Hvar skilar kynjabaráttan mestum árangri?

Svar: Alls staðar.

bleikur-hufa.jpgÞað er formlegur stofnfundur þriðja kvennaframboðs íslenskrar sögu núna. Það er hefð fyrir kvennaframboðum á Íslandi og þau hafa skilað góðum árangri og velt við mörgum steinum og málað marga steina bleika. Óhjákvæmilegt er að ný framboð komi fram  á tímum eins og núna, tímum þar sem allt er í upplausn og kerfið sem stjórnmálamenn og athafnamenn hafa byggt í kringum okkur virkar ekki. Eina sem það kerfi gerir núna er að virka eins og girðing og skuldafangelsi sem heldur okkur rígbundnum og heftir möguleika okkar til sjálfsbjargar. 

Á þessum tímum skulum við segja "Verum ekki vinnukonur kerfisins, tökum til okkar ráða og verum gerendur í okkar eigin lífi".  Að vera gerandi í eigin lífi felur í sér að taka þátt í stjórnmálum, að skipta sér að því hvernig leikreglurnar eru samdar og skilja út á hvað þær ganga og hvaða afleiðingar breyttar reglur hafa.

Það þarf femínista í alla stjórnmálaflokka, það þarf fólk með skilning á að kynjajafnrétti er spurning um mannréttindi í alla stjórnmálaflokka. Það hjálpar líka í baráttu að mynda samstillta hópa og þar gerir slíkt framboð og það gerðu fyrri kvennaframboðin. Þau komu bæði fram á tímum þar sem hrópandi mismunun var milli karla og kvenna og sú mismunun var ekki mest í lagalegu tilliti heldur í hvernig konum var kerfisbundið haldið frá þeim stöðum þar sem völdin voru og þar sem ákvarðanir voru teknar.

stofnun-feministafelagsins-audur-magndis.jpg

Þegar ég segi kerfisbundin mismunun þá á ég ekki við einhverja vonda kalla með ljót og meðvituð plott um að halda konum utangarðs og valdalausum heldur sjálfan strúktúr samfélagsins sem gerir konur að vinnukonum sem vinna kauplaust eða kauplitlar  vanmetin ummönnunarstörf í samfélaginu en karla að þeim sem einir ná að því borði þar sem uppskeru vinnunnar er skipt. Í samfélagi misskiptingar og kynjamismununar er uppskeru vinnunnar er skipt í tvo hluta og þeir eru bróðurparturinn sem er nánast allt og svo örlítil flís sem er fyrir systur allra landa.  Talið er að í heiminum í dag sé aðeins 1 % eigna í eigu kvenna, samt eru konur 50 % af fólkinu í heiminum.

bleikur-indland.jpgVið sjáum þessa kerfisbundnu útilokun í öðrum löndum og fordæmum hana þar. Við fordæmum að konur í sumum löndum skuli ekki fá að keyra bíl, skuli ekki fá að læra að lesa, skuli ekki vera til á opinberum pappírum og megi ekki sjást og ekki hafa ferðafrelsi. Við skiljum að þessi útilokun skiptir máli og skiljum að möguleika þeirra til að fá völd og sækja fram eru heftir. En við erum blind á eigin umhverfi, við sjáum ekki hvernig viðlíka kerfi er í gangi í okkar samfélagi, kerfi sem útilokar konur frá völdum.

Hvar eru konurnar sem fóru með fjöregg íslensku þjóðarinnar? Voru það konur sem spiluðu lottó með æru og skuldbindingar Íslendinga og köstuðu á milli sín verðmætum sem þjóðin átti? Eru það konur sem fengu úthlutað veiðikvóta Íslendinga? Eru það konur sem ráðstafa þeim kvóta? Eru það konur sem hafa stýrt fjármálum íslensku þjóðarinnar? Hvaða kona hefur verið fjármálaráðherra á Íslandi? Hvaða kona hefur verið forsætisráðherra á Íslandi? Og á meðan ég man... hvaða konur voru í einkavæðingarnefnd, Hvaða konur komu nálægt því að skipta og útdeila samsöfnuðum verðmætum til nokkrurra spilafífla og útrásarathafnamanna? 

bleikur-timbur.jpgHvers vegna er sökin á hruninu og þau andlit sem því tengjast ekki andlit kvenna þó þær séu sumar núna í hreinsunarstörfum eftir hrunið mikla?  Þessu er reyndar auðsvarað. Konur höfðu engin völd á Íslandi og fáar ef engar konur voru í sömu aðstöðu og þeir útrásarmenn sem fóru á shopping spree í útlöndum. 

Það vita allir að þau störf sem eru mikilvægust í þessu samfélagi eru ekki þau störf sem borguð eru með launum um hver mánaðarmót. Samfélag okkar helst saman á ósýnilegri vinnu, vinnu sem er að stórum hluta innt af hendi af konum. Ummönnunarstörf á heimilum og í fjölskyldum og í félagasamfélögum og á stofnunum eru stundum launum en langmestur hluti ummönnunar hefur aldrei verið inn í þeirri peningahagfræði sem hagfræðingar mæla. 

bleikur-barn.jpgSá hagvöxtur sem hefur verið að mælast víða um lönd er líka að hluta gervihagvöxtur sem skapast af því að það sem einu sinni var unnið á heimili í ólaunuðu starfi er núna orðið launað starf einhvers. Sá hagvöxtur sem hagmælingar mæla er líka blindur á gæði vinnunnar. Þannig mælist það sem hagvöxtur ef miklar róstur eru í samfélaginu og það þarf að ráða marga lögreglumenn og fangaverði til að passa innilokað fólk. 

Í samfélagi sem þarf að endurskoða og endurrita frá grunni þá er mikilvægt að raddir þeirra sem hafa eitthvað að segja  en hafa verið þaggaðar og eru með nálgun sem bersýnilega á meira erindi núna en áður heyrist hátt og skýrt og bergmáli um samfélagið.

Núna á þessum tímum þá þurfa konur sem alltaf hafa vitað að lífið snýst ekki um peninga og peningahagkerfið er gloppótt og mælir ekki það sem skiptir máli að koma fram og taka þátt í stjórnmálum og finna sér þann vettvang sem höfðar til þeirra. 

Sá vettvangur getur verið Neyðarstjórn kvenna en sá vettvangur getur líka verið Framsóknarflokkurinn, Vinstri Grænir eða Samfylkingin. Ég hef nú sleppt bæði Sjálfstæðisflokknum og Frjálslyndum í þessari upptalningu enda sé ég ekki betur en þeir flokkar séu beinlínis fjandsamlegir konum og kvenlegu gildismati, því gildismati sem metur umhyggju og samvinnu ofar auðhyggju, því gildismati að við stöndum öll betur ef við hjálpumst að en berjumst ekki hvort við annað.

Það er ekki slæm staða núna í augnablikinu varðandi konur sem ráða á Íslandi. En það má benda á að margar þeirra komust til valda vegna þess að karlar klúðruðu. Þannig er borgarstjórinn í Reykjavík núna kona en það var eftir að þrír karlar höfðu áður glimt við þetta embætti og varð brátt um þá alla á valdastóli. 

 En það eru mikilvæg skilaboð til allra kvenna í öllum stjórnmálaflokkum:

Verum ekki vinnukonur kerfisins!
Breytum og umbyltum kerfi sem virkaði ekki.


mbl.is Fréttaskýring: Er tíminn réttur fyrir nýtt kvennaframboð?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

 takk Salvör.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 30.1.2009 kl. 01:18

2 identicon

Ég er ekki viss um að konur séu betri en karlar. Mér finnst það minna á trúarbrögð að ákveða að svo sé.  Mér finnst við þurfa á einhverjum meiri raunveruleika að halda. Ég er ekkert sérstaklega hrifinn af þeim konum sem náð hafa völdum á Íslandi, hvorki Valgerði Sverrisdóttur, Ingibjörgu Sólrúnu, Svöfu Grönfeldt, Hildi Petersen, Sólveigu Pétursdóttur. Mér sýnist þær hafa fallið ósköp notalega inní spillinguna og eða kerfið almennt.

 Förum við ekki að verða leið á svona quick fix umræðum? Þurfum við ekki að horfast í augu við að það þarf að rækta uppeldi ungs fólks, efla dyggðir og byggja upp einstaklinga? Siðvæða þjóðfélagið, efla sanna menntun og hugsjónir? Gleði yfir að vera Íslendingar?

Ég er búinn að fá leið á einföldum sannindum. Lífið er flókið og að halda samfélaginu hreinu er stöðug vinna sem lýkur aldrei.

Doddi D (IP-tala skráð) 30.1.2009 kl. 02:54

3 identicon

Góður pistill.

Get ekki lesið það af kröfum um fleiri konur að konur séu eitthvað betri eða verri.

Það er verið að ræða það að því fleiri konur því meiri fjölbreytni og í fjölbreytninni kemur betri útkoma.Sama á við um störfin almennt.Fleiri karlar sem ala upp börn því meiri fjölbreytni sprettur og víðsýni.

Jafnréttið og jafnræðið hefur sýnt sig vera´sú stefna þar sem mannskepnan þrífst  best.

Margrét (IP-tala skráð) 30.1.2009 kl. 15:13

4 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Frábær pistill, bestu þakkir. Verst að sumum körlum finnst jafnréttishugsjónin vera aðför að karlkyninu og reyna af öllum kröftum að tala slíkt niður. Vildi að þeir hugsuðu aðeins út fyrir rammann sinn, um velferð eiginkvenna sinna, systra, dætra, mæðra ... áður en þeir sjá rautt ef talað er um að konur fái jafnrétti á við karla. Ég get ekki skilið pistilinn þinn þannig að þú teljir konur betri en karla. Þetta er bara spurning um almennt réttlæti. 

Guðríður Haraldsdóttir, 30.1.2009 kl. 19:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband