Svartir svanir á Íslandi

svanur

Norðlenska stórskáldið Davíð Stefánsson skírði ljóðabókina sína "Svartar fjaðrir" og orti
Svívirtu ekki söngva þá,
er svörtum brjóstum koma frá,
því sólelsk hjörtu í sumum slá,
þótt svörtum fjöðrum tjaldi,
svörtum fjöðrum í sólskininu tjaldi.

Davíð orti þetta ljóð ekki um svarta svani heldur um fuglinn sem bjó á öllum bóndabæjum, um krumma. Davíð hefur sennilega aldrei séð svartan svan amk fóru þeir ekki að sjást á Íslandi fyrr en á síðustu árum. Útbreiðsla svartra svana er sums staðar af manna völdum, þeir hafa verið fluttir inn sem skrautfuglar á vötnum eða sem fuglar í dýragörðum og þaðan breiðst út í villtri náttúru.

Þetta er fallegur fugl, vonandi á ég eftir að sjá hann á Íslandi en þangað þá verð ég að láta mér nægja að skoða myndir af honum. Ég skrifaði á sínum tíma greinar á wikipedia um svartsvani og hnúðsvani og las mér þá heilmikið til um þessar svanategundir. Það er nú skemmtilegt hversu brösuglega gekk að koma hnúðsvönum upp á Tjörninni í Reykjavík.  Það gekk ágætlega þangað til fuglarnir verptu og veru með unga. Þá hins vegar varð steggurinn afar grimmur og  nánast mannýgur og hættulegur börnum.  Fór því sú tilraun út um þúfur og eru engir  hnúðsvanir á Tjörninni.

Það væri nú samt afar skemmtilegt ef Tjörnin í Reykjavík gæti líka verið einhvers konar staður þar borgarbúar gætu skoðað  margar tegundir fugla og þá sérstaklega þær andategundir sem hér þrífast. Það er ansi fábreytt að skoða þetta freka mávager sem hefur lagt undir sig Tjörnina ásamt gæsunum.  

Hér eru wikipedia greinar um svanategundir sem eru á  Íslandi eða hafa sést hérna: 


mbl.is Tveir svartir svanir heimsækja landið árlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

mér finnst að það þurfi að fara að gera eitthvað í málunum með þessa máva um allt land, allt of mikið af þeim blessuðum núna, það er vegna þeirra sem ég heyrði ekki í neinum hrossagauki hérna í sumar hjá mér, held ég.  Mávarnir eru búnir að gúffa í sig öllum eggjum áður en þau klekjast út.

Þetta er svo fallegt ljóð en ég hafði alltaf hugsað með svartan svan, það er meira kúl að hafa það krumma :) 

alva (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 09:59

2 identicon

ég er alveg viss um að í þessu hvað magnaðasta af meistaraverkum Davíðs, megi finna miklu breiðari skírskotun heldur en að hann sé að yrkja um Krumma karlinn. Krummi er vissulega stríðnastur, klárastur og skemmtilegastur allra ísl. fugla - og hægt að vitna í þjóðsögur langt aftur í aldir til að rekja skrautlegan feril hans. og þær segja bara hálfan sannleikann.

en þarna, akkúrat í þessum línum .. er Krummi bara myndskreyting fyrir e - ð miklu víðara ... held ég. hvort sem það er fólk af öðrum kynþætti - eða veikt fólk, erfitt að segja.

en það væri fróðlegt að heyra frá öðrum um þetta.

Halldór C (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 18:25

3 Smámynd: www.zordis.com

Mér hálf brá að sjá mávamergðina á tjörninni. 

Mávurinn er alls ekki ljótur fugl en hann er skaðræði í Tjörninni og má hann vel missa sín þar, stelandi ungum frá andamömmu, því miður.

www.zordis.com, 1.9.2008 kl. 22:04

4 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Halldór: Davíð var ágætis skáld en hann var ömurlegur þjóðfélagsrýnir, hann hélt eins og nafni þinn Laxness að hann væri afkvæmi guðanna og öðrum fremri. Hann orti um lítilmagnann til að skerpa á bilinu milli sín og og þeirra. Þetta kallast á fínu máli öðrun.  Botninn í kveðskap Davíðs er hið víðáttuhallærislega ljóð "Konan sem kyndir ofninn minn".  Það ljóð hefur orðið til að ég steig fram á skáldvöllinn sem eins ljóðs skáldi og  orti sjálf mitt eldljóð til að reyna að kveða þennan möðruvallakall í kútinn. Hér er partur af bloggi frá mér fyrir nokkrum árum um eldljóð mín og Davíðs:

"Mér flaug í hug þegar ég las lokaorðin hjá Nönnu í dag og setti það saman við yfirskriftina á blogginu hennar ”Konan sem kyndir ofninn sinn”, ég hugsa að þetta sé vísun í ljóð Davíðs Stefánssonar ”Ég finn það gegnum svefninn” , ljóðið um konuna sem fer að engu óð og er öllum mönnum góð og vinnur verk sín hljóð. Þetta ljóð sem á svo mikla samhljóman með íslenskri þjóðarsál hefur alltaf stuðað mig og verið fyrir mér tákngervingur kvennakúgunar og ósýnileika þeirra valdalausu og framandleika þess manns (í þessu tilviki ljóðskáldsins) sem skrifar af lítilsvirðandi vorkunn um þá hópa sem hann tilheyrir ekki sjálfur og sem hann bæði finnur til með og arðrænir.

Reyndar hefur ljóðið um konuna sem kyndir ofninn hans Davíðs orðið mér eldiviður í það eina ljóð sem ég hef birt opinberlega. Það er ljóðið Eldborg og það er svona:

Þegar borgin rumskar
Læðist steinolíustrákurinn
Inn í grátómu húsin
Tifar á strengjasteypunni
Og safnar sprekum í eldinn

Þegar borgin sprettur á fætur
Með sírennuvæli, hrópum og skarkala
Og gráir bólstrarnir teygja sig til himins
Þá veit hann
Að þeir njóta eldanna best
Sem kveikja þá
."

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 1.9.2008 kl. 22:29

5 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Heillaðist af svörtum svönum þegar ég las bókina: Austur til Ástralíu, sem móðurbróðir minn gaf mér í 8 ára afmælisgjöf þegar ég lá í heilahristingi. Svo þegar ég fór til Ástralíu fyrir 15 árum (trúi því ekki að það sé svo langt síðan) þá var ég spurð hvað mig langaði að skoða: Kengúrur og svarta svani! Þeir eru flottir! Sammála um ljóðskáldið Davíð (blanda mér ekki í umræðuna um aðra þætti í hans tilveru) og má til með að láta vita af einum, góðum (sönnum) brandara sem hann Sigurður Hreiðar sagði mér: Hann var vanur að gefa bókina Svartar fjaðrir í fermingargjöf og vantaði eintak. Hringdi í bókabúð Æskunnar og spurði: - Eigið þið ,,Svartar fjaðrir"? - Nei, því miður, engar fjaðrir, svaraði afgreiðslustúlkan og lagði á.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 2.9.2008 kl. 01:55

6 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Og, úff, smá hrollur í ljóðinu þínu.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 2.9.2008 kl. 01:56

7 identicon

ömurlegur þjóðfélagsrýnir .. – má vera, sérstaklega eftir að hann eltist. en það má sosum segja um margt brilljant skáldið – jafnvel Rimbaud og Dickens ..

það var eldmóður í Davíð á meðan hann var undir áhrifum frá td Þorsteini Erlings. hann var kannski enginn félagsfræðingur, en hafði sans fyrir einhverju sammannlegu. Þess vegna er sumt sem hann samdi svona skothelt og á eftir að lifa að eilífu.

og Krummi er ekki um Krumma, það er alveg á tæru. það sem ég var að benda á.

annars er eitt allra besta ljóð Davíðs lítið þekkt; púra súrrealismi sem erfitt er að toppa –  og yfir alla þjóðfélagsrýni hafið .. : Brúðarnótt

( Megas endurvann það seinna Á Bleikum Náttkjólum undir nafninu  ,,Paradísarfuglinn“):

Í rökkri hvarf hún inn um dómsins dyr,
í dögun sérhver fugl á greinum þagði,
og hún, sem minnti menn á engil fyr,
var myrt og vakin upp og gerð að flagði.

Svo djöfullegum dolgi var hún gift,
að dýrið báðum tveim í sorpi velti,
og meðan hún var sakleysinu svipt,
og sviðin eldi beit hann eða gelti.

Þá var hún mörkuð dolgsins dökku rún
og dæmd til þess að ala hann og flærnar.
Ég fer í bíti, Satan, sagði hún,
en Satan hló - og beit af henni tærnar ..

.. váv ..

Hc (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 12:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband