Tími Freyju, tími fjölbreytileikans

Það er frábært að vakna upp á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars  og sjá að algjör kvennalisti  vann í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðvestur-kjördæmi, konur urðu þar í fimm efstu sætunum. Þetta hefði glatt móður mína Ástu Hannesdóttur mikið. Móðir mín  lést árið 2000. Móðir mín starfaði með framsóknarkvennafélaginu Freyju í Kópavogi. Hún helgaði því félagi alla  sína félagsmálakrafta í mörg ár og var þar formaður um skeið.  Þess vegna hef ég alltaf fylgst vel með Framsóknarkonum í þessu kjördæmi og meira segja blandað mér í leikinn þegar Freyjumálið svonefnda stóð sem hæst í Kópavogi fyrir fjórum árum. Það mál var atlaga að öllum konum í Framsóknarflokknum og raunar öllu eðlilegu grasrótarstarfi í stjórnmálaflokkum.

Ég blandaði mér þá í málið og skrifaði grein í Fréttablaðið og tók málið líka upp á félagsfundi í mínu félagi í Reykjavík og gagnrýndi harðlega flokksforustu Framsóknarflokksins og einstaka ráðherra fyrir hvernig tekið var á þessu máli. Fyrir það hlaut ég lítið lof, eiginlega uppskar ég langvarandi útskúfun úr öllu starfi í mínu framsóknarfélagi mörg ár. En núna eru tímarnir aðrir í Framsóknarflokknum og ég held að flestir  sem stóðu að þessum vinnubrögðum  á sinni tíð eða létu þau óátalin hafi horfið úr starfi í Framsóknarflokknum eða séð að þessi vinnubrögð koma öllum illa og gera stjórnmálastarf að skrípaleik.  

Hér er til upprifjunar greinin sem ég skrifaði í Fréttablaðið 23. febrúar 2005:
Umsátrið um Freyju í Kópavogi.

Það kemur mér raunar ekki á óvart að sjá hversu sterkar konur eru í Suðvestur kjördæmi. Það eru fyrir tvær konur sem eru á þingi og svo hafa Una María og Bryndís Bjarnarson verið mjög áberandi í jafnréttisstarfi, þær hafa báðar verið formenn landsambands Framsóknarkvenna og hafa mikla reynslu.  Það er líka í Suðvestur kjördæmi sem ég held að fjölskyldur finni margar hvað mest fyrir kreppunni, þarna eru úthverfin frá Reykjavík, í Kópavogi og Hafnarfirði og Mosfellsbæ eru barnafjölskyldurnar sem núna eru að sligast af skuldum.

Það munu rúmlega þúsund manns hafa greitt atkvæði og féllu þau svona:

1. Siv Friðleifsdóttir  498 atkvæði

1.-2. sæti Helga Sigrún Harðardóttir 433 atkvæði

1.-3. sæti Una María Óskarsdóttir 394 atkvæði

1.-4. sæti Bryndís Bjarnarson 439 atkvæði

1.-5. sæti Svala Rún Sigurðardóttir  510 atkvæði

Samkvæmt prófkjörsreglum mun þessi sigur í prófkjöri ekki tryggja þessum fimm skeleggu og ágætu konum þessi sæti á lista. Þær eru allar ótrúlega frambærilegar og sterkar konur en Framsóknarflokkurinn er flokkur sem leggur áherslu á fjölbreytni og er flokkur þar sem mikil áhersla er lögð á að listar séu ekki of einsleitir m.a. miðað við kyn. Frambjóðendur vissu allir af þessum prófkjörsreglum, það munu einhverjar konur færast niður vegna þess að það er allt of einsleitur listi sem stillir konum upp i fimm efstu sætunum. Helmingur kjósenda er karlar og listi til alþingiskosninga verður að endurspegla fjölbreytileikann í samfélaginu.

Hugleiðingar um forvalið í Reykjavík

Það er athyglisvert að sama staða kom upp í Reykjavík á kjördæmisþingi Framsóknarmanna þar í gær. Það var upphaflega lagt til að það yrðu tveir karlar  þ.e. formaður flokksins Sigmundur Davíð og vinur hans Magnús  Árni Skúlason  í tveimur efstu sætum í Reykjavík norður.  Það varð   umræða um að  ekki væri heppilegt að á lista veldust saman í efstu sætin of líkir einstaklingar og nánir vinir og m.a. bent á að heppilegt væri að hafa fléttulista karls og konu, samstarfs Sigrúnar Magnúsdóttur og Alfreðs Þorsteinssonar hefði ávallt verið farsælt þó þau væru mjög ólík og þau farið saman í gegnum fimm kosningar .

Ég held að þetta ásamt því að Magnús Árni hefur unnið sem ráðgjafi fyrir Guðlaug Þór hafi valdið því að ekki var fullkomin sátt um Magnús Árna í annað sætið á eftir Sigmundi Davíð. Magnús Árni kom ákaflega vel fyrir á fundinum og sýndi mikla stjórnvisku að draga framboð sitt til baka.

Það getur verið að það komi almenningi spánskt fyrir sjónir en staðan er einfaldlega þannig núna í Framsóknarflokknum að þar eru menn  ofurviðkvæmir fyrir öllu sem gæti verið tekið sem dæmi um spillingu. Reyndar er það ekki spilling að vinna fyrir stjórnvöld að ráðgjafastörfum eins og Magnús Árni hefur gert, ekki frekar en það er spilling að bjóða sveitarstjórnarmönnum utan af landi í móttöku eftir fund eins og Óskar Bergsson gerði, fund sem var haldinn til að kynna fyrir þeim hvernig staðið var að málum í Reykjavík, ekki síst hve góður viðsnúningur varð þegar Framsóknarmenn undir forustu Óskars Bergssonar frelsuðu borgina úr hanskaklæddum klóm Ólafs H. Magnússonar.

En það virðist sama hvað Framsókn gerir, þó að grasrótin hafi unnið yfir flokkinn og vinni nú hörðum höndum að því að byggja upp lýðræðislega hreyfingu þar sem áhersla er á fjölbreytileg sjónarmið þá virðast andstæðingar vera eins og Ólafur F. í Reykjavík að hjakka í einhverjum vitleysisgír, tilbúnir til að ásaka Framsóknarmenn um spillingu og gera það á mjög siðlausan og ruddalegan hátt. Það er reyndar bara eitt andsvar við því það er að láta ekki svoleiðis andstæðinga draga sig niður á sama plan, halda bara áfram að halda uppi skynsamlegri og ábyrgri umræðu og málflutningi og vinna af festu að þvi að breyta innviðum og starfsemi í lýðræðisátt bæði í flokknum og í samfélaginu.

Ég er ánægð með að niðurstaðan er sú að Einar Skúlason skipar annað sætið í Reykjavík suður, ekki síst vegna þess að Einar hefur unnið hjá Alþjóðahúsi og hefur mikla reynslu af starfi með innflytjendum og mun verða öflugur málsvari þeirra. Ég sakna þess reyndar að sjá ekki neina sem ég veit að eru af erlendu bergi brotna á listanum hjá okkur, við verðum að tryggja fjölbreytnina, listar okkar verða að endurspegla samfélagið, vera sem jafnast hlutfall af konum og körlum, fólk á öllum aldri, fólki á vinnumarkaði og fólki sem er ekki á vinnumarkaði, fólki með mismunandi bakgrunn og mismunandi reynslu.

Það er annað sem ég vek athygli á varðandi þá lista sem Framsóknarflokkurinn kemur til með að bjóða fram í Reykjavíkurkjördæmunum, það er ákveðin slagsíða á þeim listum miðað við aldur. Í fyrstu þremur sætum eru allt frekar ungt fólk og allt fólk á svipuðum aldri.  Það þarf  ekki að rýna mikið í tölur til að vita að kjósendur Framsóknarflokksins eru flestir eldra fólk, Framsóknarflokkurinn hefur ekki notið fylgis meðal yngra fólks undanfarin ár. Ég hugsa að hluti af fylgi Framsóknarflokksins sé nokkuð fast í hendi, eldra fólk sem mun halda áfram að kjósa flokkinn þó þar sé ekki í framlínusveit neinir á þeirra aldri.

Það kann því að vera gott sóknarfæri að stilla upp lista með yngra fólki en  Vinstri grænir og svo Sjálfstæðisflokkurinn haft nokkra yfirburði að nát til þess aldurflokks. Hins vegar kann þessi áhersla á frekar ungt fólk allt á svipuðum aldri í möguleg þingsæti og varaþingsæti að vera endurspeglun á aldursfordómum í samfélaginu, aldursfordómum sem endurspeglast í sjónvarpsskjáum okkar á hverjum degi.  Það er mest eldra fólk sem horfir á sjónvarp en sú tegund af sjónvarpsmiðlun sem ríkissjónvarpið stundar er miðlun og innprentun á æskudýrkun.

Þó að ég sé fullkomlega sátt við þó lista sem bornir eru fram í Framsóknarflokknum í Reykjavík núna þá finnst mér að það hefði átt að vera meiri aldursblöndun í efstu sætunum, mér finnst mikilvægt að Alþingi Íslendinga sé ekki samkoma fólks sem allt er á sama aldri og með sömu viðhorf til lífsins. Ég held að lausn á þvi´að byggja upp gott samfélag sé að  virkja fjölbreytileikann, að læra að vinna með og í samstarfi við fólk sem er ólíkt manni sjálfum. Þess má reyndar geta að í fjórða sæti í báðum kjördæmum eru konur yfir fimmtugt, ég í Reykjavík suður og Fanný í Reykjavík norður og svo er fólk á öllum aldri neðar á listanum.

Þar er líka eitt merki til samfélagsins um hve mikill umsnúningur er núna í Framsóknarflokknum að stilla upp ungu og frekar óreyndu fólki, fólki sem hefur ekki fortíð í þeim stjórnmálum heldur ungu fólki sem hefur allt að vinna að byggja upp góð lífsskilyrði að nýju í Reykjavík. Þegar ég hugsa þetta betur þá finnst mér að við þær aðstæður sem eru núna þá sé gott að það sé þessi slagsíða á efstu sætum, það unga fólk sem við teflum fram í fyrstu sætum er einmitt af þeim aldursflokki sem verður nú harðast fyrir barðinu á kreppunni, ungt fólk sem er núbúið með skólanám eða nýlega búið að kaupa húsnæði.

Annars er gaman að það skuli vera komin svo mikil sátt um kynjasjónarmið á listum a.m.k. í Framsóknarflokknum  og konum gangi svo vel í prófkjörum  að ég þurfi ekki lengur að beina allri orku í að berjast fyrir kosningaþátttöku kvenna heldur geti farið að skoða aðra þætti mismununar í samfélagi okkar. Ég hugsa að ég eigi  í framtíðinni eftir að tjá mig og reyna að  sporna gegn því að   fólki sé kerfisbundið mismunað á ýmsan hátt  vegna aldurs í samfélagi aldursdýrkunar og hvernig fólki er kerfisbundið mismunað vegna  ákveðins útlits (t.d. líkamsþyngdar eða hörundslitar) í samfélagi útlitsdýrkunar sem aðeins viðurkennir eina gerð af útliti sem staðall fyrir það sem er fallegt og eftirsóknarvert.  Ég vona að fólk sjái að fegurðin býr í fjölbreytileikanum og samfélag fjölbreytileika og umburðarlyndis er miklu vænlegra til að ná árangri.

Í því samfélagi sem við erum í núna er mikil mismunum vegna starfa fólks en stór hluti af sjálfsmynd fólks kemur í gegnum starf. Fólk sem ekki er á vinnumarkaði er að mörgu leyti réttlaust og að sumu leyti er samfélagið núna þannig að það mismunar sumu fóki  og útskúfar - sumir hafa vinnu og hafa þau réttindi sem vinna tryggir en sumir eru atvinnulausir og hafa þá brotnu sjálfsmynd og það litla valfrelsi sem þeirri stöðu fylgir - sumir eru á örorkubótum.

Vonandi verður það þannig að Framsóknarflokkurinn verður flokkur sem sameinar fólk og þar sem  ólíkir einstaklingar með ólíkan bakgrunn  kunna  að vinna saman vegna þess að þeir deila sýn  félagshyggju og samvinnuhugsjónar og hafna blindri auðhyggju.


mbl.is Siv efst í SV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Aukin þáttaka kvenna í Framsóknarflokknum er mjög ánægjuleg. Gaman þætti mér einnig að sjá konu taka við formannsembættinu síðar.

Svo vil ég óska þér hjartanlega til hamingju með alþjóðlegan baráttudag kvenna Salvör mín!

Hilmar Gunnlaugsson, 8.3.2009 kl. 18:21

2 Smámynd: Finnur Bárðarson

Þetta er ótrúlegt að sjá og ánægjulegt. Körlunum bara rutt til hliðar. Það má alveg sleppa þessum kynjakvóta.

Finnur Bárðarson, 9.3.2009 kl. 10:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband