærslu. Þetta sé gert til
að varðveita orðspor eignastýringar bankans og koma í veg fyrir innlausnarhögg.
Þettvar kynnt sem áhætta fyrir bankann en enn væri möguleiki á því að
endurheimta þessa fjármuni. Lárus Welding mælti eindregið með því að þetta yrði
samþykkt og lét þess getið að lausn þessi nyti stuðnings bæða forsætisráðherra
og fjármálaráðherra. Þetta var samþykkt.
Stjórn Sjóðs 9 og rangfærslur Illuga Gunnarssonar alþingismanns. Í stjórn Sjóðs 9 var Illugi Gunnarsson alþingismaður og fyrrverandi aðstoðarmaður
þáverandi Seðlabankastjóra.

Á heimasíðu hans er sérstaklega fjallað um Sjóð 9. Sjóðurinn átti á þessum tíma 30 milljarða í Baugstengdum fyrirtækjum eða sem nam um þriðjungi af
heildareignum sjóðsins.
1. Þar segir m.a. að Glitnir hafi hafi verið einkabanki þegar bankinn hafi ákveðið að koma með þessum hætti inn í sjóð 9. Með hliðsjón af því sem að ofan
er rakið, er þetta rangt, auk þess sem ákvörðun um þetta var tekin af forsætis-
og fjármálaráðherra; fulltrúa eigenda bankans.
2. Enn fremur segir á heimasíðu Illuga að bankinn hafi verið að nýta viðskiptatækifæri með því að kaupa bréf útgefin af Stoðum með miklum afslætti.
Með hliðsjón af því að Stoðir voru á þessum tíma komin í greiðslustöðvun sem er
undanfari gjaldþrots, er ljóst að skuldabréfin voru einskis virði.
3. Að auki kemur það fram á heimasíðunni að engir fjármunir hafi runnið úr ríkissjóði vegna þessa. Hafa ber í huga að á þessum tíma er Glitnir kominn í
eigu ríkisins; fjármunirnir komu úr Seðlabankanum og ríkissjóður lánaði
Seðlabankanum síðar. með öðrum orðum eru það skattgreiðendur sem borga
brúsann.

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Söfnuðu fé fyrir flokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Athygliverð samantekt . . . og nú fer um þá Guðlaug og Illuga . . og alla hina litlu-frambjóðendurna sem eru með millifærslurnar "á samviskunni" - - og afhendingu þjóðareigna . . .

Benedikt Sigurðarson, 12.4.2009 kl. 16:13

2 Smámynd: Auðun Gíslason

Bjarni formaður:  Óheppilegt að styrkirnir voru færðir í bækur flokksins.

Getur maður á ályktað, að það hafi verið mistökin, þ.e. að styrkirnir hafi verið færðir í bókhaldið?  Hvort felast mistökin í að sníkja styrkina eða í því að bókfæra þá?  Er það ekki bein um styrk að tala við stjórnarmann í FL Group eða háttsettann mann í Landsbankanum.  Þetta  eru nú ekki einhver Jón Jónsson.

Auðun Gíslason, 12.4.2009 kl. 16:53

3 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

mistökin voru náttúrulega í að sníkja styrki af svona stærðargráðu og að leyfa móttöku þeirra. En skárra hefði það nú verið ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki fært þá til bókar, þá hefði flokkurinn verið eins og einhvers konar mafíustarfsemi. Sem betur fer er það nú ekki þannig og við skulum líka virða það að forustan er ekkert að breiða yfir þetta. Slyngir bókhaldsmenn sem hefðu viljað draga athygli frá þessu hefðu getað fært þetta inn sem styrki frá mörgum. Sennilega hefur skattrannsókn á FL group sýnt að þetta var ekki frá mörgum. bara Fl group.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 12.4.2009 kl. 20:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband