Stjáklarar og álitsgjafar

Kastljósið bauð upp á nýbreytni í áramótauppgjöri sínu, nokkrir bloggarar voru spurnir álits. Ég var ein þeirra og spókaði mig í Kastljósinu bæði í gærkvöldi og núna í kvöld. Ég finn náttúrulega mikið til mín og finnst þetta allt miða á rétta leið þegar ég er komin meðal þeirra álitsgjafa á Íslandi sem gera upp árið við áramót. Ég valdi Geir Haarde sem skúrk ársins, ég sagði Sigurð Einarsson í Kaupþingi versta viðskiptamann ársins og sagði það mesta aulahroll ársins þegar Sjálfstæðismenn í borginni dubbuðu Ólaf Magnússon upp sem borgarstjóra. Sem ummæli ársins valdi ég "Ég er með mörg hnífasett í bakinu" sem Guðjón Ólafur sagði í Kastljósi og þó ég hikaði ekki við að persónugera vandann og miða fast á einstaklinga til að fókusera á skúrkana og þá verstu og það fáránlegasta þá hafði ég soft fókus á hetjunum en í þann flokk setti ég alla þá sem skapað hafa okkur alþýðu Íslands eitthvað rými til að vinna úr og með þá stöðu sem komin er upp - hetjurnar mínar voru Hörður Torfason með sína mótmælafundi, Gunnar Sigurðsson með borgarafundi, Egill Helgason með sitt blogg og bloggkommentasamfélag og Björk Guðmundsdóttir með sitt næmi og sína skapandi atorku sem beinist að því að virkja - ekki orkuna úr fallvötnunum - heldur skapandi kraftinn sem ólgar í Íslendingum núna, kraftinn sem getur alveg farið í að brjóta allt og bramla en getur líka farið í að skapa og búa til eitthvað nýtt og öðruvísi.

Hér eru Kastljósin með bloggálitsgjöfunum:

http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4431286/2008/12/29/5/ 

http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4431287/2008/12/30/ 

Beint á bloggálitsgjafana: 

Bloggarar velja hetjur ársins

Bloggarar velja aulahroll ársins

Bloggarar velja versta viðskiptamann ársins

Skúrkar ársins að mati álitsgjafa

Ummæli ársins að mati álitsgjafa

Hneyksli ársins að mati álitsgjafa

Ég sofnaði nún í kvöld en vaknaði við skrýtið símtal úr númerinu 8494331 sem ég kannast ekki við. Ég geri ráð fyrir að þetta hafi verið einhvers konar símaat tengt því að ég var í Kastljósinu en mér fannst símtalið óþægilegt, ég er ekki vön að verða skotspónn stjáklara. Annars er stjáklari annað orð fyrir stalker, ég lærði þetta af bókinni hennar Guðrúnar Evu Mínervudóttur sem ég er núna að lesa. En þetta símaat gekk sem sagt út á það að einhver maður spurði mig fyrst út í sjálfa mig og bakgrunn minn. Ég svaraði því eftir bestu getu, hélt að maðurinn vildi vita hvort hann færi mannavillt. Svo fór viðmælandinn eitthvað að rugla um að hann sjálfur væri geðlæknir og hvernig ég gæti fullyrt að einhver væri geðveikur. Ég kom nú alveg af fjöllum, ég talaði örugglega ekkert um geðveiki eins eða neins og það  að vera skúrkur, versti viðskiptamaðurinn, óhæfur borgarstjóri eða telja sig með mörg hnífasett í bakinu er nú ekki sama og vera geðveikur. Ég hvessti mig nokkur við viðmælanda í símanum þegar ég hafði áttað mig á hvað hann væri að ásaka mig um og heimtaði að vita meira um við hvern ég talaði og hvaða lægi að baki símtalinu. Viðmælandi lauk símtalinu með einhvers konar hótun, eitthvað um að símtalið væri tekið upp og sýnt í beinni, rövlaði eitthvað um einhvern skjá.

Svo sá ég rétt áðan að einhver hafði skráð sig inn á blog.is undir nafni Kristins H. Gunnarssonar alþingismanns og mynd af Kristni og  skrifað  einhverja aulalega typpalengingarfærslu sem komment við bloggið hjá mér.  Mér finnst þessi stjáklarahegðun vera alvarleg, það er í fyrsta lagi alvarlegt að falsa auðkenni annarrar áberandi persónu og tengja nafn alþingismanns við svona kommentastalkera. Í öðru lagi er alvarlegt að ráðast inn í líf fólks með símtölum og ógnandi framkomu, tala niður til fólks og saka það um eitthvers konar glæp (ég áttaði mig nú reyndar ekki á því í símtalinu hvaða glæp ég átti að hafa framið með tjáningu í Kastljósviðtölum í gær og dag) og í þriðja lagi þá gekk gjörsamlega fram af mér þegar sá sem hringdi í mig var með einhverja hótun að hann hefði tekið þetta upp og væri að spila einhvers staðar í beinni.  Þetta er mjög vondur hrekkur. Það virkar nú reyndar ekki á mig hvort eitthvað sé spilað í beinni sem ég segi, ég hef einmitt reynt að vera með sem opnasta tjáningu sjálf í ýmsum vefrýmum  í mörg ártil að prófa svona miðlun. En það er ólöglegt að taka upp einkasamtal og það er ólöglegt að birta svona einkasamtöl og það sem var verst - það virtist vera einlægur ásetningur þess sem stóð að þessu símaati að fá mig til að tala eitthvað um geðveilu nafngreindra persóna (sem ég reyndar fékkst ekki til að gera þó þetta væri einkasamtal) og að því leyti er þetta samtal siðlaust. Ég velti fyrir mér hvort löglegt er hjá mér að skrifa þetta símanúmer hérna en það var hringt í mig úr númeri 8494331 kl. 22:13 í kvöld. 

Ef einhver annar hefur fengið  sams konar símtöl úr þessu símanúmeri eða þekkir til þeirra sem að því standa þá væri gott að vita af því. 

En ég nenni ekki að gera meira í þessu máli úr því ég er búin að tjá mig um hve það pirraði mig mikið. Kannski var sami að stalka mig í kommentum og í símtali.

Smáupprifjun um álitsgjafann mig: 

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan ég hóf upp raust mína í bloggheimum þann 1. apríl 2001 með blogginu Álitsgjafar Íslands en það fjallaði einmitt um valdið sem orðræðan býr til og það er hugleiðing um hvernig eða hvort blogg muni breyta fjölmiðlun. Á þeim tíma vissu fæstir hvað blogg var og bloggsamfélagið á Íslandi var um tuttugu sjálfhverfir nördar.

En það er gaman að rifja upp það sem ég sagði um blogg og álitsgjafa og vald fyrir sjö árum.
Hér er brot af því: 

Það er samt umhugsunarefni er að með því að segja að einhver sé álitsgjafi þá verður hann að álitsgjafa eða alla vega fær eins konar völd í krafti þess að einhver heldur að hann hafi áhrif og hamrar á því við aðra. Ef við lifðum ennþá í einangruðu samfélagi þar sem einu boðin sem berast um samfélagið væru þessi skekkta mynd sem hefðbundnir fjölmiðlar gefa af valdinu - þessi mynd sem er byggð að hluta til á óskhyggju þeirra sem ráða yfir rödd sem ómar lengra en annara um að þeirra sé mátturinn og dýrðin - þá myndum við ef til vill trúa og þannig ýta undir valdið sem orðræðan býr til. En tímarnir eru breyttir og enginn þarf nú að treysta á fjölmiðlarisa og opinberar fréttastofur sem einu rásina sem lýsir og skýrir framvindu atburða. Rödd hvers einstaklings getur hljómað og náð til þúsunda í gegnum ljósþræði Netsins en þær raddir sem þar kveða nú eru ekki samvalinn kór heldur sundurlausar og hrjúfar og stundum eins og gargandi hávaði.

Mun frásagnarstíll breytast?

Þeim fjölgar óðum sem tjá skoðanir sínar, viðhorf og flytja fréttir af tilveru sinni á Netinu. Í sumum tilvikum er það í gegnum netrit gróinna áhrifaafla - eins konar framlenging, umbreyting og útvíkkun á annarri áróðusstarfsemi en í sumum tilvikum er þetta nýtt form, tjáningarform sem Netið hefur gert mögulegt. Einstaklingar sem tjá sig og halda skrá yfir viðburði og áhrifavalda í lífi sínu. Það er næstum hlægilegt í dag að halda því fram að svoleiðis einkarásir séu ógnun við vald hefðbundinna fjölmiðla - það þarf ekki annað en leggjast um stund í að skoða þessa vefannála eða vefleiðara (weblogs) hérlendis og erlendis til að sannfærast um að um að hér er gjörbreytt fréttamat og frásagnarstíll, hér ægir saman frásögnum af persónulegri reynslu og einkalífi og útleggingum á heimsviðburðum og afkomunni hér á skerinu. Skrifin eru stundum eins og hömlulaus spuni og fara yfir öll mörk og viðmið um hvað við teljum nú sæmandi er að fjalla um í opinberri orðræðu. En getur verið að svona tegund af tjáningu eða ritun sé nær almenningi - getur verið að þarna örli á ritstíl og menningu sem mun teygja sig yfir í margs konar miðlun í framtíðinni - getur verið að framsetning frétta og frásagna í hefðbundnum fjölmiðlum í dag sé eins og steinrunnið ritmál sem hefur fjarlægst það mál sem raunverulega er talað í landinu?

Það er umhugsunarefni að í þessu bloggi er ég sérstaklega að bera saman blogg og dagblöð. Ég held að á þessum tíma hafi ég verið  einna framsýnust á Íslandi um hvaða áhrif blogg myndi hafa, þetta var á tíma þar sem blogg þótti mjög óvirðulegt og ungæðingsleg tímaeyðsla og nördaiðja. Núna aðeins sjö árum seinna eru það sem áður voru dagblöð að breytast í einhvers konar blogggáttir. Þannig  er Mogginn á Netinu afar mikið tengdur blogginu og eyjan.is er blogggátt. Það er ekkert efamál að bloggsamfélagið styrkir mbl.is, það tryggir miklu meiri umræðu og lestur að hafa í kringum sig öflugt notendasamfélag. 

 

test

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég skil afar vel að þetta símtal hafi valdið þér óróa. Það er miður geðslegt að vera vakinn með ósmekklegu kjaftæði einhverrar ónafngreindrar persónu og jafnvel hótun í ofanálag. Reyndar er svo komið að þessi vettvangur er orðinn einskonar sparkvöllur fólks með hin ýmsu einkenni innri vandamála. En í þessu kvöldspjalli sem ég fylgdist með á skjánum í kvöld fannst mér þú verða þér til sóma eins og vænta mátti. Sama má segja um þau hin og auðvitað var alveg bráðnauðsynlegt að fá "álit" Gísla Valdórssonar líka svona upp á breiddina að gera. Ósmekklegur fjandans klaufaskapur að hafa ekki föðurnafnið rétt á skjánum.

Árni Gunnarsson, 31.12.2008 kl. 00:27

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ha?

Var þetta sýnt einhvers staðar? 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 31.12.2008 kl. 00:31

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Mér fannst þið álitsgjafarnir standa ykkur vel, nema að ég var ósammála Gísla, þessum unga manni sem var greinilega fylgjandi stjórninni.  Ég er sammála því að Hörður Torfason sé hetja, ég hef mætt á alla mótmælafundina nema þann fyrsta.  Burt með spillingarliðið.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 31.12.2008 kl. 03:32

4 Smámynd: Guðrún Stella Gissurardóttir

Tókst þig vel út - áramótakveðja að vestan:

Væskileg króna og vesöl þjóðVart árið út þau hjaraLeikur er allur og þeirra  ljóð launin evrópsk þrælasnara Út þeir vilja, Evrópa meðÚtrásarinnar nýji kafliÞótt leiki bara lítið peðÍ leikfléttunar tafli Bjartur og Birta sig gefi nú framm til bjargar þjóðinni smáuAldrei aftur stórkarla jammÚr sæti falla svo háu gsg

Guðrún Stella Gissurardóttir, 31.12.2008 kl. 11:49

5 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Þú stóðst þig með sóma Salvör. Mikið er leiðinlegt að heyra að fólk með músarhjörtu sé að trufla þig (öðru nafni stjáklarar). Það eru yfirleitt bleyður sem láta þannig.

Anna Karlsdóttir, 31.12.2008 kl. 13:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband