Borgarastyrjöld í Írak og ábyrgð hinna viljugu þjóða

Í mars á næsta ári eru fjögur ár liðin frá því að Bandaríkjamenn réðust inn í Írak. Það er ágætt að rifja núna upp söguna, framvindu stríðsins og aðkomu Íslendinga að þessu stríði. Það er eins og vanalega einna best að leita í  ensku Wikipedíu, hér er yfirlitsgrein um stríðið í Írak

Ég finn því miður enga svona hlutlausa frásögn eða yfirlitsgrein yfir hvernig Íslendingar komu að þessu stríði og hvernig  stjórnmálahreyfingar   og þjóðmálaumræðan var á Íslandi. Ég vildi óska þess að einhver tæki sig til og skrifaði yfirlitsgrein um það.  Það er líka ágætis tími núna eftir tæp fjögur ár að taka stöðuna og velta fyrir sér hvort vel hafi verið staðið að málum og hvort rétt hafi verið að styðja Bandaríkjamenn og hvort allar forsendur hafi verið réttar. Það hefur Jón Sigurðsson formaður Framsóknarflokksins gert  sb. þessa frétt:

"...Í ræðu sinni á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í gær fjallaði Jón um stuðning íslenskra stjórnvalda við innrás bandaríkjamanna í Írak. Jón sagði að ákvarðanirnar hafi byggst á röngum upplýsingum. Forsendur hafi verið rangar og ákvörðunarferlinu ábótavant. Ákvarðanirnar voru því rangar eða mistök, sagði Jón. Hann bætti við að listi um staðfastar þjóðir hafi verið einhliða framsetning Bandaríkjastjórnar. Loks sagði Jón að ákvarðanir um öryggismál og alþjóðaverkefni beri ævinlega að taka eftir vandaðasta undirbúning og eftir trúnaðarsamráð við lögmætar stofnanir eins og utanríkismálanefnd alþingis." (úr frétt Rúv 26. nóv) 

Það er hverjum manni ljóst að þetta stríð hefur breyst í skálmöld og martröð  og sumt af því sem upp á yfirborðið hefur komið er hneisa fyrir allar siðaðar lýðræðisþjóðir að bendla sig við. Þar má nefna fangaflutningana og fangabúðir eins og  Abu Graigh.  

Annars fann ég tvær greinar til umhugsunar, annars vegar umfjöllun um "Ekki í okkar nafni" auglýsinguna og hins vegar blogg hjá Binna um  ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins 2003 um Írakstríðið. Þessar greinar vöktu mig til umhugsunar um hver hefur umboð til að binda Íslendinga í stríð eða auglýsa skoðanir Íslendinga og hvort Sjálfstæðisflokkurinn ætli ekki líka að taka núna aftur púlsinn á stöðunni og meta málið upp á nýtt. Varðandi það fyrra þá er það alveg glerljóst í mínum huga að löglega kjörin íslensk stjórnvöld hafa umboð til að gera eitthvað sem er í nafni íslensku þjóðarinnar en það hefur þjóðarhreyfingin ekki.  Það er hins vegar eðli góðra stjórnvalda að ana ekki í blindni út í eitthvað forað og átta sig fljótt á merkjum um að tekin hafi verið röng ákvörðun á einhverjum tíma og það væri vel ef stjórnvöld bara viðurkenndu það.


mbl.is Kofi Annan segir Írak ramba á barmi borgarastyrjaldar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Þjóðarhreyfingin hefur hvergi birt yfirlýsingar nema með undirritun einstaklinga. Varðandi ákvörðun tveggja ráðherra sem virtu ekki reglur lýðræðisins við ákvarðanatöku, þá ber að benda á það að ákvörðunin var svo sannarlega ekki tekin lýðræðislega. Ísland hefur ALDREI lýst ófriði á hendur annarra þjóða þar til nú, og hafa þeir með því stofnað íslenskum borgurum í hættu og vanvirt þessa friðsömu þjóð. Mikil andstaða var við þessa ákvörðun á sínum tíma, en það var í þessu máli eins og öðrum að vilji þjóðarinnar var ekki virtur, lýðræðið var kæft. Kjörnum fulltrúum á Alþingi er ekki gefið umboð til að taka ákvarðanir gegn vilja meirihluta þjóðarinnar, það skal ávallt vera alveg á hreinu í lýðræði.

Það hefur komið fram í skoðanakönnunum að meirihluti íslendinga studdu ekki þessa ákvörðun og það er enginn sem getur bannað þessum meirihluta að biðjast afsökunar eða lýsa því yfir að þetta hafi ekki verið gert í okkar nafni. 

Þetta var kolröng ákvörðun, hvort sem litið er á það núna eftir á þegar við höfum séð mistökin, eða með því að líta til þess sem á þeim tíma lá fyrir. Þetta voru alltaf mjög illa ígrunduð mistök og ekkert annað.  Það ber að viðurkenna.

Andrea J. Ólafsdóttir, 28.11.2006 kl. 18:51

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Þjóðarhreyfingin má náttúrulega segja hvað sem hún vill svo framarlega sem það eru ekki blekkingar sem skaða þjóðarheill og öflug andspyrna og gagnrýni er aðhald við stjórnvöld. En sum sem gert er í nafni þjóðarhreyfingarinnar (hver er þjóðarhreyfingin, hvernig gengur maður í hana? eru fleiri í henni en ólafur Hannibalsson?) er bara hreinn loddaraskapur   og ég má víst alveg benda á það. Svo er það þannig að framkvæmdavald á Íslandi er í höndum ráðherra og það voru alveg réttu aðilarnir þ.e. forsætisráðherra og utanríkisráðherra sem tóku ákvarðanir.  Það stuðar mig mikið að þú (og margir aðrir hafa sagt það sama) notar það sem röksemd ".... og hafa þeir með því stofnað íslenskum borgurum í hættu.." og geri ég ráð fyrir að þú eigir þar við að við hefðum getað orðið skotspónn hryðjuverkasamtaka með að vera í liði með USA. Það eru engin rök í þessu máli. Ég vona að aldrei verði utanríkispólitík á Íslandi rekin með það í huga að það séu rök að forðast að gera eitthvað sem vekur athygli brjálaðra ofbeldismanna á okkur.   

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 29.11.2006 kl. 11:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband