Tónlistarnám, frístundakort og stafrænt föndur

e1b6c31e

Það er gott að búa í borg þar sem velmegun er  mikil. Það er ennþá  betra að búa í borg þar sem skilningur er á að styrkja menntun, menningu og listir. Það er ekkert að því að tónlistarnám sé niðurgreitt fyrir krakka í Reykjavík, það er þess eðlis að það er dýrt nám  og það þarf oft að hafa fáa nemendur í hóp eða jafnvel einkatíma. Svoleiðis nám er náttúrulega dýrara en þar sem hægt er að stafla nemendum inn í stórum hópum.

En er þetta sniðugasta og besta  og réttlátasta aðferðin til að styrkja börn í Reykjavík til listnáms? Ég held að svo sé ekki.

Í fyrsta lagi þá er listgreinum gert mjög mismunandi undir höfði, þannig fer afar hár styrkur til að styrkja nemendur í tónlistarnám en miklu minni styrkur til að styrkja nemendur í t.d. myndlistarnám.  Í öðru lagi þá er sumt af þessu tónlistarnámi mjög "selectivt", það eru ekki nema nokkrir nemendur sem komast í þetta nám og fremur óljóst hvernig staðið er að því að velja inn nemendur. Í þriðja lagi þá kostar það nemendur mikið að vera í þessu námi þó það sé svona mikið niðurgreitt.  Þetta þýðir að það eru einmitt foreldrar sem hafa aðstöðu þ.e. rúm fjárráð og áhuga á listum sem hafa mestu möguleikana að koma börnum sínum í svona nám. Það gildir það sama um niðurgreiðslu á menningu hvað varðar nám í tónlistarskólum og t.d. Symphoníuhljómsveit Íslands og Þjóðleikhúsið, það er sennilega verið að niðurgreiða menningu og menningarnám fyrir þann hóp samfélagsins sem er best settur fyrir - það er verið að niðurgreiða elítumenningu fyrir elítuna.

Það eru aðrar aðferðir sem eru réttlátari gagnvart fátækum börnum og foreldrum sem hafa aðrar áherslur en tónlist í uppeldi barna sinna. Þar má nefna  frístundakortin sem við  Framsóknarmenn höfum á stefnuskrá okkar þ.e. að hvert barn fái upphæð sem foreldrarnir geta valið hvernig þeir nota fyrir frístundanám barna sinna. Mér skilst að þetta sé einmitt núna að komast í gagnið í Reykjavík. Þess má geta að hagfræðingurinn Milton Freedman hafði eimitt þessar hugmyndir í skólamálum. Hann stakk upp á slíkum kortum eða upphæð sem fylgdi barninu en ekki styrkjum til menntastofnana.

Það er skynsamlegt að láta meðgjöf frá opinberum aðilum  fylgja börnum  en setja hana ekki beint til stofnana m.a. til skólastarfs. Væri hægt að útfæra þetta fyrir meira en frístundir barna? Væri hægt að hugsa sér að hvert barn fengi ákveðna upphæð á hverju ári sem foreldrar gætu ráðstafað til skólahalds og námskostnaðar? Hugsanlega myndu einhverjir foreldrar kjósa að hafa börnin sín í fjarnámi og einhvers konar óhefðbundnu námi s.s. leshringjum eða jafnvel kjósa að mennta sjálfir börnin sín (home schooling) eða hafa þau í skólum þar sem öll kennsla fer fram á ensku? Væri það vont fyrir Reykjavík og Ísland?

Sennilega ekki. Sennilega eru upplýstir foreldrar - amk ef þeir eru ekki of krepptir í að leysa  pössunarvandamál fyrir börnin sín - bestu dómararnir í hvað kemur sér best fyrir börnin og það eru þeir sem eru hvað mest á vaktinni fyrir velferð barnanna sinna og vilja tryggja góðan hag þeirra og hamingju í framtíðinni. 

Sennilegra munu foreldrar velja fjölbreytilegri svið ef þau hefðu meira val um hvernig kostnaði vegna náms barna þeirra væri varið.  Hugsanlega myndu þeir velja annars konar listnám en klassískt tónlistarnám. Hugsanlega myndu einhverjir foreldrar velja einhvers konar stafrænt föndur eða listssköpun með rafrænum miðlum fyrir börnin sín ef þeir fengju að ráða - ég tala nú ekki um ef börnin sjálf hefðu eitthvað að segja um valið.

Myndin með þessu bloggi er af  tveimur vestfirskum bóndadætrum þeim Þorsteinu Þöll og Magneu Gná með Gísla Garðar frá Hvanneyri á milli sín. Ég vann þessa mynd í Fotoflexer, það er ennþá ein vefþjónustan sem breytir myndum. Þetta er dæmi um stafrænt föndur sem í dag er forsmáð og lítilsvirt listgrein, já reyndar svo lítilsvirt að sumir brosa kannski þegar einhver sem tekur stafrænar ljósmyndir og vinnur þær áfram tengir það eitthvað við listsköpun.

028

Ég lít á bloggskrif sem listsköpun og ég lít á stafræna ljósmyndun og stafræna myndvinnslu sem listsköpun. Ég held að  þeir sem líta svo á að þeir séu að sinna list blási öðru vísi lífi í verk sín, einhverju sem kemur ekki nema sá sem skapar trúi á list sína.

Járnsmiðurinn Kristján Jóhannsson frá Akureyri með röddina fögru og þróttmiklu sem síðar varð frægur óperusöngvari  sagði einu sinni  í víðtali, hann var að tala um fyrri konu sínu sem dó ung:
"Hún kenndi mér að líta á mig sem listamann".


mbl.is Borgin greiðir 274 þúsund með hverjum tónlistarnema
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ég veit ekki hvað tautología merkir, geri ráð fyrir að það sé skammaryrði

Annars er þetta skemmtileg saga um hverju niðurgreiðsla á menningu skilar. Hún skilar fleira fólki sem hefur áhuga á menningu. Ég er ekki talsmaður þess að hætt verði að greiða niður menningu af almannafé. Ég er hins vegar talsmaður þess að almenningur fái meira val til að skilgreina sjálfur hvað er menning m.a. með því að ráða í hvernig listnám barnið fer og reyndar tel ég líka að það sé algjört skilyrði til að ná til þeirra tekjulægstu að hlutir séu ókeypis. Ég vil hér nefna að mér finnst að leikskóli eigi að vera ókeypis  amk fyrir þá sem eru verst settir fjárhagslega. Þetta er þjónusta sem er verulega niðurgreidd en ef hún kostar eitthvað sem kannski skiptir vinnandi fólk með meðaltekjur litlu máli þá mun það verða til þess að hinir tekjulægstu notfæra sér ekki þessa niðurgreiddu þjónustu. Sem dæmi má nefnda að eitt af því fyrsta sem atvinnulaust fólk reynir að spara er að segja upp leikskólaplássinu.

Sem sagt menning eru samfélagsgæði sem þurfa að vera ókeypis eða kosta lítið og sem aðgengilegust fyrir sem flesta. En borgarar samfélagsins ættu að hafa sem mesta möguleika sjálfir að skilgreina hvað er menning.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 28.8.2007 kl. 16:03

2 identicon

Tautólógía er fullyrðing sem er "sönn" sama hver frumgildin eru; t.d. "Jón er annað hvort prestur eða ekki prestur". Þar sem þetta fyrirbæri er andstæða mótsagnar ("Jón er bæði prestur og ekki prestur") í rökfræði hlítur þetta að vera kallað meðsögn á íslensku :D

Stefán Sigurjónsson (IP-tala skráð) 31.8.2007 kl. 00:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband