Mannréttindi fanga á Íslandi

Andri Snær sagði í ræðu á einum útifundinum á Austurstræti þessa snjöllu setningu: "Þú þekkir ekki fólk nema þú hafir  skipt með því arfi".  En hvernig þekkir maður samfélag? Hvernig þekkir maður þjóð? Þú þekkir ekki þjóð þína nema þú hafir skilið hvernig auði og völdum og aðstöðu er dreift um samfélagið og hverjir mega tala, hverjir búa við  athafnafrelsi og ferðafrelsi, hverjir mega eiga börn, hverjir eru fjötraðir niður og af hverjum. Og úr hvaða efni eru fjötrarnir gerðir.

Í því Íslandi sem við siglum inn í eru fjötrarnir búnir til úr skuldum. Þeir eru líka búnir til strax og þú fæðist og stundum áður en þú fæðist, þeir eru lagðir á þig eftir því hvort kynfæri þín snúa inn eða út, eftir því hver hörundslitur þinn er og eftir því hver þjóðaruppruni og þjóðfélagsstaða foreldra þinna er. Stundum eru fjötrarnir ósýnilegir, stundum eins og glerþak sem ómögulegt er að komast upp fyrir og stundum eru þeir eru þeir snúnir saman í sterkan vír úr tabúum samfélags sem leyfir aðeins útvöldum að nota orðræðu og athafna sig í þeim rýmum sem geta fært þeim aukin völd og aukin áhrif. 

Víða um heim er það vöggugjöf samfélagsins til meybarna að þau þurfi  frá blautu barnsbeini  að lifa og hrærast í rými sem mun halda þeim fjötruðum til æviloka. Þó þessir fjötrar séu stundum gerðir úr ósýnilegu efni þá eru þeir undrasterkir og  það eru í gangi alls konar öfl sem vinna að því að hinir fjötruðu komi ekki auga á fjötra sína og líti á þá  sem halda  þeim föngnum og hirða  afrakstur iðju þeirra  sem velgjörðarmenn sína. 

Það er auðvelt fyrir okkur að koma auga á fjötra í annarri siðmenningu, við hristum hausinn yfir að konur í því ríka landi Saudi-Arabía megi ekki keyra bíl og við erum hneyksluð á skipunum Talibana að gera  konur að ósýnilegum  og blæjuhuldum verum sem ekki megi vinna launuð störf.

Aldrei eru fjötrar samfélagsins þó ljósari og sýnilegri en hjá þeim sem er útskúfað og annað hvort reknir frá þátttöku í samfélaginu eða beinlínis læstir inni. Það er mjög mikil hætta að mannréttindi séu brotin á þessum hópum.  Þannig er fólk í innflytjendabúðum/flóttamannabúðum og fólk í fangelsum sérstaklega illa sett. 

Alveg eins og við þekkjum ekki manneskju fyrr en við höfum skipt með henni arfi þá getum við sagt að við þekkjum ekki samfélag eða þjóð fyrr en við höfum skynjað og skilið hvernig samfélagið fer með þá sem eru utan garðs, þá sem eru útskúfaðir og fyrirlitnir og þá sem eru lokaðir inn í fangelsum. 

Núna eru íslensku fangelsin yfirfull af veiku fólki. Sumir fangar eru geðveikir. Stór hluti fanga í íslenskum fangelsum er þar vegna fíkniefnabrota og stór hluti þeirra er í bullandi neyslu. Neyslu sem hættir ekki þó fangelsisdvöl hefjist. 

En þó er íslenskt samfélag miklu betur sett en t.d. hið bandaríska. Þar er seta í fangelsi hluti af lífsreynslu miklu fleiri og þar eru fangelsin full af ungum blökkumönnum.  Það er aðalsmerki á íslensku samfélagi að tekið er af föngum af mildi og þeir eiga sér viðreisnar von. Á  Alþingi situr nú fyrrum fangi sem afplánaði sinn dóm á Litla-Hrauni.  Það eru hins vegar nokkur dæmi af hegðun lögreglu við fanga sem enginn Íslendingur getur verið stoltur af. 

Ein af jólabókunum í ár er bók Erlu Bolladóttur  Erla, góða Erla, bókin um fangann sem varð trúboði. Saga Erlu er harmsaga af réttarkerfi semvar stórlega áfátt og ég trúi því að margir lögreglumenn sem unnu að því máli sjái það núna í öðru ljósi.

Núna lifum við á tíma hryðjuverkahræðslu en það færist sífellt lengra og lengra hver er talinn hryðjuverkamaður og hver er talin hryðjuverkaþjóð. En í krafti þessarar hræðslu við árás innan frá þá hafa lögreglur komið sér upp skrýtnum vinnubrögðum. Það er alvarlegt mál ef lögreglan ætlar í framtíðinni að hafa tangarhald á fólki með því að nota sektargreiðslur til að handtaka fólk og taka það úr umferð þegar það hentar lögreglu og sérstaklega beina því að  fólki  sem er líklegt til að vera með uppákomur á mótmælafundum. Ef til vill erum við að fara inn í samfélag þar sem við öll verðum skuldaþrælar, samfélag þar sem við verðum öll ofurseld kröfum frá þeim sem eiga þær skuldakröfur sem allt í einu hafa fallið á okkur.

Hve ömurleg er ekki sú framtíðarsýn að okkur verði stungið inn í skuldafangelsi og tekin úr umferð eða gjaldfelldar samstundis skuldir okkar ef við dirfumst að hafa okkur í frammi í sambandi við samfélagið sem við lifum í.

Það er hættuleg þróun að hræðsla við róstur og uppþot verði til þess að lögreglan stundi vinnubrögð eins og hún gerir núna og festi slík vinnubrögð í sessi. Ekkert er eins hættulegt og ríki þar sem valdhafarnir og þeir sem eru undir þá settir eins og lögreglan fari að líta á þegnana í eigin ríki sem óvini sína.

 

 


mbl.is Var ekki látinn vita
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Heyr!!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 24.11.2008 kl. 13:17

2 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Heyr, heyr!!!

Anna Karlsdóttir, 24.11.2008 kl. 16:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband