Brúðkaupstollur og hreppaflutningar á Íslandi árið 1921

Eftirfarandi frásögn er  í bókinni "Ágúst á Hofi lætur flest flakka"  en þar segir frá konu og dóttur hennar sem komu í Vatnsdal árið 1921 og hvernig hreppurinn losnaði við þær. Þessi saga sem minnir mig á frásögnina í Sölku Völku af því þegar  Salka og Ólína móðir hennar koma til þorpsins Óseyri við Axlarfjörð:

Um miðjan ágúst þetta sumar vitum við Vatnsdælingar ekki fyrri til, en frú ein er flutt hreppaflutningi heim til hreppstjóra okkar með tólf ára dóttur sína. Þarna var farið alveg að gamalli hefð, og konan send frá einum hreppstjóra til annars, og hófst sú ferð austur í Rangárvallasýslu.

Fyrirmenn í Vatnsdal tóku nú að grennslast fyrir um, hverju þessi sending sætti. Þeir könnuðust ekki við konuna né vissu til, að hún ætti þar fæðingarsveit, og við athugun málsins kom í ljós, að svo var ekki. Oddviti varð að taka við konunni og sjá henni fyrir samastað. Konan var vanheil og örðug í vist. Bréfaskipti allmikil fóru nú á milli hreppa um þessi mál. og skýrðist það brátt. Þá kom í ljós, að beitt hefði verið allóvenjulegum klækibrögðum til þess að koma konunni á Áshrepp.

Hún átti sveitfesti í tilteknum hreppi í Rangárvallasýslu, og sá hreppsnefndin fram á, að af henni yrðu sveitarþyngsli. Kom henni þá það snjallræði í hug að fá staðfestulítinn mann, sem átti Áshrepp að fæðingar- og framfærslusveit, til þess að kvænast konunni. Sá maður var löngu farinn úr Vatnsdal en hafði víða dvalizt og hvegi svo lengi, að hann ynni sér sveitfesti.

Hin rangæska hreppsnefnd bauð nú þessum manni þúsund krónur fyrir að kvænast konunni. Skyldu 500 kr. greiðast við brúðkaupið  en 500 kr síðar. Auk þess lagði hreppsnefndin brúðgumanum til brúðkaupsföt en tók þau aftur að loknu brúðkaupi.

Hin nýgiftu hjón dvöldust þar eystra í nokkrar vikur, en brátt hlupu snurður á þráðinn, og sambúðin gerðist örðug enda var lítill auður í búi. Maðurinn taldi sig svikinn, því að hreppsnefndin borgaði ekki það, sem eftir stóð af brúðkaupstollinum, eins og heitið hafði verið. Þágu þau hjón nú af sveit áður en hjónabandið leystist upp. En þá hafði hreppsnefndin rangæska náð tilgangi sínum og komið konunni af sér. Hún taldi einboðið að senda konuna heim í framfærsluhrepp eiginmanns hennar, Áshrepp.

Nú þóttust Vatnsdælingar heldur en ekki grátt leiknir af þeim Rangvellingum en fengu enga leiðréttingu mála með bréfaskriftum. Rangvellingar töldu hjónabandið löglegt og einsætt, hvar konan ætti sveitfesti úr þessu. Málinu var loks skotið til sveitafundar í Vatnsdal upp úr áramótum, og þar þóttu þetta firn mikil. Fundurinn samþykkti einróma að leita réttar hreppsins eftir lagaleiðum, en það var allt annað en auðgert.

Dýrt þótti að senda oddvitann, sem þá var Eggert á Haukagili, suður á land til þess að reka mál hreppsins, en líklegra yrði enn dýrara að ráða lögfræðing til þess að taka málið að sér. Varð því úr ráði að kæra málið  til sýslumanns. Hann skrifaði síðan starfsbróður sínum í Rangárþingi, færði rök að því, að hjónavígslan hlyti að teljast ólögleg, þar sem brúðguminn hefði verið tældur til hennar með féboðum og teldi sig svikinn, og bað þess, að réttarpróf yrði haldið í málinu.

Skýrsla sýslumanns Rangæinga barst með vorinu, og gat þar að lesa, að ítarleg réttarrannsókn hefði farið fram, margir aðilar hefðu verið kallaðir fyrir, en ekkert hefði komið fram, sem benti til þess, að nokkrir meinbugir væru á hjónavígslunni eða nokkur nauðung hefði átt sér þar stað. Sýslumaðurinn sendi sem sönnunargagn ásamt öðrum málskjölum, konunglegt leyfisbréf til hjónabandsins, og er sá minjagripur enn til í skjölum Áshrepps.

Vatnsdælingar urðu því að sitja með sendingu Rangvellinga, og líkaði stórilla, sem vonlegt var, því ekki var auðséð fyrir konunni, og varð af töluverður kostnaður. Hún fór milli bæja og var stutt í stað, og varð meðgjöf að vera allnokkur. Gekk svo í ein þrjú ár, að tilraunir til þess að losna við hana báru ekki árangur. Reynt var að koma henni á ríkisframfæri vegna vanheilsu, enda lék grunur á, að hún væri berklaveik. Konan hafði fyrr á árum gengið sértrúarflokki á hönd, og lausn Vatnsdælinga varð sú að semja við trúarsystkin hennar í Hafnarfirði um að taka hana að sér fyrir hóflega meðgjöf, og þótti flestum sem vandræðamál þetta leystist vonum fremur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband