Kistan.is - leikvangur fáránleikans

Vefsetrið kistan.is er núna leikvangur fáránleikans, nápleis  þar sem fræðafólk á sviði lista og bókmennta safnast saman og tjáir sig með því að hrækja á fólk og hæðast að því. Guðbjörg Kolbeins lýsir vel stemmingunni á Kistunni í blogginu Kistan krossfestir Hannes

Svona lítur forsíðan út á kistan.is út núna, vefritið er undirlagt í að hæða Hannes bróðir minn þar sem margir eru tilkallaðir til að hæða hann og smá og heimta opinbera aftöku hans.

kistan-hannes-april08

Það er átakanlegt að lesa þær mörgu greinar sem nú trjóna efst á kistan.is Menningarvefur sem leyfir sér svona umfjöllun og svona efnistök verður ekki annað en fúll og staðinn forarpyttur. Það er sennilega sambland af von um einhverja athygli frá íslensku samfélagi, von um lestur og umfjöllun og því að þeir sem reka kistan.is hafa ekkert annað að segja og hugsa um sem veldur þessum efnistökum. 

Menningarvefir eins og kistan.is og  samfélög   eins og Reykjavíkurakademían ættu að vera og hafa verið ferskvatnslindir og rennandi vatn  í íslensku samfélagi, vatn sem rennur yfir flæðiengi þar sem frjóangar nýrrar hugsunar ná að vaxa upp, vatn sem býr til farvegi  þar sem nýir menningarstraumar ryðja sér  braut  í leysingum.  En þessi samfélög eru feig ef þau taka eingöngu eftir og fjalla ekki um nema eina  þverskurðarmynd af heiminum, eina spegilfágaða yfirborðsmynd í spegli sem búinn er til úr stöðnu vatni.

Hinn sifraði Egill lýsir vel hreyfingarleysi og viðburðaleysi í hugsun  Reykjavíkurakademíunnar í hannesarumfjöllun í blogginu: Vitlaus dómur yfir Hannes en þar segir hann m.a:

Hins vegar fengu margir þetta á heilann, ekki síst fólk sem tengist Reykjavíkurakademíunni. Um daginn barst mér í hendur einhvers konar afmælisrit fyrir Sigurð Gylfa Magnússon sagnfræðing fimmtugan. Ég fletti bókinni og sá að þarna var verið að fjalla um Hannes. Það flökraði að mér að þessi meinti ritstuldur væri líkt og hið eina sem hafði drifið á daga þeirra í Reykjavíkurakademíunni; eini háskinn sem þetta fólk hafði lent í.

Að líf þess hefði verið gjörsamlega viðburðasnautt ef Hannesar hefði ekki notið við.

Hópur fræðafólks – og sumir fjölmiðlar – eyddu ótrúlegu púðri í þetta mál. Aðalástæðan var auðvitað sú að Hannes var ekki talinn heppilegur maður til að skrifa um Halldór. Hann átti ekkert með það. Hann tróðst inn í vitlaust partí.

Margir sem nú eru kallaðir  til á vefsritinu kistan.is til að hrækja á Hannes eru fræðafólk sem fæst við að greina orðræðu og málpólitík. Ég er ekki sérfræðingur á þessu sviði en mér finnst að það hljóti að vera verðugt viðfangsefni að greina orðræðu þessara fræðimanna, hvaða sýn á samfélag og eignarétt og vald  blæs í gegnum skrif þeirra. 

Hér eru  nokkur ummæli á kistan.is sem stuðuðu mig sérstaklega.

Hallfríður Þórarinsdóttir, doktor í mannfræði og forstöðumaður MIRRU

Hallfríður Þórarinsdóttir hefur m.a. skrifað ágæta grein  um orðræðugreiningu

Hallfríður skrifar:

2. Á rektor að aðhafast í málinu?

Að sjálfsögðu. Háskóli Íslands missir allan trúverðugleik ef HHG fær að sitja áfram óáreittur í stöðu sinni. Það er ósanngjarnt gagnvart öllum heiðarlegum fræðimönnum stofnunarinnar.
Markmið HÍ að verða einn af hundrað bestu háskólum í heimi getur tæpast átt að innihalda slíkt siðleysi og lögbrot.

3.
Ef svo, með hvaða hætti?

Segja honum upp. Hvernig eiga aðrir kennarar við stofnunina að geta krafist þess af  nemendum sínum að þeir virði grunnreglur í akademískum vinnubrögðum ef prófessor við eina stærstu deild skólans gerir það ekki? Ef rektor segir ekki Hannesi upp er HÍ orðinn að einhverskonar leikhúsi fáránleikans.

Það er mjög áhugavert að greina þessi ummæli Hallfríðar og setja þau í samband við að hún hefur fjallað mikið um orðræðu og vald. Það er líka skrýtið hve mikla vanþekkingu á stjórnsýslulögum  ummæli hennar bera með sér og hve litla innsýn hún virðist hafa varðandi mannréttindi og vinnureglur í stjórnsýslu. Þess má geta að þegar ég kalla kistan.is leikvang fáránleikans í fyrirsögn þessa bloggs þá er það sótt til orða Hallfríðar sem líkir HÍ við leikhús fáránleikans. Það er mjög mikilvægt að við áttum okkur á að mannréttindi og lög sem tryggja mannréttindi eru ekki bara fyrir okkur góða fólkið og þá sem hafa skoðanir í  samhljómi við okkur heldur líka fyrir hina, líka fyrir  Hannes.  

Gauti Kristmannsson, lektor í þýðingarfræðum við HÍ

Gauti svarar svohljóðandi á kistan.is:

2. Á rektor að aðhafast í málinu?

Já.

3.
Ef svo, með hvaða hætti?

Segja prófessornum upp starfi, hann hefur þverbrotið grundvallarreglur þær sem háskólamönnum ber að starfa eftir. Á þetta hefur HHG sjálfur bent á í grein á vefsíðu sinni að sé venjan að gera við háskóla erlendis.

4.
Hvað finnst þér um auglýsingu stuðningsmanna Hannesar sem birtist í blöðunum um helgina?

Hún er ódýr spuni. Í fyrsta lagi mun prófessorinn vera eignamaður, einnig hafa þeir dómar sem fallið hafa á hann og valda honum kostnaðarauka verið vegna afbrots og auðgunar annars vegar og opinberu og ósönnuðu illmælgi gagnvart öðrum einstaklingi hins vegar. Einu gildir hvort sá einstaklingur telst vera „auðmaður“ eða ekki.

Þessi ummæli Gauta stuða mig verulega. Mér virðist til hans leitað sem sérfræðings sem er í starfi við sömu stofnun og Hannes vinnur hjá. Samt bera orð hans með sér að hann er jafnlítið inn í stjórnsýslulögum eins og Hallfríður og með jafnbrenglaða sýn á mannréttindi þeirra sem hann forsmáir. En það sem ég er mest forviða á er að hann tjái sig um fjármál samstarfsmanns síns sem á í fjárhagsþrengingum og orðræða hans ber með sér að hann hlakkar yfir óförum annarra. Ég held líka að Gauti viti akkúrat ekkert um fjárhagsstöðu bróður míns. Síðast þegar ég vissi var kostnaður vegna þessarra tveggja málaferla kominn langt á þriðja tug milljóna og bæði þessi málaferli snúast að stórum hluta til um tjáningarfrelsi. Það er hins vegar ljóst að ennþá meiri kostnaður mun hlaðast upp.

En Gauti hefur líka sitt tjáningarfrelsi. Megi hann bulla sem mest þar sem hann vill um fjármál bróður míns svo fremi að hann virði lög um friðhelgi einstaklinga og megi hann kalla allt sem hann vill "ósannaða illmæli". Það er hins vegar spurning um hvort svona illyrmisleg umfjöllun um samstarfsmann í opinberri stofnun er sæmandi og samræmanleg við lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Seinast þegar ég vissi var hún það ekki.

En það hefur gripið um sig einhvers konar hjarðhegðun og múgæsing hjá nokkrum hópi fræðimanna við HÍ sem úthrópa Hannes og fjalla  um hann og hans verk eins og bloggarar fjölluðu um meintan morðingja hundsins Lúkasar um árið. Ég held að þeir sem eru í þessum hópi fræðimanna átti sig ekki á alvarleika sinnar orðræðu af sömu ástæðu og bloggarar ærðust í Lúkasarmálinu. Fólk spanar og æsir hvert annað upp og missir sjónar á því að hvað það er sjálft að gera. Fólki verður ekki sjálfrátt, það heldur að það sé allt í lagi að úða ógeðslegri illmælgi og meiðandi orðræðu yfir aðra. Í þessu tilviki er þetta leikvangur fáránleikans því einmitt er farið gegn Hannesi á þeim forsendum að hann hafi dirfst að fara yfir einhver manngerð mörk í skrifum sínum og orðræðu og ekki farið eftir þeim manngerðu stígum sem ævisagnaskrif eiga að fylgja. Það er hjákátlegt og grátlegt í senn ef fræðimenn átta sig ekki á því að þeir eru reknir áfram af blindri heift og þeir eru að taka Lúkasinn á samferðamann sinn og fara sjálfir yfir öll mörk velsæmis í orðræðu sinni.

 Íris Ellenberger  

Íris er ein af þeim sem tjáir sig á kistunni. Orð hennar stuða mig nú ekki heldur koma mér til að brosa. Íris segir:

Dómurinn er nokkuð strangur en ég er þó sammála honum að mestu leyti enda er ég mjög hlynnt gæsalöppum.

 

Þetta er nú ekkert fyndin setning en málið er að ég var í gærkvöldi á afmælishátíð Femínistafélagsins/ 7 ára bloggafmæli mínu og þá var sýnd verðlaunamynd úr stuttmyndasamkeppni Femínistafélagsins en Íris vann einmitt þá keppni með mynd sinni "Brjótum upp formið" sem var ansi góð og byltingarkennd , svona hugmynd um að ef þú getur ekki unnið eftir mynstrinu þá sé bara að brjóta það upp.  Ég hugsa að ég eigi alltaf eftir að brosa yfir verkum Írisar í fræðunum og hugsa hvort  hún muni brjóta upp formið þar.... eða bara halda sig í tryggu og öruggu skjóli innan gæsalappanna.

Kistan.is er ekki ein í illmælginni. Það var illyrmisleg umræða hjá nafnleysingjunum á malefnin.com um fjársöfnunina fyrir Hannes. Margt sem þar er sagt er þrungið mannfyrirlitningu og sumir virðast njóta þess að hlakka yfir óförum annarra. Ég get nú samt ekki gert að því að ummæli málverjans Sölku fengu mig til að brosa. Hún sagði:

Væri nú ekki betra að "kenna Hannesi að veiða sinn eiginn fisk" í stað þess að "gefa honum fisk"??


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er frábær færsla - held einmitt að mjög margir hafi tekið heljarstökk inní sér af gleði yfir því að HHG var dæmdur.

Það gæti lýst ákveðnum löstum en er svosem fullkomlega mannlegt.

Hinsvegar að halda áfram með þá hugsun og bera hana á torg eins og margir hafa gert (t.d. á Kistunni) er svo illkvittið og rætið að maður spyr sig hvað þessu fólki gangi til. 

Barði Barðason (IP-tala skráð) 2.4.2008 kl. 12:52

2 Smámynd: Auðun Gíslason

Illkvittinn og rætinn?  Það er nú ekki einsog Hannes sé sem nýfallin mjöllin á kyrrum vetrarmorgni.  Engum hefur hann hlíft þegar því hefur verið að skipta.  En kannski er Þórðargleðin fullmikil fyrir suma?

Auðun Gíslason, 2.4.2008 kl. 14:01

3 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur ætíð verið duglegur við að koma sér á framfæri hvort heldur er í ræðu eða riti og þannig strokið mörgum gegnt feldinum. Fólk sem sækir í athygli lærir fljótt að það getur ekki alltaf valið að vera sólarmegin í umræðunni. Þetta veit HHG og hefur tekið því af æðruleysi. Nú hefur hann, hins vegar, verið dæmdur fyrir ritstuld af Hæstarétti Íslands. Í mínum huga er það gríðarlegt áfall bæði fyrir HHG og Háskóla Íslands. Kjamsið á Kistunni er afleiðing þess að hvorki HHG né rektor HÍ hafa tekið á því máli af röggsemi.  

Sigurður Ingi Jónsson, 2.4.2008 kl. 14:30

4 identicon

Varðandi Írisi: Finnst þér það gott dæmi um að brjóta upp formið að sleppa gæsaslöppum?

Óli Gneisti (IP-tala skráð) 2.4.2008 kl. 15:21

5 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Ég fór inná Kistuna og las og finnst ekki vera nein heift í þessum ummælum, fólkið setur einfaldlega fram skoðanir sínar á þessu máli og það er alveg sjálfsagt að fá fram afstöðu Háskólans til málsins og þó fyrr hefði verið. Þetta er grafalvarlegt mál fyrir Háskólann. Hvað varðar ummæli Hannesar um Jón Ólafsson, hefði Hannes ekki þá átt að kynna sér meiðyrðalöggjöfina áðuren hann setti þau fram? Það er nú ekki beinlínis sunnudagaskólaorðbragð sem hann viðhefur um Jón. Sjálf hef ég orðið fyrir því að Hannes ritaði grein í Helgarpóstinn sáluga og spann þar upp ósannindi um hegðan mína, Ævars Kjartanssonar og Sigrúnar Stefánsdóttur á þingpöllum þegar mál Ríkisútvarpsins voru eitt sinn rædd á alþingi. Ég hygg að margir geti sagt svipaða sögu. En flestir þeir hafa kannski hvorki haft fjárráð Jóns Ólafssonar né heldur neina sérstaka ást á meiðyrðalöggjöfinni. Var Hannes ef til vill þess vegna farinn að halda að hann gæti sagt hvað sem væri, hvenær sem var?

Auk þess má ekki gleyma því að Hannes Hólmsteinn með réttu eða röngu er orðinn nokkurs konar táknmynd fyrir þá skelfilegu breytingu sem orðið hefur á þjóðfélagi okkar síðastliðin fimmtán ár eða svo. Og tilurð þeirrar táknmyndar er ekki hægt að þakka nokkrum öðrum en honum sjálfum. Því miður.

María Kristjánsdóttir, 2.4.2008 kl. 17:20

6 identicon

Ég hef fylgst með þessari umræðu úr fjarlægð og er sammála að margt undarlegt hefur gerst.  Það hefur aldrei verið lognmolla um Hannes, hann hefur tekið hart á málefnalegum andstæðingum og undrast ég ekki að það hlakki í sumum þeirra.  Að krefjast brottrekstrar út af dómi í hæstarétti er undarlegt.  Háskólinn hlýtur að hafa sinn eiginn farveg til rannsóknar á málefnum sem þessu.  Ég verð að furða mig á yfirlýsingum "fræðimanna" við Háskólann á Kistan.is.  Ég myndi ekki láta hafa mig út í svona vitleysu.  Hannes er vissulega prófessor við H.Í.  Sem slíkur hefur hann ákveðnar skyldur.  Ævisaga Halldórs er ekki rit sem var skrifað á vegum H.Í.  Samt sem áður ber Hannesi skylda til að fylgja ákveðnum starfsreglum.  Háskólinn þarf að láta fara fram rannsókn og ef vinnubrögð hans eru refsiverð innan þeirra veggja er venjulega byrjað með ávítum, kröfum um frekari þjálfun og fólk á skilorði í ákveðinn tíma þar sem fylgst er með þeirra verklagi.  Ekki veit ég til að bent hafi verið á að Hannes hafi annars staðar eða síðar stundað "ritstuld".  Hann hefur klárlega orðið fyrir ærumissi og orðstýr hans vankast.   Hvað gerist á endanum þarf að renna réttan farveg.

Anton

Anton (IP-tala skráð) 2.4.2008 kl. 17:38

7 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Óli Gneisti: Ég geri ráð fyrir að Íris hafi með orðræðu sinni átt við meira en að setja einhver greinamerki hér og þar. Þessi metafor um gæsalappirnar er um ákveðinn ritstíl, ákveðna tegund af ritun - ritstíll fræðimanna sem er byggður á löngum hefðum.

Svoleiðis ritstíll er góðra gjalda verður og þjónar ákveðnum tilgangi. En hann er ekki eina leyfilega tegund tjáningar ef segja á sögu einhvers manns. Það eru ekki margir sem hafa áhuga á að lesa þannig sögu og þannig frásagnir.

Það er ágætis leið til að brjóta upp formið að skrifa á öðru vísi hátt. Það er okkur öllum í hag að sem minnstar hömlur sé á tjáningarfrelsi okkar. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 2.4.2008 kl. 20:23

8 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

María: Þetta eru afar illgjörn skrif og í mörgum þeirra er hlakkað yfir óförum. Þú tilnefndir sjálf einhver dæmi um að Hannes hafi hegðað sér illa - að mér virðist til að réttlæta þessa framkomu gagnvart honum núna, hann hafi hegðað sér eins og skrímsli. Um það hef ég þetta að segja:

Þegar maður berst við skrímsli verður maður að passa sig að verða ekki að skrímsli sjálfur.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 2.4.2008 kl. 20:27

9 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Salvör, ljótustu ummælin um Hannes koma af þínu eigin lyklaborði:

"Þegar maður berst við skrímsli verður maður að passa sig að verða ekki að skrímsli sjálfur."

Sigurður Þórðarson, 2.4.2008 kl. 20:44

10 Smámynd: Júlíus Valsson

Sammála þér Salvör, þetta er afar ósmekkleg síða og er þar einfaldlega verið að leggja Hannes í einelti. Sumir eru bara enn að leika sér í skólaportinu...

Það er auðvitað ekki hægt að tala um ranga Hæstaréttadóma, en menn geta hins vegar verið þeim ósammála.

Ég hvet alla til að lesa greinargerð Hannesar hér.

Júlíus Valsson, 2.4.2008 kl. 22:24

11 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Salvör, ég var ekki að réttlæta neitt. Heldur aðeins að segja: Stundum uppskera menn eins og þeir sá. Hannes hefur beitt sér persónulega gegn ýmsu fólki með gífuryrðum t.dæmis gagnvart Jóni Ólafssyni. Mér finnst að Hannes ætti að vera maður til að viðurkenna að hann hafi gert rangt. Á meðan hann gerir það ekki - þá uppsker hann auðvitað málaferli þeirra sem hafa efni á slíku. Og hann er dæmdur maður. Hann hefur brotið gegn siðareglum og fræðireglum Háskólans. Ekki aðeins gegn Halldóri Laxness, heldur miklu fremur víst Peter Hallberg. Og að sjálfsögðu eiga kennarar og prófessorar við Háskólann telji þeir dóminn réttann, að koma fram með þær skoðanir sínar. Annað væri hneyksli.

Ég hef staðið upp til að verja málfrelsi Hannesar Hólmsteins, en ég stend ekki upp til að verja það að hann geri rangt.

Og það er tvennt í þessu með  skrýmslin. Annars vegar verður maður að sjálfsögðu að reyna að gæta þess að verða ekki skrýmsli sjálfur, en hins vegar verður maður líka að gæta þess að  láta ekki skrýmslið gleypa sig.

María Kristjánsdóttir, 2.4.2008 kl. 23:45

12 identicon

Það er líka umhugsandi hversu mikið liggur af fræðibókum eftir fólkið sem þarna tjáir sig eða hversu merkilegar þær eru. Mér sýnist það yfirleitt frekar lítið, undanskil þó Gísla Gunnarsson sem tjáir sig af sanngirni og hefur unnið að merkum rannsóknum sem hafa breytt sýn okkar á söguna.

En þarna er til dæmis fræðikona sem skrifaði bók sem er algjör heilaspuni – já, hreinræktaður þvættingur.

Egill (IP-tala skráð) 3.4.2008 kl. 00:51

13 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Það er margt merkra manna sem svarar og góðra fræðimanna. Og engin ástæða til að gera lítið úr þessu fólki. En það er ástæða til að harma að HÍ hefur þagað í fimm ár, það sýnir ekki beinlínis mikinn metnað fyrir skólans hönd né traust á málfrelsinu.

María Kristjánsdóttir, 3.4.2008 kl. 07:03

14 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Salvör mín, ég skil þig. En ég er ekki sammála þér - því miður.

Ég er ein þeirra sem var beðin um að svara spurningum kistunnar. Ég vona svo sannarlega að þú getir ekki lesið heift eða rangsleitni í svörum mínum. Þau eru einfaldlega í samræmi við skoðun mína á þessu máli.

Þetta framtak kistunnar.is er vafalaust til þess að sýna háskólayfirvöldum fram á vilja háskólasamfélagsins - því svo virðist sem háskólayfirvöld séu tvístígandi í málinu. Þetta er auðvitað vandmeðfarin aðferð að gera þetta svona - og því veltur auðvitað á þeim sem svara hvort umræðan sem þarna verður til er málefnaleg eða ekki.

En ég tek undir með Maríu Kristjánsdóttur hér ofar - Hannes bróðir þinn hefur á stundum reitt hátt til höggs sjálfur.

En einu verður ekki á móti mælt: Hann á augljóslega góða systur.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 3.4.2008 kl. 09:35

15 Smámynd: B Ewing

Ég tek undir með Ólínu.  Því miður er Hannes ekki barnanna bestur í heimi hér. 

Alveg án þess að dæma hann fyrir eitt eða neitt þá vekur það óneitanlega athygli viss samanburður sem hafður hefur verið í frammi á ritstuldi Hannesar, sem hann var dæmdur í Hæstarétti fyrir, og ritstulds bandarísks háskólanema af einni myndasögu Hugleiks Dagssonar

Neminn var rekinn úr náminu tafarlaust en Hannes situr enn, að því er virðist í fullu umoði Rekors HÍ.

Það er þetta siðferðisatriði sem flestir eru kjamsa á (með mis(ó)kurteisum hætti).

kv:

Unnar Már Sigurbjörnsson 

B Ewing, 3.4.2008 kl. 10:49

16 identicon

Eitt sinn (sem oftar) áttum við HHG í deilum og var haft eftir mér: "Ég er ósammála honum en tilbúinn að láta lífið fyrir að hann fái að hafa skoðun". Þetta er auðvitað stolið úr frönsku byltingunni en blaðamaður Fréttablaðsins þótti þetta merkilegt og birti sem mína speki. Vonandi fæ ég ekki bágt fyrir. Ég var kominn á sömu hillu og Ólína fyrir löngu og hef í raun ekkert við það að bæta. Svör margra í Kistunni er þeim til minnkunnar bæði sem persónur og fræðifólk. Ég held að þar sé pólitísk gláka á ferðinni. HHG sagði eitt sinn við mig: -Sá sem aldrei lyftir höfði upp úr skotgröfinni kemst aldrei neitt en á jafnframt á hættu að fá í sig skot.- Ég er sannfærður að ef gæsalappir hefðu verið á réttum stöðum væri þessi ritröð um HKL talin það merkasta sem út hafi verið gefið um nóbelskáldið. Sendu drengnum heilsu mína. Hann hefur bein til að bera.  

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 3.4.2008 kl. 11:12

17 identicon

Alþingi götunnar fer dagfari náttfari á bloggsíðum um þessar mundir og krefst þess að Hannes missi starfið við Háskólann.

Ekki minnist ég þess að sá háværi risi, Alþingi götunnar, hreyfði neinum athugasemdum á sínum tíma þegar einn frambjóðandinn, sá sem kjörinn var, viðurkenndi aðspurður að hann væri ekki með hreint sakavottorð.   

Hæstaréttardómurinn er sjálfur nógu óvæginn, sumir segja rangur, þó ekki verði bætt við hann  aftöku af óprúttnu fólki.

Ólafur Vignir Sigurðsson (IP-tala skráð) 3.4.2008 kl. 12:06

18 identicon

Kíkið á www.jonas.is og lesið örblogg hans um samkeppni háskóla. Segir allt sem segja þarf um Háskóla Íslands, og þar með liðið sem er með bloggræpu á kistan.is

Eiríkur (IP-tala skráð) 3.4.2008 kl. 22:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband