Orð í eignarfalli

Má ég beygja hvaða  orð í íslensku máli í þágufalli?  Í hvers þágu er upplýsingum safnað og þær skráðar á Íslandi í dag? Ég var á Kaffi París í gærkvöldi, þar hittust þeir sem vinna við Wikipedia á Íslandi. Umræðan fór út um víðan völl enda wikiskrifarar flestir svona alfræðingar sem hafa áhuga á öllu og sérstaklega á því hvernig þekkingu er miðlað. Ég held að allir sem verða frístundum sínum í að vinna við  Wikipedia séu fólk sem deilir þeirri sýn að þekking eigi að vera frjáls. Sumir kalla þetta info kommúnisma.

Í gærkvöldi heyrði ég af því að  eitthvað mál hefði komið upp í tengslum við að beygingar orða voru afritaðar úr beygingarlýsingu íslensks nútímamáls orðabanka hjá Árnastofnun og sett inn í wiki verkefni. Það sem er skrýtnast er að það má ekki. Árnastofnun hefur höfundarrétt á beygingum orðanna sem eru í gagnasafninu, það er réttur sem er lögverndaður samkvæmt íslenskum höfundarréttarlögum. 

En ég þjáist af þágufallssýki - þeirri sýn að  upplýsingar sem safnað er fyrir almannafé eigi að liggja frammi í allra þágu til sem mest opinna nota. Ég held að áhersla á eignarfallið  á Íslandi sé einhvers konar sjálfseyðingarhvöt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Ólafsson

Sæl Salvör. Þú segir: Árnastofnun hefur höfundarrétt á beygingum orðanna sem eru í gagnasafninu.

Þetta er ekki rétt. Réttur Árnastofnunar ver gagnasafnið og byggingu þess. Það fór vinna í að búa það til sem varin er höfundarétti. Það er reginmunur á þvi og hinu sem þú sagðir. Hver sem er má beygja orðin og enginn hefur höfundarétt á þeim eða beygingamyndum þeirra.

Ef ég tek vinnu annarra og geri að minni er það brot á höfundarétti. Ég má vísa í það sem aðrir hafa gert en ekki taka það í heilu lagi eða að meira eða minna leyti. Svona hlutir eru ekki verulega flóknir.

Einhverra hluta vegna telja margir að eignarétturinn gildi ekki þegar um höfundaverk er að ræða. Af hverju segið þið það þá ekki berum orðum?

kveðja, Sveinn. 

Sveinn Ólafsson, 18.4.2008 kl. 21:55

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ég efa ekki að Árnastofnun hafi höfundarrétt að þessu beygingarsafni og ég veit vel að eignarréttur á hugverkum er varinn með þeim lögum. Ég get líka sagt beint út að ég tel skynsamlegast að allt efni sem safnað er af opinberum aðilum og/eða fyrir almannafé sé gert aðgengilegt fyrir alla sem vilja nýta það efni og sé með sem opnustu höfundarleyfi. Ég hef sérstaklega talað fyrir Creative Commons höfundarleyfum, sjá hérna http://creativecommons.org/

Mér vitanlega er gerð þessa gagnasafns kostuð af almannafé.  Aðgengi að þessum gögnum er gott til að skoða þau en það er bara ekki nóg. Fólk þarf að geta unnið áfram með gögn og endurblandað þeim í önnur verk. Fólk þarf að geta gert það án þess að þurfa að leita sérstaklega til höfundarrétthafa. Það er ekki löglegt í dag nema því aðeins að höfundarrétthafar (í þessu tilviki opinber stofnun) hafi leyft það.

Það er mjög áhugavert að lesa orðalag á vef BÍN, það er tvítekið að öll afritun efnis úr BÍN án skriflegs leyfis er bönnuð. Þar stendur:

Aðgangur að efni úr BÍN

Rétthafi BÍN er Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sem sér um viðhald og dreifingu BÍN, samkvæmt samningi menntamálaráðuneytisins við Orðabók Háskólans frá 2005. Öll afritun efnis úr BÍN án skriflegs leyfis er bönnuð.

Aðgangur að BÍN á vefsíðu Stofnunar Árna Magnússonar er öllum opinn. Hægt er að leita að beygingardæmi með því að slá inn uppflettimynd eða beygingarmynd orðs, og nota má algildistákn í leitinni.

Efnið úr BÍN er sérstaklega ætlað til nota í tungutækniverkefni. Gerður er samningur um hvert einstakt verkefni þar sem skilmálar um afnot af BÍN eru settir fram. Þeir sem hafa hug á að nota efnið snúi sér til Kristínar Bjarnadóttur, ritstjóra BÍN.

Öll afritun efnis úr BÍN án skriflegs leyfis er bönnuð.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 19.4.2008 kl. 03:01

3 identicon

Ég hef fylgst dálítið með þessu máli sem Salvör fjallar um og langar aðeins að koma með athugasemdir eða kannski frekar spurningar við orð þín Sveinn. Árnastofnun á klárlega ekki höfundarrétt á beygingum orðanna sem eru í orðasafninu á því liggur enginn vafi. Ég held meira að segja að stór hluti af vinnu Árnastofnunar hafi falist í því að afla sér gagna úr opnum grunnum! En ef réttur Árnastofnunar ver gagnasafnið og byggingu þess er þá notandi sem afritar orð á vefnum sem um ræðir að taka þá vinnu? Hann er ekki að afrita uppbyggingu sjálfs gagnagrunnsins eða undirliggjandi hugbúnaðar eða tækni? Hverju er hann að stela? Íslenskum orðum? Ég spyr vegna þess að mér finnst þetta ekki eins augljóst og þú vilt halda fram Sveinn og hið sama má segja um fjölmörg önnur mál sem snerta einkaleyfi og höfundarrétt. Ég gæti tekið fjölmörg dæmi.

Ég er einnig sammála Salvöru hvað það varðar að efni sem er unnið á þennan hátt fyrir almannafé eigi að vernda samkvæmt opnum höfundarleyfum. Reyndar er skref tekið í þá áttina með nýjum reglum um opinn og frjálsan hugbúnað. Þar með er ekki sagt að allt efni sem unnið er fyrir opinbert fé eigi að vera opið almenningi, en stefnan ætti að sjálfsögðu að vera sú að almenningur hafi opinn aðgang að sem allra mestu. Hér verður skynsemin að ráða. Við höfum jú borgað fyrir þessa vinnu með sköttunum okkar eða hvað?

Hvaða rök er hægt að færa fyrir því að gagnagrunnur um beygingarlýsingu íslenskrar tungu, sem unnin er fyrir almannafé, skuli vera höfundareign Árnastofnunar? Sannfærið mig ef þið getið!

kv.

S.Fjalar 

Sigurður Fjalar Jónsson (IP-tala skráð) 19.4.2008 kl. 19:18

4 Smámynd: Sveinn Ólafsson

Það er góð regla að gögn unnin fyrir almannafé verði gerð aðgengileg og til afnota fyrir sama almenning. Það gæti þó orðið mikilvægt að halda höfundarétti en gefa eftir afnotaréttinn, að hluta eða heild, um tíma eða ótímabundið. Stofnanir geta sjálfar leyft svona afnot í dag.

Íslenskar stofnanir eru mjög reiðubúnar að veita afrit og afnot í þágu ákveðinna verkefna miðað við hvernig mál gerast í Bretlandi og á meginlandi Evrópu. Það er reginmunur á að hafa samband við stofnun og fá leyfi til svona afnota og hinu að taka það ófrjálsri hendi.

Hvað varðar spurningu Sigurðar, þá er það mín reynsla að í málum af þessu tagi er sjaldnast mjög erfitt að skilja á milli hvenær er verið að taka höfundavarið efni og hvenær ekki. Eftir lýsingu Salvarar voru nafnmyndaskrár sem höfðu verið unnar hjá Árnastofnun teknar upp án leyfis. Ef það er rétt, var verið að brjóta höfundalög.

Öll verk rithöfunda á íslenskri tungu eru vinna með tungumálið sem er almannaeign. Þeir eru margir á ríflegum styrkjum til höfundastarfa. Liggja þá sömu rök til að það efni eigi ekki að vera varið höfundarétti?

Sveinn Ólafsson, 19.4.2008 kl. 21:05

5 identicon

Ég hef mikinn áhuga á þessu efni og var einn af þeim sem tók það upp á fundinum. Í eftirfarandi texta vitna ég í íslensku höfundalögin sem eru aðgengileg á heimasíðu Alþingis: http://www.althingi.is/dba-bin/unds.pl?txti=/wwwtext/html/lagasofn/135a/1972073.html&leito=0h%F6fundalaga  og í bók Páls Sigurðssonar um Höfundarétt.

 Til þess að eitthvað ákveðið efni njóti verndar verður efnið að uppfylla skilyrði um svokallaða verkhæð. Þau skilyrði eru uppfyllt ef í verkinu kemur fram andleg sköpun sem er ný og sjálfstæð. Þetta þýðir að verk þarf að vera frumlegt og sjálfstætt. Símaskrá fyllir t.d. ekki þessi skilyrði. Orðabækur með útskýringartexta geta uppfyllt skilyrðin (vegna þess að útskýringartextinn uppfyllir skilyrðin) og mataruppskriftir í sinni einföldustu mynd uppfylla ekki skilyrðin. Gott viðmið er að hugsa sér að tveir óháðir einstaklingar setjist niður hver á sínum stað og "skrifi" verkið. Ef það eru miklar líkur á að þeir komi aftur til baka með sama verk þá er verkið ekki höfundavarið. Af þessu að dæma myndi ég áætla að beygingar íslenskra orða eru ekki varðar með höfundarétti því það eru að mínu mati miklar líkur á því að tveir óháðir einstaklingar myndu beygja orðin eins því það er eiginlega bara ein rétt leið til að beygja ákveðið orð.

Í 6. gr. höfundalaganna segir eftirfarandi um gagnagrunna:

" 6. gr. Þegar verk eða hlutar af verkum höfunda, eins eða fleiri, eru tekin upp í safnverk, sem í sjálfu sér má telja til bókmennta eða lista, hefur sá, sem safnverkið gerði, höfundarétt að því. Ekki raskar réttur hans höfundarétti að þeim verkum, sem í safnverkið eru tekin.
Ákvæði 1. mgr. taka ekki til blaða og tímarita, sbr. 40. gr.
[Ákvæði 1. mgr. taka til gagnagrunna að því er tekur til niðurröðunar og samsetningar þeirra að fullnægðum almennum skilyrðum fyrir höfundaréttarlegri vernd. Ekki raskar sá réttur höfundarétti að verkum sem gagnagrunnurinn kann að geyma. Þá raskar hann eigi að heldur samhliða rétti framleiðenda skv. 50. gr.
Með gagnagrunni í skilningi laga þessara, sbr. 3. mgr. þessarar greinar og 50. gr., er átt við safn sjálfstæðra verka, upplýsinga eða annarra efnisatriða sem komið er fyrir með skipulegum eða kerfisbundnum hætti og eru aðgengileg með rafrænum hætti eða öðrum aðferðum. Tölvuforrit sem notað er við gerð eða rekstur gagnagrunns og aðgangur er veittur að með rafrænum hætti telst ekki til gagnagrunns í skilningi laga þessara.]"

Af þessari málsgrein má sjá að þegar gagnagrunnar eiga í hlut (sem BÍN telst til) þá er gagnagrunnurinn verndaður samkvæmt 50. gr. höfundalaganna en innihaldið sjálft er verndað á sinn hátt. Þar sem að innihaldið sjálft uppfyllir ekki kröfur um verkhæð er eini möguleikinn á vernd í rauninni verndin á uppbyggingu gagnagrunnsins sem er vernduð með 50 gr.

50. gr. höfundalaga hljóðar svona (og hér tek ég bara áhugaverðu málsgreinina):

" 50. gr. [Sá sem framleiðir skrár, töflur, eyðublöð, gagnagrunn eða svipuð verk sem hafa að geyma umtalsvert safn upplýsinga eða eru árangur verulegrar fjárfestingar hefur einkarétt til eintakagerðar eða birtingar verks í heild eða að verulegum hluta. Endurtekinn og kerfisbundinn útdráttur og/eða endurnýting óverulegs hluta af gagnagrunni er óheimil ef þær aðgerðir stríða gegn venjulegri nýtingu hans eða ganga með óeðlilegum hætti gegn réttmætum hagsmunum framleiðenda gagnagrunnsins."

Í þessari fyrstu málsgrein 50. gr. höfundalaganna sést að gagnagrunnurinn er einungis verndaður ef umtalsverð fjárfesting fór í að búa hann til eða að hann innihaldi mikinn fjölda efnis. Ég held að allir geti verið sammála um að BÍN hljóti því að vera verndaður samkvæmt 50. gr. Aftur á móti vil ég benda á hvað er óheimilt samkvæmt þessari grein. Annaðhvort útdráttur á verulegum hluta úr gagnagrunninum nú veit ég ekki hversu mörg orð BÍN inniheldur en ég hef heyrt að vinna hafi verið lögð í hann síðan 2002 þannig að handvirkur innsláttur í Wiktionary myndi ég halda að hafi ekki náð því að slá inn verulegan hluta BÍN gagnagrunnsins. Aftur á móti er einnig bannaður kerfisbundinn og endurtekinn útdráttur óverulegs hluta (sem ég tel að Wiktionary innslátturinn falli undir). Það er aftur á móti stórt ef í þessari setningu sem segir það einungis óheimilt EF það stríðir gegn venjulegri nýtingu gagnagrunnsins eða hagsmunum framleiðandans. Hagsmunir framleiðandans (Árnastofnun) sem opinberrar stofnunnar eru líklegast ekki í húfi en hver er venjuleg nýting gagnagrunnsins? Að mínu mati er þetta lykilspurningin í þessu máli.

Hver er venjuleg nýting gagnagrunns sem búinn er til fyrir fé almennings ef hún er ekki að leyfa almenningi að fletta upp í honum? 

Tryggvi Björgvinsson (IP-tala skráð) 20.4.2008 kl. 11:32

6 identicon

Góður punktur Sveinn og eins og ég segi þá held ég að hér verði skynsemin að ráða og því ekki eðlilegt að allt efni sem hið opinbera styrkir skuli ekki varið höfundarétti.

Athugasemdir Tryggva Björgvinssonar eru líka mjög áhugaverðar og ég er sammála honum hvað lykilspurninguna varðar, þ.e. hver er venjuleg nýting þessa gagnagrunns. Svo má líka spyrja sig hvort þeir aðilar sem standa að þessum grunni hafi ekki sjálfir val um að gefa efnið út samkvæmt opnari höfundarleyfum samanber það sem Salvör ritaði. Það er kannski mín lykilspurning, hvers vegna ekki að nýta sér þennan valkost og gefa efnið út samkvæmt leyfi sem heimilar betri nýtingu á því?

Sigurður Fjalar Jónsson (IP-tala skráð) 20.4.2008 kl. 16:44

7 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Þetta efni kemur óneitanlega við kaunin í mér því ég vinn í geira þar sem höfundarréttur er mikilvægur. Ég hef orðið fyrir því að fólk taki greinar eftir mig og birti í leyfisleysi á heimasíðum, að þær séu notaðar sem kennsluefni án þess að mín sé í nokkru getið og margt fleira. Mér er því sárt um höfundarréttinn og vil verja hann sem allra best.

Steingerður Steinarsdóttir, 20.4.2008 kl. 18:25

8 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ég var að skoða blogg http://hjalli.com/?p=305

en þar er þessu máli lýst. Ég er forviða.  Hvernig getur þessi meðferð á notanda á opnum gagnagrunni hjá Árnastofnun samræmst íslenskum lögum um persónuvernd. Eftir því sem ég best veit þá er málið þannig að nemandi sem er að læra íslensku er líka að vinna við Wiktionary í sjálfboðaliðavinnu, ég geri þetta einmitt sjálf oft þegar ég er að læra eitthvað, það er þá ágætt að láta aðra njóta þess með að skrá það sem maður lærir inn í gagnasöfn sem geta létt öðrum þeirra lærdóm. En sem sagt þessi nemandi mun hafa verið mjög nákvæmur og ekki viljað gera neinar vitleysur og því haft þann sið að bera saman beygingar í gagnasafni ÁRnastofnunar. Það er í meira lagi skrýtið sem fram kemur í þessu bloggi:

A couple of days ago I got a call from the aforementioned BÍN administrator. She’d gotten a tip that someone was systematically copying data from BÍN into the Icelandic Wiktionary and asked me to look into it.

I started going through the web server log files - and sure enough - comparing the log files to the new entries page on Wiktionary, the pattern was obvious: A search for a word in BÍN and 2-3 minutes later a new entry in Wiktionary with that same word. A pattern consistent with someone copying the data by hand. This pattern went back a few days at least. Probably a lot longer.

In light of this I blocked access from the IP addresses that these search requests originated from and redirected them to a page that - in no uncertain terms - stated our suspicion of abuse and listed our email addresses in order for them to contact us for discussion................................

 

The Wiktionary users in question have since contacted us and stated that they were not copying the content, merely referencing it when proofreading their own information. I have no reason to doubt that, but the usage pattern was indistinguishable from a manual copying process, leading to the suspicion and the blocking of their addresses.

 Ég ætla aðleita álits hjá Persónuvernd um hvort þetta sé virkilega lögleg meðferð á notanda á opinberu gagnasafni í sambandi við beygingar á íslenskum orðum.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 21.4.2008 kl. 13:01

9 identicon

Ef þið lesið pósta sem fóru á milli varðandi þetta á Wiktionary[1] og athugasemdir við færslu Hjalla[2] sést að þarna var ekki um afritun úr grunnum að ræða heldur notkun hans í auglýstum tilgangi, sem heimild fyrir Íslensku máli.

 Aðstaðdendur Árnastofnurar einfaldlega gáfu sér þær forsendur að ef einhver skoðaði vef þeirra nokkur mínútum áður en færsla væri sett inn á Wiktionary væri um beina afritun að ræða en ekki verið að nota grunnin sem heimild um að ekki væri verið að setja inn rangar upplýsingar.

Notandinn sem um ræðir er hættur að nota þennan grunn en ekkert lætur á innsetningu nýrra færslna með beygingarlýsingum frá henni þrátt fyrir það, það er því nokkuð ljóst að hún er með aðrar frumheimildir en beygingargrunn Árnastofnunar.

1.http://is.wiktionary.org/wiki/Notandi:Spacebirdy/sta%C3%B0h%C3%A6fing

2. http://hjalli.com/?p=305#comments

Ævar Arnfjörð Bjarmason (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 23:42

10 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ég hefði samband við Persónuvernd í gær og lýsti málavöxtum. Því miður virðist svo að Árnastofnun sé í fullum rétti að fylgjast með notendum gagnagrunnsins og bera notkun saman við skráningar í öðrum gagnagrunn þ.e. wiktionary ef grunur vaknar um að gagnagrunninn sé verið að nota á ólöglegan hátt.  Það er heldur ekkert í lögum um persónuvernd sem Árnastofnun er að brjóta með því að loka á viðkomandi og setja einhverja dónalega tilkynningu um meint höfundarréttarbrot þegar viðkomandi notandi reyndi að fletta upp orðum. Ég spurðist líka fyrir um hvort ég gæti vísað þessu máli til Persónuverndar en fékk þau svör að það gæti ég ekki því ég er ekki beinn aðili að málinu. Það verður að vera stúlkan sem varð fyrir þessu sem gerir það. Ef ég væri hún þá myndi ég gera það, jafnvel þó ég telji víst að Árnastofnun sé ekki að brjóta nein lög. 

Þetta er bara ótrúlega sorglegt. Opinber stofnun sem býður opið aðgengi að gagnagrunni yfir beygingar íslenskt máls, gagnagrunn sem kostaður er af almannafé -  grunar að verið sé að NOTA efni eða upplýsingar úr gagnagrunnnum og bregðst ókvæða við og dæmir notandann eins og glæpon og skrúfar snarlega fyrir aðgang hans. Í þessu tilviki var viðkomandi að því er allt bendir til ekkert að aðhafast nema sem telja má vönduð vinnubrögð við svona skráningar - að bera sín gögn saman við þann gagnagrunn sem hún vissi bestan og nákvæmastan áður en hún skráði þetta áfram.

Það eina sem Árnastofnun hefur áunnið með þessu frumhlaupi er að kvekkja  einn notanda af beygingasafninu þeirra og gera hann mjög fráhverfan að nota þessi ágætu gögn. Ég hélt í einlægni minni að það væri keppikefli að svona gögn væru notuð og það væri hlutverk stofnana sem bjóða okkur aðgang að svona gagnabönkum að reyna að efla notkun þeirra en ekki að láta okkur líða eins og glæpamönnum þegar við flettum upp beygingum íslenskra orða. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 22.4.2008 kl. 08:39

11 identicon

Sæl Salvör,

Þetta er stórkostlega gagnleg umræða og það var einmitt ástæðan fyrir því að ég ákvað að skrifa bloggfærsluna sem þú vísar til að ofan.

Ég hef beðið annarsstaðar og bið líka hér um rósemi og þolinmæði í þessari umræðu. Staðreyndin er sú að flestir sem að umræðunni koma eru að mestu sama sinnis - þ.e. við viljum skýrari og opnari aðgang að opinberum gögnum, en að einhverju leiti greinir okkur á um áherslur og aðferðir við að ná þessum markmiðum fram.

Ég held að það þurfi að lesa bloggfærslu mína með ansi miklum fodómum (þ.e. fyrirfram gefnum skoðunum á afstöðu minni og starfsmönnum Árnastofnunar) til að verða stórlega móðgaður eða hneykslaður á þeim lestri. Ég tek líka fram að þau skilaboð sem birt voru á "lokunarsíðunni" voru eingöngu birt þeim tveimur notendum sem um ræðir voru fjarri því að vera dónaleg. Þau voru vissulega harðorð - og gáfu etv. ekki of mikið svigrúm fyrir þann möguleika að ekki væri um afritun að ræða - en þau gáfu viðkomandi færi á að hafa samband og skýra sitt mál, sem er einmitt ástæðan fyrir því að þessi gagnlega umræða hefur farið af stað. Dónaleg voru skilaboðin allavegana ekki og ég tek það nokkuð nærri mér að vera borið það á hendur.

Svo ég haldi svo áfram að endurtaka mig frá því sem ég hef sagt annarsstaðar, þá óttast ég að sumir þátttakendur í umræðunni (mig grunar að þú sért þeirra á meðal) átti sig ekki á því hversu mikið ég er á "ykkar bandi" í þessari umræðu, hvað það er mikil vinna óunnin í að sannfæra þá sem á endanum ráða þessum málum um mikilvægi opins aðgangs að gögnum í opinberri eigu og hvað óvarlegar aðgerðir á þessum tímapunkti gætu spillt mikið fyrir því starfi. Ég hef líka bent á og það endurómar t.d. í athugasemdum "Stebba" við mína færslu að þessi aðgangs- og leyfismál eru miklu flóknari en svo að þau ráðist af skoðunum eða ákvörðunum einstakra starfsmanna, verktaka eða jafnvel stofnanna.

Gagnkvæm virðing og skilningur voru orðin sem ég klikkti út með í bloggfærslunni. Erindi til persónunefndar án þess að hafa samband við hlutaðeigandi er sannarlega ekki í þeim anda. Samskipti mín við hlutaðeigandi Wiktionary notendur undanfarna daga eru nú í þeim farvegi að við leitum leiða til að taka þetta mál áfram - öllum til hagsbóta og þá með samráði og samþykki þar til bærra aðila.

Þetta er síðan partur af stærra máli sem við þurfum að vinna saman, ekki sitt í hvoru lagi.

Þeir sem vilja forvitnast nánar um mína afstöðu í þessum málum er bent á nokkurra vikna gamla færslu og viðtal við mig í Markaði fréttablaðsins í kjölfar málþings þar sem ég var einmitt að kalla eftir opnum aðgangi að gögnum opinberra aðila. Ég mun án efa skýra þessa afstöðu enn frekar á næstu dögum og reyna samhliða að vinna málið áfram í réttum farvegi.

Hjalmar Gislason (IP-tala skráð) 22.4.2008 kl. 15:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband