Framsókn í Reykjavík Norður

Það er gleðilegt að nýr formaður okkar Framsóknarmanna Sigmundur Davíð hefur núna lýst því yfir opinberlega að hann bjóði sig fram í Reykjavík norður. Hann reyndar lýsti því yfir á aukakjördæmisþingi okkar um síðustu helgi að hann myndi bjóða sig fram í þessu kjördæmi en svo hef ég verið að sjá á einhverjum netsíðum  vangaveltur um að hann hyggðist fara í framboð annars staðar og var orðin hrædd um að framboð hans í Reykjavík gengi ekki eftir.

Þó að Framsóknarmenn séu fjölmennir um allt land þá eru langflestir hérna á höfuðborgarsvæðinu og það er nauðsynlegt fyrir endurreisn Framsóknarflokksins að koma upp öflugu flokksstarfi hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er líka þannig að Sigmundur Davíð hefur sérþekkingu á mörgu sem eru aðkallandi vandamál hér á höfuðborgarsvæðinu, hér varð fjárhagslega hrunið mest, hér búa flestir þeirra sem störfuðu í banka- og fjármálakerfinu og hér eru skipulagsmálin og uppbygging nýss borgarsamfélags í sátt við landsbyggðina hvað brýnust.

Það verður spennandi að sjá tillögu forvalsnefndar um lista í Reykjavíkurkjördæmum. Á aukakjördæmisþingi um síðustu helgi lagði ég fram tillögu um lokað prófkjör meðal flokksmanna en stjórn kjördæmasambandsins lagði fram tillögu um uppstillingu og talaði Sigmundur Davíð fyrir þeirri tillögu. Mín tillaga var felld í kosningum og ákveðið að skipa forvalsnefnd sem á að leggja til lista fyrir lok mánaðarins. Prófkjör eru svo sannarlega með mikla galla og geta sundrað fólki og ef mikil auglýsingamennska er í kringum þau og prófkjörsreglur litlar þá geta þau snúist upp í hömlulausar atkvæðaveiðar og atkvæðasmalanir sem hafa ekkert með lýðræði að gera.

En mér fannst mikilvægt að fram kæmi tillaga um einhvers konar form þannig að almennir flokksmenn hefðu eitthvað að segja um hvernig listinn ætti að líta út og ég þekki enga leið aðra en einhvers konar prófkjör. Tillagan um lokað prófkjör sem ég lagði fram var með alls konar fyrirvörum og ákvæðum m.a. um kynjasjónarmið þannig að kynjahlutfallið á endanlegum lista yrði sem jafnast. Það er þekkt að í prófkjörum hallar mjög á konur. Prófkjör hafa líka þann annmarka að sumir geta ekki hugsað sér að taka þátt í prófkjöri og reyndar skil ég það, það hafa fáir tök á því að taka sér frí frá vinnu í langan tíma, fyrst í kostnaðarsama prófkjörsbaráttu sem fólk greiðir úr eigin vasa og svo í kosningabaráttu flokka. En það má alveg sníða þessa vankanta af prófkjöri m.a. með að setja hámark á hverju frambjóðendur mega eyða og reglur um siðferði og hvernig má auglýsa.

En það verður sem sagt farið sú leið að stilla upp lista. Tíminn mun leiða í ljós hvort það var góð leið. En aðalatriðið í Framsóknarflokknum sem og öðrum stjórnmálaflokkum á Íslandi er að byggja upp starfið innanfrá, að byggja upp hreyfingu þar sem lýðræði virkar og þar sem óbreyttir félagsmenn hafa möguleika á að taka þátt í mótun samfélagsins gegnum stjórnmálaöfl og á þá er hlustað.

Í dag sótti ég svokallað heimskaffi um lýðræði, hvernig væri hægt að auka lýðræði á Íslandi. Þetta var mjög skemmtilegt, eiginlega ætti svona starfsemi að fara núna fram innan stjórnmálaflokka. Við erum á leið inn í þátttökusamfélag,samfélag sem líkist meira hinum margsamanvafna bloggsamfélagi heldur en einstefnu útvarpsmiðlum, samfélag sem komið er langt frá hinu línulega og ósveigjanlega prentsamfélagi.  

Ég held að stjórnmálaöfl á Íslandi verði að breytast og muni breytast. En breytingarnar verða að ná inn í flokkana, að innsta kjarna flokksstarfsins og það þarf að taka upp ný og breytt vinnubrögð. Það er ekki nóg að punta lista með nýju fólki og það er hættulegt tómahljóð í kosningum þar sem stillt er upp á  listum  fjölmiðlastjörnum, poppurum og lukkuriddurum sem hafa valið sér flokka og kjördæmi skömmu fyrir kosningar í von um að fljóta ofan á straumnum inn í þingsali.  Það er hins vegar von okkar allra sem látum okkur stjórnmál varða að atburðir síðustu mánaða hafi hrærst við öllum og fengið allt hugsandi fólk til að skilja og skynja að stjórnmál eru á ábyrgð okkar allra og ef við tökum ekki þátt og lýsum skoðun okkar og miðlum af þekkingu okkar þá er sú hætta að stjórnmálaflokkar verði handbendi aðila sem vilja ráðskast með fjöregg þjóða eins og sína einkaeign og kasta þeim á milli sín og brjóta og týna.

Það er mikilvægt að fleiri komi að ákvörðunum í samfélaginu, að upplýsingaflæði sé meira og betra og að þolað sé að það sé ekki bara ein rödd og ekki bara ein skoðun. Það er minni hætta á því að tekin sé kolröng ákvörðun ef hlustað er á sem flest sjónarmið. 

Núna er forvalsnefndin búin að auglýsa eftir framboðum, best að bjóða sig fram, ég hvet sem flesta sem styðja Framsóknarflokkinn og vilja vinna að uppbyggingu á Íslandi að gefa kost á sér. Þegar hafa þrír ágætir  karlmenn lýst því yfir að þeir sækist eftir fyrsta sæti á lista í Reykjavík, það er formaður okkar Sigmundur Davíð og þeir Hallur Magnússon og Einar Skúlason.

Ég sækist náttúrulega eftir sem efstu sæti.

En hér er auglýsingin frá Forvalsnefndinni

Framboð í Reykjavík

Forvalsnefnd Framsóknarflokksins í Reykjavík auglýsir eftir frambjóðendum á framboðslista flokksins í Reykjavíkurkjördæmum norður og suður vegna alþingiskosninganna 25. apríl 2009.

Þeir sem gefa kost á sér skulu tilkynna það til forvalsnefndar fyrir kl. 12 miðvikudaginn 25. febrúar 2009  með tölvupósti á netfangið reykjavik@framsokn.is eða skriflega á skrifstofu Framsóknarflokksins, Hverfisgötu 33, 101 Reykjavík.

Forvalsnefnd Framsóknarflokksins í Reykjavík

 


mbl.is Sigmundur Davíð býður sig fram í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband