Sjónvarpsturninn og kirkjugarðurinn

Flat in Berlin 1 Nú er ég komin til Berlín og komin í Netsamband. Ég er í íbúð í Penslauer Berg og út um gluggann þá sé ég sjónvarpsturninn uppljómaðan gefa frá sér einhver blikk öðru hverju. Turninn Fernsehturm er frægt kennileiti hérna í Berlín, hann er eins konar íkon eða trúartákn fyrir tæknihyggju nútímans, hann var tákn  fyrir kommúnistastjórnina í Austur Berlín.

Í fyrsta skipti sem ég kom til Berlín sem var einmitt á þessu ári þá hafði fluginu seinkað þannig að ég kom ekki til Berlínar fyrr en eftir miðnætti, það var úrhellisrigning, svona drakúlahryllingsmyndaveður og ég vissi ekkert hvert ég var að fara þegar ég kom út úr lestinni á Alexsandertorginu. Ég hringsólaði í rigningunni og myrkrinu nokkra hringi í kringum  sjónvarpsturninn eins og í einhverjum ritual til að átta mig á aðstæðum og tók svo strætó samkvæmt leiðbeiningum sem ég fékk. Strætó stoppaði fyrir framan einhverja múrveggi, ég var búin að skoða þetta allt á Google maps og sjá að íbúðin sem ég hafði leigt gistingu í var í námunda við staði sem ekki voru íbúðahverfi, ég hélt að þetta væru verksmiðjur eða iðnaðarhúsnæði.

Nema hvað að ég fann hvergi gistinguna, ég gekk meðfram múrveggjunum háu og sums staðar voru hlið sem ég reyndi að komast inn um en alls staðar voru þau læst og umhverfið var draugalegt og lítið um lýsingu. Ég varð satt að segja soldið skelkuð, ég var ein á ferð og það er ekkert þægilegt að vera villt á gangi í ókunnri erlendri stórborg eftir miðnætti í rigningu og þrumuveðri  og finna hvergi innganginn í húsið sem maður ætlar að gista í og allt umhverfið dimmt og draugalegt.

En sem betur fer rættist úr þessu, mér datt í hug að prófa húsin hinum megin við götuna og þar fann ég rétta húsið.   

Ég kunni svo ágætlega við mig hérna, mér finnst fallegt að horfa út á sjónvarpsturninn og stóru tréð og múrvegginn háa út um gluggann. Ég sé nú ekkert nema turninn núna því það er myrkur. En ég er fegin að þarna um nóttina þegar ég kom hér fyrst og þegar ég reyndi að komast ínn í garðinn hinum megin við veginn að mér hafi ekki tekist það og öll hlið þar hafi verið harðlæst.

Það er nefnilega kirkjugarður. 

Mín fyrstu kynni af Berlín voru sem sagt að hringsóla í kringum sjónvarpsturninn í myrkri og rigningu rétt eftir miðnætti og reyna í örvæntingu að brjótast inn í kirkjugarð hérna til að gista.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Innbrot í kirkjugarð hefði náttúrlega verið í fullu samræmi við drakúlahryllingsmyndaveðrið :)

Svava (IP-tala skráð) 25.9.2007 kl. 10:13

2 identicon

Ég mátti til að kíkja á bloggið þitt, þar sem þú nefndi Berlín, en ég sé ekki betur en að þú sért þar sem ég var í hálfan mánuð fyrir tveim árum. Þetta er stórkostlegur staður ég leigði þarna íbúð ásamt þrem öðrum.  Ég vona bara að þú farir í Nicolai hverfið, kannske þekkir þú það bara, en það er afskaplega afslappandi. Kv. Sólveig

Sólveig Hannedóttir (IP-tala skráð) 25.9.2007 kl. 10:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband