Heimskautarefir í Bolungarvík, bílvelta við Skarfasker, málþing á Hvanneyri

Ég er stödd í Bolungarvík og hérna er ágæt færð núna, ólíkt því sem virðist vera á Suðurlandi. Ágæt færð hér fyrir vestan er nú samt aðeins annað hugtak en við erum vön í Reykjavík því að ennþá þurfa Bolvíkingar að keyra hættulegasta veg landsins alltaf þegar þeir ætla til og frá Bolungarvík. Það eru hvarvetna ummerki um hætturnar á þessum veg, hann er hættulegur út af skriðum og snjóflóðum að ofan og hann er líka hættulegur vegna þess víða er snarbratt út í sjó. Þessi bíll fór út í sjó á þessari leið við Skarfasker sama daginn og ég kom. Þegar ég fór þar um var enginn bíll í sjónum heldur sat skarfahópur eins og vanalega á skerinu, þetta er eins og einhvers konar þingstaður þeirra.

Mágur minn sótti mig út á flugvöll og hann stöðvaði í Óshlíðinni við Kálfadal sem er skammt innan við Skarfasker  og benti mér á spotta sem hann hafði sett til að fikra sig upp snarbratta hlíðina því þar hefur hann sett upp bækistöð þar sem hann situr fyrir tófu. Hann hefur veitt nokkrar tófur síðustu daga og segir að það sé best að ná þeim í ljósaskiptunum og í tunglsljósi. Á hlaðinu á Hanhóli var síðasta veiðin, falleg nýskotin tófa og ég hafði náttúrulega samúð með varginum en lét hana ekki í ljós enda erfitt að lýsa yfir slíkri samúð og verja hana í húsakynnum  fjárbónda.  En tófur eru falleg og merkileg dýr og ef til vill mun sá tími koma að þær séu ekki réttdræpar hvar sem þær finnast, núna eru  dráp á þeim verðlaunuð með 7000 kr. fyrir skottið. Annars var einn forfaðir minn Björn Erlendsson fræg grenjaskytta og gaman að lesa ævisögu hans. 

Ég skrapp aðeins á málþing á Hvanneyri í dag. Ég var nú bara hérna í Syðridal í Bolungarvík og fór á málþingið á Netinu því að utanríkisráðuneytið er með þessa fínu netútsendingar Háskólafundaröð - Ísland á alþjóðavettvangi - erindi og ávinningur. Ég hlustaði á Áslaugu Helgadóttur tala um matvælaframleiðslu í heiminum og svo Ingibjörgu Svölu Jónsdóttur tala um Landgræðsluskóla. Það var fróðlegt að heyra Áslaugu segja frá því hve spámönnum hefði skjátlast mikið þegar menn eins og Malthus héldu því fram að fólki myndi fjölga miklu hraðar en matvælaframleiðslan gæti aukist. Það hefur ekki komið á daginn, þá var einn milljarður í heiminum, nú eru jarðarbúar 6 milljarðar og jörðin getur alveg brauðfætt þann fjölda. Hún lýsti hve mikinn hlut vísindi og hlutir eins og tilbúinn áburður hafa átt.  Það er frábært að geta skroppið svona á málþing þó maður sé staddur utan alfaraleiðar, það er mikilvægt að hvert einasta býli og byggðalag á Íslandi hafi góða nettengingu og það er líka mikilvægt að athuga hvort ekki megi draga mikið úr ferðalögum á alls konar ráðstefnur og fundi með því að nota svona nettækni. það er stórt skref að hægt sé að fylgjast með erindum en næsta skrefið er að það sé auðvelt að taka þátt í umræðum og koma með fyrirspurning hvort sem maður er staddur í Bolungarvík eða Reyðarfirði eða í ráðstefnusalnum þar sem málþing eru haldin.

Það sparar fé ef það þarf ekki  að ferja fólk fram og til baka milli landshluta út af fundum og ráðstefnum en það er líka mikilvægt út af aðgengi allra landsmanna að hafa málþing og samkomur sem hið opinbera stendur fyrir þannig að sem flestir geti sótt þær í netútsendingum þó þeir hafi ekki tök á að mæta á einhvern ráðstefnustað. 


mbl.is Keðjur undir lögreglubílinn í fyrsta sinn í manna minnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband