Stríðslokadagur - SS og sveitirnar

Það er ágætis fólk í ráðherraliði hinnar nýju ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og það ber að fagna því að bak við þessa stjórn er stór hluti kjósenda - frá sjónarhóli fulltrúalýðræðis þá er þetta eiginlega besta lausnin á stjórnarmynstri - að tveir stærstu flokkarnir taki höndum saman. Svo finnst mér þessi samsteypa innsigla eins konar stríðslok og vendipunkt í íslenskum stjórnmálum. Ísöld kalda stríðsins lauk fyrir löngu á Íslandi, ameríski herinn flaug í burtu í vetrarbyrjun eftir að hafa ekki gert neitt hérlendis nema þvælast í mörg ár. Átökin í stjórnmálum eru ekki lengur hægri-vinstri ás þar sem yst á ásunum  eru kapítalismi og kommúnismi.  Átökin eru meira um frelsi og hreyfanleika fólks og fjármagns, hver má tala og hverra sannleikur fær að hljóma, hver má umbylta og nytja náttúru landsins og hvernig. Það er áframhaldandi upplausn þjóðríkisins sem ekki getur endað nema á einn veg og það er sterk undiralda um jafnrétti allra burtséð frá kynferði og þjóðernisuppruna. Átökin eru líka að sumu leyti borgarsamfélagið og sveitirnar og í þessari lotu haf sveitirnar tapað. Stefna SS flokkanna og málefnasamningur þeirra vinnur fyrir borgarsamfélag á Íslandi og alþjóðahyggju. 

Ég fletti upp í Wikipedíu hvað hefði gerst í mannkynssögunni á þessum degi 24. maí þegar nýja stjórnin tók formlega við völdum.  Þennan dag árið 2002 skrifuðu forsetar USA og Rússlands undir afvopnunarsamning um kjarnorkuvopn (SORT treaty), þennan dag árið 1949 endaði umsátur Sovétmanna um Berlín (Berlin Blockade). Árið 1941 var háð á sjóorusta á hafsvæði milli Íslands og Grænlands þar sem þýska skipið   Bismarck sökkti breska skipinu HMS Hood . Þennan dag árið 1956 var Evrópska söngvakeppnin haldin í fyrsta skipti. 

Svo fæddust Bob Dylan og Viktóría Bretadrottning þann 24. maí. og sænski kóngurinn Magnús hlöðulás var krýndur þennan dag árið 1276. Ýmsar tilgátur eru um hvernig viðurnefni Magnúsar er tilkomið en ein tilgátan er sú að hann hafi sagt "Bændur, læsið hlöðum ykkar" og hafi þar átt við að bændur þyrftu ekki að þola að valdsmenn kæmu og rændu vistum frá bændum og tæku eigur þeirra. Magnús hlöðulás er þekktastur fyrir Alsnö stadga en þar tilskipun frá konungi um frelsi og ferðalanga, það er tiltekið hvað höfðingjar verði að greiða fyrir gistingu og beina hjá alþýðu á yfirreið sinni um héruð og hvernig þeir megi hegða sér.

 Hér á Íslandi gerðist það markvert þennan dag að árið 2004 samþykkti Alþingi frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum sem síðar var neitað um undirskrift forsetans. 

Það er gaman að bera saman ríki Magnúsar hlöðuláss og hina nýju stjórn á Íslandi og bera saman stjórnarsáttmálann núna við skjöl eins og Alsnö stadga

Hvað hefur breyst og hvað er eins og það var á 13. öld? Þurfa ekki stjórnvöld  ennþá að tryggja frelsi og hreyfanleika en samt að passa að hinir voldugu noti ekki völd sín til að ræna og rupla og aféta hina fátæku? Hvaða orðalag myndi maður nota í dag til að vara við ágengni höfðingja? Varla er hægt að segja "bændur, læsið hlöðunum ykkar!" núna þegar fáir eru ennþá bændur og þeir fáu eru ekki endilega með hey og vistir og verðmæti í hlöðum sínum.  Þeir eiga ekki einu sinni hlöður og laust hey í hlöðum sínum, það er allt komið í rúllubagga. Annars er tákn fyrir nútímann og Ísland í dag einmitt  hvítu rúllubaggarnir, um sláttinn eru öll þakin af þessum risastóru haglkornum.

Eru kannski helstu breytingarnar núna að völdin eru að fara frá kjörnum fulltrúum og þjóðríkjum yfir í fjölþjóðleg fyrirtæki sem geta auðveldar leynt upplýsingum og falið slóð sína og ítök og flutt verðmæti þangað sem mest hagnaðarvon er. 


mbl.is Ný ríkisstjórn tekin við völdum - lagt á djúpið í herrans nafni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband