Á vergangi

Welcome to Vancouver

 Á hverju horni í Vancouver eru flækingar. Vingjarnlegt ungt fólk tötrum klætt með syndandi augu og rúnum rist í andliti og oftast útbúið með einkennisfarartæki hinna heimilislausu - innkaupakerru. Þessar kerrur koma upprunalega úr stórmörkuðum, einhver hefur stolið þeim þar. Innkaupakerran er oft mikilvægasta verkfæri umrenninga í borgum og verðmætasta eign þeirra. Í flóðunum í New Orleans þá var erfitt að bjarga sumum hinna heimilislausu því þeir fengust ekki til að skilja eftir innkaupakerrurnar sínar með öllum plastpokunum.

Hvers vegna er svona mikið af heimilislausum sem ráfa um í miðbæ stórborga? Hvað einkennir þennan hóp?  Í Vancouver þá er áberandi að flestir hinna heimilislausu eru ungir karlmenn af vestrænum uppruna. Ég sá sárafáar konur og ég sá enga umrenninga af asískum uppruna þó að fólk af asískum uppruna væri í meiri hluta meðal þeirra sem voru í miðbænum. Þær fáu konur sem ég sá virtust líka alltaf vera í slagtogi með mönnum, ekki einar. Mér sýndist líka margir vera í einhvers konar eiturlyfjum en margir virtust alls ekki vera það - vera fyrst og fremst uppflosnað og vegalaust fólk, ekki líkamlega fatlað á neinn hátt en hugsanlega með geðslag sem ekki passar inn í nútímasamfélagið.

Ásta sagði að hún hefði séð viðtal í Kastljósinu við mann sem hún kom að fyrir mörgum árum í miðbænum, þá var hann djúpt sokkinn óreglumaður í vímu, hann hafði slasast og hann var alblóðugur með stóran skurð á höfði og vegfarendur gengu allir fram hjá og sinntu honum ekkert þó hann væri mikið slasaður og ósjálfbjarga. Hún lánaði honum síma og hann reyndi að hringja eitthvað en það gekk ekki og hún hringdi á lögregluna sem kom honum til hjálpar. Það er gaman að sjá að  þessi maður hefur náð sér upp úr óreglunni og núna er hann málsvari þeirra sem eru í sömu sporum og hann var einu sinni.

Ég held að allir komi okkur við og við eigum að gæta mannréttinda allra, líka þeirra sem eru í verstu stöðu í lífinu, líka þeirra sem eru fyrirlitnir og hæddir, líka  þeirra sem eru bófar og óþokkar og ódæðismenn, líka þeirra sem  beitt hafa aðra ofbeldi og sem eru líklegir til að halda áfram að beita ofbeldi og fremja ódæðisverk. 

Ég veit hins vegar ekki hvort það er besta leiðin að gera líf útigangsfólks í Reykjavík sem auðveldast. Mér virðist sama gilda um samfélagið og fjölskyldurnar, það sem fjölskyldur læra í fjölskyldumeðferð alkóhólista er að hætta að kóa með, hætta að gera auðvelt fyrir alkann að halda áfram að vera alki. Það er líklegt að stór hluti af þeim sem ráfar heimilislaus um göturnar sé fólk sem þegar er á örorkubótum. Þeir sem eru svo djúpt sokknir að þeir eru komnir á götuna vegna óreglu eru líklegir til að eyða öllum örorkubótum sínum til að viðhalda því ástandi sem gerði þá að öryrkjum.

Það er ekki skynsamlegt að ríkið sjái fólki fyrir drykkjupeningum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Takk fyrir þessa frásögn Salvör hún snertir mann, við sem eigum til hnífs og skeiðar og fleti á vísum stað að halla okkur í eigum erfitt mað að skilja það að það sé ekki hægt að skilja körfurnar eftir og halda frekar lífi, en í þeim er sjálfsagt þeirra "líf" en að þú sást færri konur, ég veit það ekki en þær eru jú að öllu jöfnu ábyrgari en karlar kannski voru þær bara fyr að finna sér skjól og kannski einhverja vinnu eða voru að hugsa um börnin og karlarnir á ferðinni til að reyna að finna eitthvað bæði að gera og ekki síður að borða þennan daginn, ég sé þetta einhvernveginn svona.

Þessi hugvekja þín um fólk sem hefur einhverra hluta vegna orðið útundann og það sem er komið alveg á götunna það er rétt að þau koma okkur öllum við ég tek undir það, jú eigum við sem samfélag ekki að reyna að gera þeim lífið bærilegra, þeim bíðst önnur aðstoð í sínum málum um breytta lífshætti en verða sjálf að taka skrefið eins og sá sem þú nefnir þarna hefur gert, já það er óþarfi kannski að, ég hef reyndar ekki innsýn í þeirra líf, láta þau fá pening fyrir víni en ef þau gætu fengið að borða, sofa einhversstaðar og baða sig á kotnað samfélagsins er að mér finnst sjálfsagt mál.

Takk aftur fyrir Salvör það þarf að hnykkja á þessu annað veifið til að minna okkur á því að við eigum til að gleyma okkur í kapphlaupinu fræga, þú veist um það hver er með flottustu útihurðina og hæsta vísareikninginn.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 27.7.2007 kl. 12:23

2 identicon

Vancouverbúi sagði mér um daginn að borgarstjórar annarra borga í Kanada gangi um dreifandi rútumiðum til útigangsfólks þar sem það sé sent aðra leið til Vancouver því það sé hlýjasta borgin þar í landi og fólk sé þá síður að drepast úr kulda í þeirra eigin borgum.

Þú veist að botninum hefur verið náð þegar einhver réttir þér frímiða til Vancouver!

Hrund (IP-tala skráð) 27.7.2007 kl. 12:34

3 Smámynd: www.zordis.com

Verðug áminning til okkar að horfa á hag annara.  Vera vingjarnlegur og hugsanlega skipta máli í lífi þess er minna má sín.  Ástæðan á bak við "umrenningana" veit enginn og vissulega eru margir af eigin sjálfseyðingarhvöt ... 

Til umhugsunar vekur, hvað lífið er misgott og hvað við eigum að þakka!

www.zordis.com, 28.7.2007 kl. 10:18

4 identicon

Góð áminning. Ég er sammála því sem Högni segir hér á undan að þótt við ættum ekki að styðja eða styrkja drykkju fólksins, þá er alveg sjálfsagt að veita þeim húsaskjól, mat og hreinlætisaðstöðu. Við verjum miklum tíma í að vorkenna fólki í útlöndum sem eiga bágt en gleymum því oft að það er ýmislegt sem má betur fara í okkar eigin þjóðfélagi.

Svava Björg Mörk (IP-tala skráð) 28.7.2007 kl. 10:39

5 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Þetta er svo góð grein hjá þér Salvör, ég er á því að útbúa eigi húsnæði í iðnaðarhverfi eða á hafnarsvæði Reykjavíkur, þar sem allt þetta fólk hefur sitt herbergi eldunar og hreinlætisaðstöðu, oft er þarna fólk sem hefur ekkert að gera í venjuleg íbúðarhverfi, getur hreinlega verið öðrum hættulegt. það er lítið hægt að gera við áfengis eða vímuefnafíkn ef fólk hefur ekki vilja til þess að losna undan þeim fjötrum, en allir ættu að eiga athvarf, síðan skapast kannski löngun til þess að ná bata.

Guðrún Sæmundsdóttir, 29.7.2007 kl. 20:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband