Kjaransbraut - skemmtilegasti vegur Íslands

Núna ganga allir Laugaveginn, gönguleiðina milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Ég hef einu sinni fyrir um það bil aldarfjórðungi gert tilraun til að ganga þá leið. Við urðum að snúa við aftur inn Landmannalaugar því við fundum ekki skálann við Hrafntinnusker, stikurnar voru fenntar á kaf og það var snjófok. Jörðin var alhvít þarna. Þetta var samt í júní. Ég man hvað ég var hrædd á tímabili, við vorum þrjú fullorðin og Ásta dóttir mín lítil í ferðinni, þau sem voru með mér fóru á undan að leita að skálanum og ég missti sjónar á þeim í þoku og hélt um tíma að ég væri ein  villt með ungt barn einhvers staðar upp á hálendinu um nótt í snjó og kulda. Einhvern tíma langar mig til að reyna aftur við þessa leið, það er flott markmið í lífinu að láta ósigra ekki buga sig heldur reyna aftur og læra af reynslunni. Það gerir ekkert til þá að 25 ár líði milli tilrauna og kannski hefur loftslagshlýnunin unnið með mér, kannski er ólíklegra núna að þurfa að snúa við vegna snjókomu í Hrafntinnuskeri.

Það er líka önnur leið sem mig langar til að ganga. Það er fallegasti vegur á Íslandi og líka sá hrikalegasti, það er vegurinn milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Ég er hissa á því að sú leið sé ekki eins vinsæl og Laugavegurinn, sennilega hafa bara svo fáir uppgötvað þessa leið. Það er hægt að keyra þessa leið á bílum, alla vega stóran hluta hennar en ég held að það sé ekki alltaf fært og alls ekki fyrir óvana að fara um verstu kaflana.  Þetta er sérstaklega skemmtileg gönguleið, umhverfið er töfrandi og engu öðru líkt.

Vegurinn  sem tengir Lokinhamradal  er meistarastykki Elís Kjaran ýtumanns og hvergi er eins skrýtinn vegur á Íslandi. Ég held að vegurinn sé höggvinn inn í surtarbrandslag sem er mýkra efni en annað berg þarna.

 Lokinhamradalur var á sínum tíma einn afskekktasti dalur landsins, þar voru tveir bæri Lokinhamrar og Hrafnabjörg. Guðmundur Hagalín skáld fæddist og ólst upp á Lokinhömrum og hann hefur skrifað mikið um uppvaxtarár sín. Frægustu skáldrit Guðmundar gerast líka í svona umhverfi, frægasta saga hans er Kristrún í Hamravík og hún hefði nú alveg getað búið í Lokinhamradal. Guðmundur Hagalín er frábært skáld og rithöfundur en það er eins og hann hafi fallið í gleymsku undanfarin misseri, allt kastljósið er á samtíðarmann hans Halldór Laxness. En það er alveg þess virði að heimsækja Lokinhamradal sem pílagrímsför og bókmenntagöngu á bernskuslóðir og mótunarstað Guðmundar Hagalíns.

Núna 21. júli fór fram hlaup á Vestfjörðum, sjá nánar á vesturgata.net Þar er margar myndir sem sýna hið stórbrotna og ævintýralega landslag þarna.  Hér er kort af veginum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Salvör.

Ég er sammála þér um þessa leið. Ég ók hana fyrir mörgum árum. Ég hef nokkrum sinnum komið þarna. Bróðir minn gifti sig þarna fyrir margt löngu í Ketildal. Ég man hvað ég var skíthrædd að aka þessa leið. Vegurinn er sumstaðar svo mjór að dekkið er á brúninni.
Kveðja, Fjóla

Fjóla Þorvaldsdóttir (IP-tala skráð) 22.7.2007 kl. 13:02

2 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Skemmtileg frásögn, er nýkomin af Vestfjörðum og hef bloggað lítllega um það.

Edda Agnarsdóttir, 22.7.2007 kl. 15:10

3 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Já, Fjóla, ég hef líka farið þarna á bíl og var logandi hrædd. Það geri ég nú ekki aftur. Þetta er allt of glæfraleg leið til að fara á bílum, stórhættulegt held ég. Ég myndi hins vegar alveg vilja ganga þessa leið eða hjóla á fjallahjóli.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 22.7.2007 kl. 15:55

4 Smámynd: Forvitna blaðakonan

Ég hef gengið þessa leið, gerði það fyrir nokkrum árum með systkinum mínum og hundinum mínum; var raunar dauðhrædd um hundinn á meðan við fórum veginn frá Keldudal inn að Höfnum sem er hrikalegur.

Ók þennan veg líka með Elís Kjaran sjálfum sem var ógleymanleg reynsla en hann lýsti því hvernig hann vann veginn og við það sáum við veginn og þessa leið  öðru ljósi.

Þessi leið er meira en dásamleg og merkilegt að í yst í Dýrafirðinum er oft svokölluð innlögn (sterk gola um miðjan daginn á meðan jörðin er hvað heitust) en þegar komið er fyrir inn að Höfnum og Svalvogum er oft svartalogn og er maður þó fyrir opnu hafi.

Það er líka önnur leið inn í Lokinhamradal en þá gengur maður inn Haukdal, fegursta dal vestfirska fjarða þar sem Kaldbakur trónir fyrir miðju. Leiðin liggur síðan inn Lambadal og yfir þar.Þá kemur maður niður Lokinhamradalinn. Þessi leið var jafnan farinn í eina tíð þegar Lokinhamamrabændur þurftu í kaupstað inn að Þingeyri eða í fóru í öðrum erindagjörðum yfir í Dýrafjörðinn. Erfiðara var að fara Arnarfjarðrmeginn því þar þurfti að fara fyrir Skútabjörgin og sæta sjávarföllum og yfir Hrafnseyrarheiðina sem eins og menn vita er bæði hrikaleg og há.

Ég hvet alla sem gaman hafa af íslenskri náttúru að sækja Vestfirðina heim. Það er hrein upplifun fyrir fólk; svo ólíkt því sem menn eiga að venjast. Ísafjörður; þessi menningarbær er með skemmtilegri bæjum á landinu en þar iðar allt af lífi.

Vil leiðrétta Fjólu en dalurinn sem hún nefnir heitir Keldudalur. Þangað var ekki hægt að aka fyrr en Elli lagði veginn í Arnarnúpinn sem skilur að þessa tvo dali en þeir sem eru upprunnir þarna þrátta jafnan um hvor dalurinn sé fallegri, Haukadalur eða Keldudalur

Já, það er ekki að furða að ég sé upprifin þegar ég tala um þennan landshluta enda fædd í Haukadal og þegar ég kem vestur er eins og öll heimsins orka flæði um æðar mér; ótrúlegt en satt en þannig áhrif hefur þetta landssvæði.

Forvitna blaðakonan, 23.7.2007 kl. 12:26

5 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Gaman að þessari frásögn. Það hefði verið gaman að hlusta á Elís segja frá vegalagningunni, ég hef heyrt heimamenn segja söguna eins og þeir kunna hana af lagningu vegarins. Það er ótrúlegt að honum tókst að leggja þennan veg. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 24.7.2007 kl. 03:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband