Að brjóta niður fólk

Það er stundum  örmjó markalína milli þess að  vera friðsamleg mótmæli og þess að vera skrílslæti. Það sem ég sá í fréttum frá mótmælum á áhorfendapöllum Ráðhússins og heyrði í beinni útvarpsútsendingu þaðan var hins vegar bara eitt, þetta var langt frá markalínunni - þetta voru skrílslæti. Þetta voru ekki friðsamleg mótmæli. Þetta segi ég þó ég sé svarinn andstæðingur þeirrar stjórnar sem tók við í dag, stjórnar undir forustu manna sem hafa ekkert traust, stjórnar sem er svo veik að borgarstjórinn nýtur ekki einu sinni trausts sinna næstu manna á lista og á í erfiðleikum með að úthluta þeim nefndarsætum sem í hluta hans stjórnmálaafls koma vegna þess að hans nánustu samherjar og næstu menn á listum vilja ekki taka þátt í þessari stjórn. En mér vitanlega höfðu þeir menn sem nú mynduðu stjórn fulla heimild til þess og við verðum að virða leikreglur lýðræðisins jafnvel þó við höfum ímugust á þeim sem veljast í stjórn.

En það var annað sem mér fannst sárt að horfa á í dag. Það var að horfa á kát og glöð ungmennin sem hrópuðu ókvæðisorð á pöllum Ráðhússins án þess að átta sig á því að verknaður þeirra var ennþá einn liður í að grafa undan lýðræði í þessu landi og liður í að  búa til meiri skrípaleik úr þessu máli. Sá grunur læddist einnig að mér að ef til vill væri þessi mótmæli skipulögð  og samstillt af eldri og reyndari fólki með aðallega einn tilgang í huga. Þann tilgang að koma Ólafi F Magnússyni aftur í veikindafrí.  


mbl.is Hávær mótmæli í Ráðhúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Theódór Norðkvist

Mótmælendurnir gerðu mikil tæknileg mistök (ef maður má nota það orð, án þess að það misskiljist.)

Ef þeir hefðu einfaldlega verið skipulagðari og púað í upphafi og í lokin í hvert sinn sem Ólafur, Vilhjálmur og fylgdarlið hans stigu í pontu, án þess að fyrir yfir velsæmismörk og gefa tilefni til brottvísunar af pöllum ráðhússins, hefði það getað haft mjög mikil sálræn áhrif á valdaræningjana og almenningsálitið. 

Theódór Norðkvist, 25.1.2008 kl. 00:48

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ég tel að þessi stjórn hafi verið stofnuð á annarlegan og skúrkalegan hátt og fyrir henni standi leiðtogar sem ekki er treystandi, annars vegar er Vilhjálmur rúinn trausti út af Rei og hins vegar er Ólafur sem bara einfaldlega hefur ekki þá víðsýni og samningslipurð og stjórnvisku sem borgarstjóri þarf að hafa.

Hins vegar efast ég ekkert um umboð þessara manna. Þeir hafa umboð til að gera þetta og Vilhjálmur hefur liðstyrk frá sínum borgarfulltrúum. Þeir hafa farið eftir þeim reglum sem gilda og virt lýðræðið. Það heimskulegasta sem ég hef heyrt í dag er haft eftir Degi Eggertssyni (sem nota bene var mjög góður borgarstjóri sem ég styð heils hugar) að það ætti að kjósa aftur. Það er bara ekki þannig að ef þér líkar ekki stjórnarmynstrið þá getur þú ekki krafist nýrra kosninga. 

Þessi nýja stjórn hefur liðsstyrk til að mynda meirihluta. Okkur ber að virða það. Það var sams konar liðsstyrkur og hins stjórnin hafði. En þessi stjórn er miklu, miklu veikari og veikasti hlekkurinn er borgarstjórinn því varamaður hans styður hann ekki. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 25.1.2008 kl. 01:04

3 Smámynd: Júlíus Valsson

Það var mjög merkilegt að sjá þingmenn á fullum launum frá almenningi í skrílslátunum á pöllunum.

Júlíus Valsson, 25.1.2008 kl. 08:30

4 Smámynd: halkatla

það er mjög ósmekklegt að láta einsog veikindi Ólafs F komi mótmælendunum við skrílslæti eru amk heiðarleg athöfn...

halkatla, 25.1.2008 kl. 08:47

5 identicon

Þessi mótmæli höfðu ekkert með heilbrigði borgarstjóra að gera. Þarna var reitt fólk, vissulega ungt, sem var að mótmæla. 68 kynslóðin (moya) var háværari. Að líkja þessu við Gúttóslag er söguleg vanþekking.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 25.1.2008 kl. 09:12

6 Smámynd: Vilborg G. Hansen

Sæl Salvör, já þetta var miður að sjá og takk fyrir góðan pistil.  Og já þarna voru þingmenn eins og Álfheiður Ingadóttir að taka þátt í þessu.

Vilborg G. Hansen, 25.1.2008 kl. 09:26

7 Smámynd: Steinn Hafliðason

Það voru og eru fleiri reiðir heldur en unga fólkið. Þó að ég sé sammála því að það eigi ekki að ráðast að fólki vegna veikinda þá er borgarstjóraembættið embætti almennings og sá sem þar situr verður að geta tekið gagnrýni, mótmælum og öðrum athugasemdum hvort sem þau eru af reiðu eða rólegu fólki. Ef borgarstjórinn er of veikur til að vera borgarstjóri á hann ekki að vera borgarstjóri.

Mér finnst ótrúlegt að hlusta á að það eigi að fara með silkihönskum um borgarstjórann af því að hann er svo viðkvæmur, hann velur sér sitt hlutverk sjálfur og ætti að gera sér grein fyrir því hvernig embætti hann er að taka við.

Steinn Hafliðason, 25.1.2008 kl. 09:31

8 identicon

Málfrelsið er mikilvægt og allir eiga að hafa rétt á því að koma sínum skoðunum á framfærði en þetta var allt of langt gengið! Ég er sammála því að þarna var um hrein og klár skrílslæti að ræða, múgæsingin í algleymingi og mér er til efs að þeir sem hrópuðu hvað hæst hafi gert það af pólitískri sannfæringu. Þá fannst mér til skammar fyrir þessa einstaklinga að veitast að fullorðnu fólki á pöllunum. Í Kastljósi var rætt við fullorðna konu sem sagði að unga fólkið hefði gert hróp að henni fyrir að vilja ekki taka þátt í látunum og kallað hana fasista. Hvað varð um almenna kurteisi og virðingu fyrir fullorðnu fólki? Þetta unga fólk sem býr svo vel að geta dundað sér við frammíköll í ráðhúsinu á virkum degi ætti síst af öllu að vera með slíkan dónaskap við kynslóðina sem vann myrkrana á milli við að skapa það velferðarþjóðfélag sem unga kynslóðin nýtur góðs af í dag.

Svava (IP-tala skráð) 25.1.2008 kl. 09:57

9 Smámynd: Júlíus Valsson

Ég tók stundum þátt í mótmælum í kring um 1970 vegna Vietnam stríðsins. Það voru oft skrílslæti og ekkert annað.

Júlíus Valsson, 25.1.2008 kl. 10:09

10 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Júlíus: Það er kannski meira viðeigandi að íslendingar (reykvíkingar) mótmæli leynimakki og valdabrölti í borgarstjórn, sem kemur niður á okkar samfélagi og er á ábyrgð okkar kjörnu stjórnmálamanna, en að mótmæla stríði sem við höfðum ekkert með að gera.

Varðandi þessi mótmæli þá finnst mér eðlilegt að gagnrýna óhófleg skrílslæti, en ungt fólk sem veit í hjarta sínu hvað er rétt og hvað er rangt, þegir sem betur fer ekki svo glatt, og er ekki búið að læra hvað telst eðlileg háttvísi við svona sjaldgæfar aðstæður.

Það eru afskaplega veik (ef ekki sjúk) rök hjá eldra fólki að halda því fram að ungmenni hafi ekki "rétt" til að mótmæla, en ef einhverjum í þessu landi þykir 18 ár vera of ungur aldur til að teljast lögráða og mega kjósa til þings, þá væri gaman að sjá rökstudda ádeilu á núverandi fyrirkomulag.

Steinn E. Sigurðarson, 25.1.2008 kl. 10:50

11 Smámynd: Edward Gump

Ég held ég sé blár.  Vinir mínir segja það amk, og síðustu 3 skipti (af ca 7) hefur verið x-að við D hjá mér.  Það þýðir ekki að ég fylgi þeim í blindni, og ég er algjörlega orðlaus yfir hvað hefur gerst síðustu daga.  Fyrir borgarstjórnarfundinn, þá var ég 100% viss um að ég myndi ekki kjósa D næst. 

Því miður eftir að hafa heyrt ræður og viðtöl við Dag og Svandísi, og fylgst með fundinum, þá er ég orðinn 50/50.  Synd því tilfinningin hjá mér var að þau gætu nýtt sér þetta betur, og komið út sterkari en fyrir, en sýnist í raun að þetta séu allt krakkar í sankassaleik.

Edward Gump, 25.1.2008 kl. 11:53

12 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Þakka þér fyrir yfirvegaða og skynsamlega greiningu á atvikum gærdagsins. Þarna talar manneskju með góðar gáfur og gott andlegt jafnvægi, ekki spurning.

Flosi Kristjánsson, 25.1.2008 kl. 16:24

13 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Fólk hefur gjörsamlega misst sig í þessu, veit ekki hvor gjörðin er betri.  En múgæsing er hræðilegt vopn, sé því beitt af fullum þunga, eins og mér sýnist hafa verið gert hér.  Af hverju hefur þessu vopni ekki verið beitt fyrr, eða við allan yfirganginn sem Davíð Oddsson og félagar hafa sýnt gegnum árin, eða er það eingöngu út af því að fólk er visst um að hér sé um viðkvæmari einstakinga að eiga, eins konar náttúruleg goggun í minni máttar, ég hugsa svipað og þú Salvör.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 25.1.2008 kl. 16:36

14 Smámynd: Elinóra Inga Sigurðardóttir

Ég held að fólk ætti að staldra aðeins við, setja sig í spor Ólafs og spyrja sig þeirrar spurningar hvort það hefði bein í nefinu til þess að standa undir sömu svívirðingum og hann. Hann hefur sýnt það og sannað nú þegar eftir gærdaginn að hann er sterkur. Hann ætlar sér góða hluti.

Elinóra Inga Sigurðardóttir, 25.1.2008 kl. 17:07

15 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Fyrir nokkrum árum var ég viðstödd skólaslit í einum framhaldsskóla á höfuðborgasvæðinu. Sumir unglinganna fengu verðlaun og samnemendur þeira fögnuðum þeim með hrópum og köllum og klappi einsog á íþróttaleik. Í leikhúsum borgarinnar lætur fólk sér ekki nægja að klappa lengur, það rís á fætur hrópar bravó, og blístrar og stappar. Í Gettu betur æfa unglingarnir talkóra til að hvetja sína menn. Á þakkargjörðarhátíð í Vestmannaeyjum var í beinni útsendingu í sjónvarpinu ýtt undir hróp og óp Eyjamanna þegar þeim var gert að klappa. - Talkórar unga fólksins í ráðhúsinu eru hins vegar aldagömul hefð í evrópskum mótmælum og hefur áratugum saman verið beitt í mótmælum hér á landi -það að telja að þeim hafi verið beint fyrst og fremst gegn Ólafi F. og að þeir hafi verið svona sterkir vegna múgsefjunar er ekki rétt mat á aðstæðum - miklu fremur ætti að horfa til þess breytta veruleika sem þetta unga fólk hrærist í.

María Kristjánsdóttir, 25.1.2008 kl. 17:38

16 Smámynd: Þórir Hrafn Gunnarsson

Heil og sæl,

Ef þú telur þig hafa einhverjar upplýsingar um að ungliðahreyfingar vinstrimanna hafi ætlað sér að brjóta borgarstjóra niður skaltu leggja þær fram, annars er þetta rógur og ekkert annað. Þetta eru dylgjur af verstu sort og hreinlega til skammar.

Ég hef aldrei nokkurn tímann talið ástæðu til þess að vorkenna nokkrum þeim sem gegnt hefur stöðu borgarstjóra og það er enginn ástæða til þess að byrja núna. Almenningur á ekki að fara að umgangast æðsta embættismann borgarinnar eins og einhvern sjúkling út frá orðrómum á götum bæjarins. 

Maðurinn telur sig hafa heilsu til þess að gegna embættinu og hefur sjö manna samstarfsflokk sem virðist treysta honum í það. Ég sé því ekki ástæðu til þess að maðurinn ætti ekki að þola mótmæli, jafnvel af þessari stærðargráðu.

Ef þessi mótmæli verða það erfiðasta sem núverandi meirihluti þarf að eiga við þá er starf borgarstjóra mun auðveldara en ég hafði gert mér í hugarlund.

Kveðjur :)

Þórir Hrafn Gunnarsson, 25.1.2008 kl. 20:56

17 Smámynd: halkatla

langflestir mótmælendurnir gátu ekki hafa vitað um nein veikindi sem hefðu hugsanlega getað farið í gang vegna múgæsingar á pöllum (borgarstjórinn fer þá væntanlega ekki á neina íþróttakappleiki eða hvað, hvað segið þið heilbrigðisfræðingar?), sérstaklega ef þetta var einsog þið haldið líka fram að mótmælin hafi verið barnaleg og bara æpandi krakkar sem áttu ekki að vera með læti í ráðhúsinu... hvort ætliði að velja? Það er mjög ómaklegt að draga allt þetta fólk inní svona ljótar og svívirðilegar vangaveltur þótt eitthvað kunni hugsanlega að eiga sér stoð, sættið ykkur við það að fólk er reitt, það er ekki tilbúið fyrir fjáraustrið og augljósa spillinguna sem fylgir þessu því miður!

og eitt og eitt krakkafífl sem skemmir fyrir góðum málstað á ekki að halda ykkur frá því að viðurkenna það sem er rétt.

halkatla, 25.1.2008 kl. 20:57

18 Smámynd: Benna

Ég er nánast orðlaus eftir lestur síðustu greinaskila hjá þér?
Hvað meinarðu að ætla fólki að það hafi mætti sérstaklega með þessi læti til að brjóta Ólaf "greyið" niður?

Er ekki allt í lagi ....segi ég nú bara og eitt er víst að þetta var svo sannarlega ekki bara 18 ára krakkar, þarna var fólk á öllum aldri og þó svo einn og einn hafi misst sig og hrópað ókvæðisorð er óþarfi að dæma alla hálfvita eða skríl!

Þú sýnir það og sannar hér að þú ert einmitt einn af þessum íslendingum sem situr heima og tuðar yfir ömurlegri framkomu stjórnmálamanna en gerir svo ekkert....friðsamleg mótmæli hvað? Síðan hvenær hafa friðsamleg þagnarmótmæli borið árángur og hvar annar staðar heiminum nema hér er það stundað hvergi held ég.....loksins þorði einhver að láta í sér heyra og mótmæla af fullri alvöru, sýna að þetta er alltof langt gengið og að sjálfsögðu á að kjósa aftur þessum mönnum er ekki stætt af að sitja þarna ...hafa ekkert fylgi á bak við sig og það er ekkert ekkert sem réttlætir þetta framferði.

Síðustu greinaskil þín segja allt sem segja þarf um ástand núverandi borgarstjóra og hversu hæfur hann er eða þannig!

Benna, 25.1.2008 kl. 21:50

19 Smámynd: Soffía Sigurðardóttir

Af hverju teljast það skrílslæti þegar heyrist í mótmælendum?

Má bara blogga?

Má bara tuða?

Mótmælaaðgerðirnar í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag fóru friðsamlega fram, jafnvel þótt þær hafi ekki verið samkvæmt fundarsköpum borgarstjórnar. Þær eru ekki aðför að lýðræðinu, þær eru réttmætur hluti af lýðræðinu. Þá fyrst þegar slík friðsamleg mótmæli verða brotin aftur með valdi, verður lýðræðinu ógnað.

Síðast athugasemdin þín, Salvör, að eldri og reyndari stjórnmálamenn séu að reyna að brjóta niður heilsu nokkurs manns í pólitískum tilgangi, er ógeðsleg.

Þegar sá grunur læddist að þér að einhverjir væru að notfæra sér veikindi Ólafs, datt þér þá ekkert í hug að líta honum nær? Reyndar tel ég að Sjálfstæðismenn hafi ekki verið að misnota heilsufar Ólafs til að táldraga hann. En, þeir hafa unnið skipulega að því í rúma þrjá mánuði að finna veiku punktana hans og hvernig þeir geti notfært sér þá. Og það af algjöru miskunnarleysi. Þar fara allavega menn sem er ekki annt um heilsu hans, nema hvað hún ruggar valdastólunum þeirra.

Soffía Sigurðardóttir, 25.1.2008 kl. 23:52

20 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ég bið fólk að hafa sjónar á aðalatriðum þessa máls. Hópur fólks undir nafni ýmissa stjórnmálahreyfinga er stefnt saman á áheyrendapalla borgarstjórnar gagngert til að hafa þar í frammi óspektir og sumir kalla ókvæðisorð að borgarfulltrúum. Atburðurinn fer fram í fundarsal borgarstjórnar, sem sagt í rými sem við borgarbúar eigum og  sem ætlað er borgarfulltrúum til að vinna þá vinnu sem þeir eru kjörnir til. Það er ólíðandi að vinnufriður og sálarró borgarfulltrúa sé trufluð með þessum hætti. Ég held að allir ættu að hugleiða hvort þeir vilji verða fyrir svona framkomu og svona svívirðingum á sínum vinnustað.

Verjið ekki  múgæsingu, skrílslæti og rustahátt bara af því að þeim er staðið af stjórnmálaöflum sem þið tilheyrir og lætin eru í þágu góðs málstaðar. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 26.1.2008 kl. 10:03

21 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Hélt seinnt að við ættum eftir að verða sammála Salvör en en síðasta athugasemd þin hér að ofan segir allt sem þarf í þessu máli og er eitt besta sem að ég hef séð um það.  Þegar síðan er rætt um biðlaun borgarstjóra núna ættu menn að telja fjölda borgarstjóra síðasta kjörtímabils og það baktjalda makk sem var þegar Ingibjörg hröklaðist frá Það er lýðræðisleg borgarstjórn að störfum núna og mér lýst bara vel á hana hún tekur ákvarðanir tildæmis með húsin það er betra að taka ákvarðanir jafnvel rangar heldur en velta málum fram og til baka þannig að hægt sé að afgreiða þau án þess að einhver beri ábyrgð á þeim.

Jón Aðalsteinn Jónsson, 26.1.2008 kl. 10:20

22 identicon

Þetta er tepruskapur! Enginn er að gera aðför að heilsu Ólafs. Hvað varðar fundarsköp og starf borgarstjórnarfulltrúa, þá er þetta nýtt viðhorf til starfs þeirra, sem gerir politiska fulltrúa að teknokrötum, sem bara eru að vinna vinnuna sína. Þetta er ekki hefðbundið starf, og ef Ólafur væri í sínu starfi þá væri hann læknir, sem er menntun og starf hans. Stjórnmál eiga meira skylt við pop og list heldur en hefðbundið skrifstofustarf, og það er partur að því að þá er stundum púað. Að fólk gat fengið að haga sér svona í Ráðhúsinu er það eina jákvæða í bóndadags - pungstöppufýlunni sem lekur um stræti og torg eftir að húsbændurnir fengu aftur húslyklanna. Lýðræðið er ennþá eitthvað virkt, en það er ekki að sama skapi virt.

Hermann (IP-tala skráð) 26.1.2008 kl. 14:17

23 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ég hef verið að velta fyrir mér spurningu sem sumir hafa borið fram. Á almenningur og þeir sem eru að mótmæla að taka sérstakt tillit til þess ef borgarstjóri eða annar í svipuðu starfi er sérstaklega viðkvæmur á einhverju sviði? Á ekki fólk í svona stöðu að bara þurfa að þola það að vera púað niður nú eða klappað upp eftir því sem vindurinn blæs? 

Ég hef svarað þessari spurningu fyrir sjálfa mig. Mér finnst allir eigi rétt á kurteisi og virðingu undir öllum kringumstæðum sem einstaklingar. Mér finnst líka það vera vanvirðing við það embætti sem fólk gegnir ef gerð eru hróp og köll að fólki sem er að vinna eitthvað í embættiserindum.  Það er mikilvægt að við virðum löglega kjörna leiðtoga þó við teljum þá ekki hæfustu menn í embættið og þó við teljum að undarlega óvandaðar aðferðir og brellur hafi verið notaðar til að telja þá á að taka við embætti. 

Mér finnst að allir ættu að taka tillit til sérstakra einstaklingsbundinna aðstæðna m.a. skaplyndis, heilsufars, bakgrunns og uppruna fólks og ekki færa sér í nyt veikleika einstaklinga til að knésetja fólk.  

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 26.1.2008 kl. 16:28

24 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Varðandi mótmæli þá við ég taka fram að mér fannst fínt að efna til mótmælastöðu og mótmæli fyrir utan ráðhúsið voru mjög viðeigandi á þessari stundu. En yfirgengilega ruddalegt gjamm nokkurra áheyrenda og ókvæðisorð á áheyrendapöllum voru alveg út úr kú og slökktu alla samúð hjá mér með þessum mótmælum.

Ég vil hvetja alla mótmælendur til að læra af þeim frómu Falun gong liðum sem hér komu um árið (mjög ýtið og skrýtið fólk reyndar) og klæðast áberandi leikfimisbúningum og iðka svona jóga, það virkaði vel hjá Falun Gong.

Svo vil ég hérna benda á mótmælaaðferð sem hugnast mér alveg sérstaklega vel. Það er að setjast á gangstéttar og fara að bródera 

Það má bródera svona texta í krosssaum:


Á íslensku myndi þetta útleggjast "láttu krossinn tala" og þetta er hugvekja um að fólk láti atkvæði sinn þ.e. krossinn sem það gerir á nokkurra ára fresti tala fyrir sig.

hér er mynd af svona krosssaumsmótmælasetu:

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 26.1.2008 kl. 16:36

25 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ekkert í pistlinum, eða athugasemdum þeim sem að eftir fylgdu kvikuðu mér frá því að álíta þig fara með rétt & satt mál, ópólitíkst séð.

Steingrímur Helgason, 26.1.2008 kl. 20:49

26 identicon

Ungt fólk sem hefur hugsjónir er óspillt og hefur ekki fjárhagslega hagsmuni að leiðarljósi.  Ég kann vel við ungt fólk og mér hugmyndir þeirra áhugaverðar.  Það er stutt á milli skríls og lýðs.  En ungt fólk sem lætur í sér heyra í örfáar klukkustundir einn dag er ekki skríll.  Miklu frekar að kalla ykkur bloggarana skríl.

Guðmundur (IP-tala skráð) 27.1.2008 kl. 12:14

27 Smámynd: Benna

Þú segir: Það er mikilvægt að við virðum löglega kjörna leiðtoga?
Bíddu síðan hvenær var Ólafur F löglega kjörinn leiðtogi?
Voru það ekki rúm 6.000 þúsund manns sem kusu hann?

Benna, 27.1.2008 kl. 14:39

28 Smámynd: Svala Jónsdóttir

"Mér finnst að allir ættu að taka tillit til sérstakra einstaklingsbundinna aðstæðna m.a. skaplyndis, heilsufars, bakgrunns og uppruna fólks og ekki færa sér í nyt veikleika einstaklinga til að knésetja fólk."

Nú hefur Ólafur F. vottorð upp á það að hann sé fullfrískur, þannig að það eru engar aðstæður fyrir hendi sem þarf að taka sérstaklega tillit til.

Annað hvort er hann frískur og fullfær um að það að takast á við það sem fylgir borgarstjórastarfinu, þar á meðal gagnrýni og mótmælum ef því er að skipta, eða hann er enn veikur og ætti að vera heima. Það verður ekki bæði sleppt og haldið í þeim efnum.

Svala Jónsdóttir, 27.1.2008 kl. 22:29

29 identicon

Já og niðurstaðan af annars ágætri grein þinni og 35athugasemdum er sú að það er algert skotveiðileyfi á stjórnmálamenn á Íslandi. Hvað sem er er leyfilegt, slæmt og gott.  Reyndar er svo orðið allsstaðar annarsstaðar í heiminum líka. Skjótið þá bara og spurjið svo " ja kanski" svo !

 Þetta er nú aldeilis ekki auðvelt að vera pólítíkus í dag og spurning hvort þetta er raunverulega þess virði, ja það er, ég meina, að láta mannorð sitt ævinlega að veði fyrir  næstum því eiginlega ekkert ! Því laun pólitíkusa eru nú eiginlega bara mjög lág, allavega lægri en flestra Íslenskra iðnaðarmanna, sem þó flestir hverjir taka fyrstu 3 milljónirnar "svartar og sykurlausar" og bölva svo pólitíkusunumm í næstu veislu og segja að þeir séu sko ekki að vinna vinnuna sína. En segja samt ekkert frá því að þeir sjálfir hefðu sko aldrei aldrei lyft hamrinum ! 

Gunnlaugur Ingvarssonve (IP-tala skráð) 28.1.2008 kl. 03:56

30 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Skrifaði inn á bloggið hennar Önnu Karenar þetta:

Ég skrifaði eins og þú veist greinina Að brjóta niður fólk

Ég held að mjög fáir af því unga fólki sem mætti á áheyrendapalla Ráðhússins hafi vitað af veikindum Ólafs F. Magnússonar. það var ekki fyrr en núna um helgina sem um  þau var rætt opinskátt í fjölmiðlum. Það vissu hins vegar flestir sem taka virkan þátt í borgarmálum af þessum veikindum. 

Rétt eftir þetta síðasta valdarán í Reykjavík var mikil heift meðal okkar sem nú erum komin í minnihluta og sumir sem rætt var við í fjölmiðlum gættu sín ekki í tali m.a. heyrði ég oftar en einu sinni í opinberri umræðu eitthvað orðað um að Ólafur myndi ekki endast lengi o.s.frv.  Ég er reyndar sannfærð um að ef sest væri að Ólafi F. með þeim klækjum sem slyngir stjórnmálamenn kunna og veikleikar hans notaðir út í ystu æsar þá mun hann hrökklast strax úr starfi. 

Ég get ekki gert að því að hugur minn hvarflaði til Auðuns Georgs Ólafssonar. Hann var ráðinn fréttastjóri RÚV og töldu flestir hann ekki besta kandidatinn í það og hann ætti ekki skilið þessa stöðu. Fólk á fréttastofu RÚV var mjög gramt og sýndi fimi sína strax í fyrsta fréttaviðtalinu við Auðunn Georg. Þau rúlluðu honum upp, hann var ekki æfður í svona og hafði enga möguleika, hann var eins og maður sem leiddur var til slátrunar. Þetta geta góðir fréttamenn gert en þetta gera þeir aldrei nema þegar þeir eru fullir af heift og telja sig verða að sigra og yfirbuga og afhjúpa andstæðinginn eða viðmælandann hvað sem það kostar.

Þetta geta æfðir stjórnmálamenn líka gert og ég efa ekki þau sem núna eru í minnihluta gætu skipulagt viðburði sem brjóta Ólaf algjörlega niður. Það eru fyrstu viðbrögð allra sem upplifa mikil svik að reyna að klekkja á andstæðingnum og þeim sem stóð fyrir svikunum. Það er hins vegar ekki þannig að í stjórnmálum séu öll vopn leyfileg og það er ekki þannig að þó þú hafir orðið fyrir miklum svikum að það gefi þér leyfi til að hegða þér eins lúalega sjálfur. 

Mér fannst mjög vænt um að heyra hvernig Dagur Eggertsson talaði í Silfri Egils, það er auðheyrt að hann reynir eins og hann getur að leggja ekki í atlögu við Ólaf F. sem þó hefur svikið hann illilega.

Ég held að Ólafur F. sé afleitur kostur sem borgarstjóri í Reykjavík en ég vona að ef hann hrökklast frá völdum þá verði það vegna málefnalegrar gagnrýni og andstöðu eða vegna þess að hann klúðrar sjálfur málum en ekki vegna þess að hann sé púaður niður í rými borgarstjórnar. Ég vil taka fram með mótmælin að mér fannst bara hið besta mál að mótmæla, þessi mótmæli gengu bara of langt, hugsanlega voru  ókvæðislorð "þú ert enginn fokkings borgarstjóri" hrópuð bara af örfáum. En það skemmdi því miður þessa athöfn og sneri samúðinni til andstæðinga.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 28.1.2008 kl. 13:06

31 identicon

Ungliðar hvetja til mótmæla á morgun

 

Stöðvum ruglið í Reykjavík: Yfirlýsing frá ungliðahreyfingum Tjarnarkvartettsins:

"Ungliðahreyfingar Samfylkingar, Vinstri grænna, Framsóknar og ungir stuðningsmenn Margrétar Sverrisdóttur ítreka mikilvægi samstöðu félagshyggjuaflanna í borginni og hvetja þau til þess að sameinast gegn upplausn í borgarstjórn Reykjavíkur út kjörtímabilið. Þessi samstaða er lykilatriði í því að úthýsa ruglinu úr ráðhúsinu.

Komið hefur í ljós að þessi skyndilegu og ástæðulausu umskipti byggja ekki á málefnaágreiningi heldur eru til komin vegna þess að sjálfstæðismenn í borgarstjórn eru tilbúnir að gera allt sem þarf til að ná aftur völdum eftir að hafa hrökklast frá vegna hneykslismála.

Nýr meirihluti verður auk þess óstarfhæfur vegna ósamstöðu meðal Sjálfstæðismanna og manneklu innan klofins F-lista sem eykur enn á óstöðugleikann í stjórnkerfi Reykjavíkur.

Reykvíkingar eiga betra skilið en að borgarstjórn þeirra leysist upp í baktjaldamakk og valdatafl. Nýr meirihluti var augljóslega myndaður á röngum forsendum og enn er hægt að hætta. Ungliðahreyfingarnar hvetja alla sem mögulega geta til þess að mæta á mótmæli Reykvíkinga   fyrir framan ráðhúsið, klukkan 11.45 á morgun fimmtudag, og koma skoðun sinni á þessu athæfi á framfæri áður en fundur borgarstjórnar hefst."

Auk þess má benda á söfnun undirskrifta á netinu, en þær verða afhentar á morgun klukkan 11.30:

http://www.petitiononline.com/nogbodid/petition.html

 

Þetta er tölvupósturinn sem mér barst um þessi mótmæli og ég vil benda þér á að það er ekki minnst á veikindi Ólafs í þessum pósti heldur manneklu innan flokkanna því það er á allra vitorði að hvorki Villi né Ólafur njóta stuðnings innan eigin flokka.

Að koma með svona rakalausan þvætting eins og þú gerir er langt fyrir neðan virðingu þína Salvör. Ég mundi ekki eunusinni trúa svona óhróðri upp á DO, sem þó beitti mörgum vafasömum aðferðum og sveifst einskis í því að ná fram því sem hann ætlaði sér

Kjons (IP-tala skráð) 28.1.2008 kl. 22:43

32 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Kjons: Ég held þú hafir ekki lesið það sem ég skrifa um þetta mál eða sérst einbeitt/ur að lesa þína eigin merkingu í orð mín. Ég skrifaði einmitt í athugasemdinni fyrir ofan þína:

"Ég held að mjög fáir af því unga fólki sem mætti á áheyrendapalla Ráðhússins hafi vitað af veikindum Ólafs F. Magnússonar. það var ekki fyrr en núna um helgina sem um  þau var rætt opinskátt í fjölmiðlum. Það vissu hins vegar flestir sem taka virkan þátt í borgarmálum af þessum veikindum... "

Ég held að þessi mótmæli hafi verið af þremur ástæðum

1) mikil reiði út af sviksamlegum og óheiðarlegum gerningi

2) fólk áttar sig á því að Ólafur F. Magnússon er slæmur kostur sem borgarstjóri

3) þau stjórnmálaöfl sem voru að missa völdin hafa mikla reynslu og hefð í svona mótmælaaðgerðum

4) von um að mótmælin flýti fyrir öðrum stjórnarskiptum

Ég held að enginn heiðarlegur stjórnmálamaður myndi viðurkenna fyrir sjálfum sér að hafa staðið að gerningi sem braut niður mann sem stóð ekki vel fyrir. Hins vegar hugsa ég að fáir Reykvíkingar muni syrgja mikið þá stjórn sem núna situr í Reykjavík. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 30.1.2008 kl. 18:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband