Hrægammar tína upp mulninginn úr peningavélinni

Það er óhugnanlegt að lesa lýsingar á því sem gerst hefur í íslensku athafnalífi undanfarin ár, lesa hve gersamlega helstu gerendur í fjármálalífi  misstu alla fótfestu og jarðsamband við raunverulega verðmætasköpun, lesa hvernig íslenskir athafnamenn og stjórnendur banka opinbera sig sem sjúka spilafíkla sem einu sinni voru að vinna góð og uppbyggileg störf en hafa undanfarin misseri látið dáleiðast af og blindast af spilafíkn og peningahringekjum og hrifsað til sín verðmæti sem þeir hafa ekkert unnið fyrir og hafa haldið að peningamaskínuvél bankanna myndi mala þeim gull um aldur og ævi eins og kvörnin Grótta.  En þessi peningagerðarvél lét ekki að stjórn enda er henni  stýrt af öflum sem enginn Íslendingur ræður vil og hún breyttist í ófreskju sem  malaði flesta athafnamenn  og flestalla Íslendinga mélinu smærra og núna koma hrægammar úr þeim heimi sem býr til svona peningavélar og tína upp mulninginn og íslensk stjórnvöld og frammámenn í atvinnulíf tala eins og þetta sé spurning um að endurreisa sams konar peningavélar og byrja sams konar mölun.

Fólk verður að skilja að þetta er stórhættulegt kerfi, kasínókapítalismi sem gengur út á að búa til skuldaviðurkenningar úr verðmætum, skuldir sem geta dreifst um alla jörðina og sogast á ákveðna staði er kerfi sem býr til skuldaþræla úr íbúum heimsbyggðarinnar, þræla sem búa og vinna í hjálendum þar sem verðmæti vinnunnar getur sogast á aðra staði.

Gunnar Smári skrifar ágætan pistil í Morgunblaðið í dag.
Pistillinn er ágætur að því leyti að hann setur íslenskar aðstæður í samband við heiminn.  Það fer mikill tími núna á Íslandi í að finna sökudólga og vissulega eru þeir margir sem hefðu átt að standa vaktina en flutu sofandi að feigðarósi. Vissulega eru það líka margir sem léku hetjur og skapandi athafnamenn en hafa nú afhjúpast sem spilafíklar sem var hleypt of nálægt peningaprentunarvélum. Það er samt hollt að hafa í huga að þær aðstæður sem ullu brotlendingu á Íslandi eru ekki aðrar en aðstæður sem núna valda sams konar eymd annars staðar þó það sé ekki eins sýnilegt og við höfum þá (fölsku?) trú að stórveldi muni frekar geta afstýrt tjóni og varið almenna borgara í sínum ríkjum fyrir þessu fjármálafárviðri.

Gunnar Smári segir í greininni m.a.:

Undir hinu marglofaða íslenska efnahagsundri kraumaði öflug vél. Með nýrri uppfinningu hins alþjóðlega bankakerfis, skuldabréfavafningum, höfðu íslensku bankarnir skyndilega aðgang að ótakmörkuðu lánsfé. Kannski ekki ótakmörkuðu, en samt þó í þeim skilningiað það var vitavonlaust fyrir rúmlega 300 þúsund Íslendinga að ætla sér að koma öllu þessu fé í lóg. Þetta var mikil breyting fyrir íslensku bankana. Fyrir skuldabréfavafninga voru aðeins örfáir bankar í heiminum sem lánuðu hóflega til Íslands. Að þessu leyti voru Íslendingar eins og fátæklingar í Bandaríkjunum; skyndilega stóðu allir bankar opinir fyrir fólki með lítið sem ekkert lánstraust. Strókurinn af þessu fé stóð út úr íslensku bönkunum og bjó til ýtka mynd - hálfgerða skrípamynd - af lána- og eignabólunni sem herjaði á vestræn lönd. Oframboð af lánsfé sprengdi upp verð á öllum eignum en alltfa var til enn meira lánsfé til að standa undir kaupum á enn verðmeiri eignum. Þegar bólan í Ameríku og Evrópu sprakk hrikti í innviðum kerfisins. Þegar bólan á Íslandi sprakk varð ekkert eftir.

Ástæður eyðileggingarinnar á Íslandi er að peningavél bankanna var svo gríðarlega öflug. Á skömmum tíma varð efnahagur bankanna 12 sinnum verðmeiri en landsframleiðsla Íslands. Ef sambærilegt hefði gerst í Bandaríkjunum hefðu þarlendir bankar á sama tíma náð að innbyrða allt hagkerfi heimsins. Með þessu ógnarafli urðu bankarnir eins og þrír svelgir sem soguðu til sín allt kvikt. Landið skiptis mili þeirra: fjölmiðlarnir, tryggingafélögin, fasteignafélögin os.s.frv. Einnig listin og meningin. Háskólarnir. Maraþonhlaupin. Leikin innlend dagskrárgerð. Eiginlega hugmyndaheimurin allur.

Það kemur að því að reisa þarf Ísland úr öskustónni.  En rétta leiðin til þess er ekki að endurreisa sams konar peningagerðarvéla- og spilavítishugsunarsamfélag.


mbl.is Baugur selur í Moss Bros
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Auðmennirnir hvort sem þeir eru spilafíklar eða peningamaskínufíklar eiga borga það sem þeir stálu. Og ég er sannfærð um það að í öðrum löndum sætu þeir í gæsluvarðhaldi meðan rannsókn fer fram ekki að leyfa þeim að halda áfram

Guðrún (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 15:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband