Byltingartækni - veraldarvefur og opin miðlun á neti

Ég kynntist veraldarvefnum fyrst á námskeiði í Edinborg í ágúst 1993. Það var þá vafri sem kallaður var Mosaic. Áður hafði ég reyndar kynnst Lynx sem var svona textavafri og Gopher og árum saman hangið á Usenet ráðstefnum. Ég var strax hugfangin að þessu nýja verkfæri, þetta var mikil framför. Gaman að rifja upp sögu veraldarvefsins og sjá hvernig hann spratt upp sem byltingartækni, það skipti t.d. miklu máli að þetta var ókeypis tækni, margir notendur svissuðu frá Gopher yfir í www tækni þegar háskólinn í Minnesota tilkynnti að þeir ætluðu að innheimta leyfisgjald fyrir notkun á Gopher.

Það sá enginn fyrir hversu útbreidd þessi tækni yrði, alla vega ekki ég. Ég fór á 4. WWW ráðstefnuna sem haldin var í Santa Clara í Californíu árið 1996 að mig minnir og ég man að ég skrifaði nemendum mínum heim í tölvupósti frá öllum þeim kynjum sem ég sá, að hugsa sér að við helstu umferðargöturnar sá ég vegaskilti þar sem vefslóðir voru auglýstar. Það var fáheyrt hérna á Íslandi, fáir vissu þá hvað vefslóðir væru. Þegar ég sá fyrstu auglýsinguna um vefslóð á bíl á Íslandi þá mátti ég til að taka ljósmynd af því. Alveg eins og ég tók ljósmynd af fyrstu rúlluböggunum sem ég sá á Íslandi. Það var eitthvað í kringum 1986 sem ég sá rúllubagga á túni á Hvanneyri.

Núna er veraldarvefurinn orðinn ómissandi tæki hjá mörgum. Allt bendir til að þau tölvuverkfæri sem við notum vanalega verði vefþjónustur, sennilega munum við nota ritvinnslukerfi og tölvureikna og allan office vöndulinn sem vefþjónustur innan tíðar. Google býður þegar upp á svoleiðis þjónustu. Það opnast nýir möguleikar þegar unnið er á vefnum, það er þá hægt að vinna saman með öðru fólki og maður er ekki háður einhverjum fýsískum vinnustað þegar gögnin og allt vinnuumhverfið er komið inn í Netheima. Sennilega verður þetta til að vinna breytist meira en okkur órar fyrir. Þetta skapar möguleika á samvinnu sem hafa ekki áður verið fyrir hendi. Núna geta margir unnið samtímis í sama skjali eða sama stafræna verki.  Besta leiðin til að skilja hvað er að gerast og sjá vísbendingar um hvernig  framtíðin  verður er að gefa sér tíma til að skoða hvernig Wikipedia vinnur og skoða hvers vegna eða hvort svona wikivinnubrögð virka betur en eldri vinnubrögð. Ég held að það sé óumflýjanlegt að við færumst inn í heim opinna vinnubragða og ýmis konar stafrænna samvinnuverkfæra en það mun riðla mörgum kerfum sem við höfum núna til að safna saman og miðla þekkingu. Þessi kerfi  miða við bókasamfélagið eða samfélag lesmenningar og hafa virkað vel og virka ennþá þó það sé alltaf að molna meira og meira úr þeim. Einhvern tímann kemur að því að þau verða alveg gagnlaus og passa ekki við þá farvegi sem fljót þekkingar og mannlegrar sköpunar heimsins er að renna í núna. Það er nú reyndar skynsamlegra að breyta strúktúrnum í samfélaginu hægfara þannig að hann virki eins og áveitukerfi frekar en tjasla upp á einhverjar stíflur sem munu ekki gera annað en brotna með brambolti í fyllingu tímans.


mbl.is „Vefurinn á byrjunarstigi"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Villi Asgeirsson

Flott færsla. Netið er orðið ómissandi. Ég prófaði það fyrst á netkaffinu Cyberíu árið 1995. Var orðinn tengdur heima 1997. Oft velti ég því fyrir mér hvernig maður komst af áður. Kannski ég hafi farið út úr húsi þá, séð heiminn. Man það ekki. Ég er sammála þér með Wikipediu. Hún er ómissandi og verður sífellt mikilvægari.

Villi Asgeirsson, 2.5.2008 kl. 08:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband