TUBORG útilegan

Tuborg útileigan - auglýsingHáskólarnir á Íslandi eru að taka til starfa. Það segir sína sögu um skólahald og þjóðfélagsástand á Íslandi í dag hvernig nemendur skólanna og nemendafélög gleðjast og merkja upphaf skólaársins.

Hér til hliðar er plakat sem sem er auglýsing fyrir skemmtun nemendafélags HR.

Á baksíðu DV í dag er fréttin"BJÓÐA NEMENDUM Á FYLLERÍ" og fjallar hún um það hvernig styrktaraðila nemendafélaga HR tengjast Tuborg-bjórhátíð nýnema. Fréttin byrjar svona:

Öllum nýnemum Háskólans í Reykjavík er boðið á bjórhátíð í Þrastaskógi um næstu helgi. Hátíðið er auglýst í nafni Símans og Kaupþings sem eru styrktaraðilar nemendafélaga skólans. Hátíðin ber heitið Tuborg útilegan og það er því í raun Ölgerðin Egill Skallagrímsson sem styrkir bjórveitinguna.

Í Þrastarskógi verður slegið upp risaveislutjaldi þar sem Stúdentaráð Háskólans í Reykjavík býður til grillveislu og öllum verður boðið upp á Tuborg bjór. Í auglýsingu hátíðarinnar eru veislugestir hvattir til að teyga kaldan bjór í gígalítratali, þar er sagt að gleðinni verði haldið eins lengi fram eftir nóttu og þeir hörðustu hafi orku til.

tuborgutilegan Ég sé á vefsíðu ýmissa nemendafélaga að þessi hátíð er þar auglýst

Þetta er nú örugglega heimagerð auglýsing einhvers nemanda í skólanum sem heldur í einfeldni sinni að Síminn og Kaupþing vilji bendla sig við það að styrkja svona drykkjuslark. Vonandi bregðast markaðsaðilar hart við og sýna að það er ekki vilji þessara fyrirtækja að sverta ímynd sína með þessum hætti.

Það er nú samt soldið fyndið í heimatilbúnu auglýsingunni að útilega er skrifuð ÚTILEIGA, svona er "out-sourcing" (úthýsing er íslenska orðið ef ég man rétt) hugsunarhátturinn orðinn gegnsósa í málinu.

Það er vel við hæfi að við förum að syngja núna "Útileigumenn í Ódáðahraun, eru kannski að smala fé á laun" um þá sem kunna klæki peninganna og allt um skuldsetta yfirtöku og að miskunna sig yfir og slá eign sinni á "eigendalaust fjármagn" samvinnufélaga og ríkisfyrirtækja og raka saman fé og flytja það til og frá um heiminn eftir því sem ávöxtunin er best.

Ætli gengið sé búið að falla nóg miðað við jöklabréfin? 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Er það nú allt í einu orðið neikvætt að háskólanemar geri sér glaðan dag í upphafi skólarárs? Þarna er ekki um neina unglingadrykkju að ræða nema í tilfelli afburðarnema, sem hafa náð stúdentsprófi fyrr en aðrir. 

Að mínu mati er einfaldlega ekkert að því að fólk, sem hefur náð aldri til að drekka áfengi, fari saman í útilegu og fái sér bjór. Ég geri það sjálfur flestar helgar sumarsins og hef gert það að minnsta kosti nokkrum sinnum á sumri í þrjá áratugi. Frá slíku hef ég ekki haft neitt nema góðar minningar í gegnum tíðina. Reyndar bar það vodki í kók, sem ég drakk í þessum útlegum fyrir árið 1989 af ástæðu, sem ætti að vera augljós.

Sigurður M Grétarsson, 14.8.2007 kl. 09:49

2 identicon

Þarna er íslenzkt hugvit að verki, fátækir námsmenn fá sér bara drykkjusponsor og allir lifa sáttir ...... nema þeir sem engan sponsor hafa

Böðvar (IP-tala skráð) 14.8.2007 kl. 10:09

3 identicon

Ég sé nú ekkert athugavert við skipulagða útilegu fyrir háskólanema skipulagða af þeim sjálfum.

Of af hverju ætti bjór að sverta nafn þeirra sem eru styrktaraðilar nemendafélagsins. Svo er ekki eins og það sé verið að þröngva einu né neinu upp á fólk.

Fussum og sveium frekar yfir árshátíðunum sem flest fyrirtæki landsins halda með tilheyrandi veigum og veitungum og að ég tali nú ekki um jólahlaðborðin og allt í nafni fyrirtækjana sem halda þau! Fussumfussumsvei!!!!

sandra d (IP-tala skráð) 14.8.2007 kl. 13:27

4 identicon

Það er nú aldeilis forræðishyggjulykt af þessu. Að sjá rautt yfir að fullorðið fólk lyfti sér upp í góðra vina hópi og hafi áfengi um hönd.  Aukin heldur er fáranlegt að gefa sér það að bjórveitingar eða áfengi yfirleitt sverti á einhvern hátt ímynd þeirra sem taka þátt í slíkum samkundum.  Hver ert þú að ákveða hvaða drykkjarföng séu ,,góð´´ og hvaða drykkjarföng séu ,,slæm´´?

 Auk þess ætti DV að skammast sín fyrir að ráðast svona á nemendafélög sem með mjög skemmtilegum hætti reyna að hrista fólk saman fyrir skólaárið.

Ottó S. Michelsen (IP-tala skráð) 14.8.2007 kl. 14:21

5 Smámynd: Elvar Snorrason

Sigurður og Sandra hittu naglann á höfuðið.

Hérna er ekki um neina unglingadrykkju að ræða heldur einungis útilegu fólks á háskólaaldri sem að er haldin í þeim tilgangi að draga saman nýja nemendur skólans, og hina eldri, í skemmtun sem að er haldin á sama hátt og flestar skemmtanir fyrir fólk eldri en tvítugt.  Með gott áfengi, góða tónlist og í góðum félagsskap.

Elvar Snorrason, 14.8.2007 kl. 14:29

6 identicon

Hér er lömuð tilraun og hálfgerð niðurrifsstarfsemi til þess að sverta það starf sem nemendafélögin í Háskólanum í Reykjavík bjóða nýnemum upp á. Eini tilgangurinn með þessari útilegu er sá að hér komi saman bæði nýjir og eldri nemendur skólans og kynnist og peppi sig upp fyrir komandi skólaár.

Fyrirtæki eins og Kaupþing banki og Síminn koma ekki beint að þessari útilegu, þau hafa gert styrktarsamninga við félögin í skólanum sem fela í sér að þeirra lógó verða að birtast á öllu útgáfuefni skólans. Þannig að það var ekki í einfeldni okkar sem við ákvaðum að skella lógó þessara tveggja fyrirtækja á auglýsinguna, heldur bar okkur að gera það samkvæmt samningum.

Ákaflega leiðinlegt að heyra bæði þig og hin ágæta sorpmiðil DV reyna að gera þessa hátíð að einhverju drykkjuslarki og fara á eitthvað staðreyndarfyllerí þar sem þitt eina bakland er stafsetningarvillan ,,útileiga" og tilvitnun í hin miður faglega DV fréttablað. Fólk les almennt ekki DV, það er góð ástæða fyrir því enda ekki að spyrja þar sem blaðamaðurinn Trausti fer hreinlega með rangt mál í þessari frétt sinni.

Það keyrir síðan alveg um þverbak þegar hann reynir endanlega að hafa lesendur að fíflum með því að fá einhvern sérfræðing frá Lýðheilsustöð sem segir að ofneysla á bjór geti verið skaðleg, og sérstaklega ef um frían bjór er að ræða.... þá fara dauðsföllinn að koma. Nemendur í HR eru allflestir komnir yfir tvítugt og vita sín takmörk sjálfir, það er ekki verið að neyða bjórinn ofan í fólkið og að sjálfsögðu verður líka boðið upp á gos fyrir þá sem vilja. 

Þú og DV ættuð bara að skammast ykkar fyrir að reyna að koma því inní hausinn á lesendum að í Háskólanum í Reykjavík starfi bara einhverjir kálhausar við félagslífið og hafa það í huga að þó maður sé kominn í háskóla þá þurfi maður ekki að eyða föstudagskvöldum fyrir framan RÚV horfandi á Derrick eða spila lúdó.

Arnór, verkfræðinemi í Hr (IP-tala skráð) 14.8.2007 kl. 16:14

7 identicon

Mikið rosalega held ég að þú þurfir að blogga mikið í vetur, þ.e.a.s. ef þú ætlar að blogga í hvert skipti sem eitthvað fyrirtæki tengist bjórdrykkju á einhvern hátt...

Ég veit ekki betur en að bankarnir og stóru fyrirtækin keppist um það að bjóða til sín háskólanemum í vísindaferðir á föstudögum, enda góð leið til að laða að sér vel menntaða starfsmenn og kynna starfsemi síns fyrirtækis. Og viti menn - þar er boðið upp á bjór, og oftar en ekki rauðvín og hvítvín, "þvílíkt og eins drykkjuslark"

Á hverjum föstudegi má gera ráð fyrir því að allnokkrar vísindaferðir fari fram, í HR eru a.m.k. starfandi ein 6 nemendafélög og að ég tali nú ekki um HÍ þar sem eru mun fleiri deildir. Því hljóta allflest fyrirtæki í bænum að "bendla sig við svona drykkjuslark" einsog þú tekur til orða, og sum hreinlega vikulega. 

Það verður svo sannarlega mikið bloggað hér á föstudögum í vetur.

Agla Friðjónsdóttir (IP-tala skráð) 14.8.2007 kl. 17:11

8 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Takk fyrir Agla að minna mig á allar þessar vísindaferðir háskólanna, þær eru algjör ósvinna ef þær eru drykkjurugl í nafni skólanna og stórfyrirtækja. Ég þarf að blogga um það við tækifæri.

Sínum augum lítur hver á silfrið (kannski ekki beint silfur Egils heldur Egils Gull í þessu tilviki) og mér finnst svona bjórsamkvæmi sem eru auglýst þannig að það sem aðallega trekkir sé ókeypis áfengi ekki vera neinn toppur í íslensku skemmtanahaldi. Því miður eru ansi margir sem sjá ekkert athugavert við þetta. Það eru nú eiginlega flestir sem sjá ekkert athugavert við eigin drykkju fyrr en hún er farin að hafa veruleg áhrif á líf þeirra og fjölskyldu þeirra og umhverfi og þeir eru beinlínis neyddir til að taka á drykkjuvandamálum sínum.

Það er mikið böl í mörgum fjölskyldum af áfengisneyslu og það er nú bara skylda mín og annarra sem vita betur að reyna að benda ungmennum á að það er ekki allt í lagi að upphefja svona lífsstíl. Það er því miður svo á Íslandi í dag að áhrifamiklir aðilar og fyrirtæki reyna með öllum ráðum að búa til neytendur framtíðarinnar í áfengi og tóbaki. Það eru miklir viðskiptahagsmunir í húfi. Það er allt í lagi að önnur sjónarmið heyrist, sjónarmið hófsemi og hollustu.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 15.8.2007 kl. 12:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband