Grátt og grænt er ótrúlega ljótt

framtíðarlandið sáttmáli

Ég er alveg hugfangin af auglýsingunum frá mínu ágæta félagi Framtíðarlandinu, þær eru svo ljótar og stuðandi og þverbrjóta öll lögmál fagurfræði og formskyns að þær eru hoppandi flottar og gargandi snilld. Auglýsingarnar eru eins og einhver sem er  nýbúinn að læra á fótósjopp hafi skannað inn gamalt ríkisskuldabréf og hafi ákveðið að setja alls konar krúsidúllur ofan á og alls konar lógó og tákn og sem flestar leturgerður og liti trúi alls ekki á "less is more". Ég kann vel við þessa ofgnótt.

Skjámyndin hér til hliðar er af sáttmálanum eins og hann birtist á vefsíðu Framtíðarlandsins, auglýsingin sem birtist í blöðunum er miklu, miklu yfirdrifnari með fullt af krúsídúllum. 

 Ég  fæ snjóbirtu í augun út af  sjónvarpsauglýsingunum frá Framtíðarlandinu og ég barasta sé ekki fólkið enda er náttúrulega sniðugast að láta athyglina beinast svona að því sem fólk segir. Ég tók nú samt ekkert eftir því þar sem ég var að pæla í hvers vegna auglýsingarnar væru svona óþægilegar og ljótar. Er þessi óþægilegi hvíti bakgrunnur  vegna þess að það var ekki til mikið fé til að búa til auglýsingar eða kannski það sé verið að auglýsa upp Vatnajökulsþjóðgarð?

Ég hélt kannski að náttúra Íslands væri eitthvað meira en hvíttið, eitthvað meira en óþægilegt ekkert. 

Annars var ég að skoða betur þessa herferð Framtíðarlandsins og það er margt sem stuðar mig. Það stuðar mig að það séu á vefsíðunni birt nöfn allra sem skrifa undir yfirlýsingu og það stuðar mig að það sé einhvers konar "gerðu þingmann grænan" leikur í gangi þannig að myndir (myndir sem teknar eru af alþingisvefnum- er það virkilega með samþykki þeirra sem sjá um þann vef?) af þingmönnum eru málaðar grænar eða gráar eftir því hvort þeir hafi verið svínbeygðir til að skrifa undir.

Mér finnst þessar aðferðir minna mig á það sem flokkur mannsins (flokkurinn hans Péturs sem varð fyrir vitrun á fjalli) stóð fyrir og það sem Scientology agentar gera. Það gengu menn um stræti og báðu mig að skrifa undir einhverja sjálfsagða hluti eins og hvort ég væri á móti atvinnuleysi og svo kom Pétur í fjölmiðla og veifaði undirskriftum sem stórkostlegum meðbyr. Ég er mjög efins um hvort það samræmist því sem ég tel felast í persónuvernd að það sé annars vegar nafnabirting og hins vegar einhvers konar þingmannalitabók í gangi. Vil nú samt taka fram að þó ég sé pirruð yfir þessum aðferðum þá finnst mér Framtíðalandið bara fínn félagsskapur og fínt að hamra á umhverfismálunum. Vonandi hafa þingmennirnir sem hafa verið málaðir grænir samþykkt þessa meðhöndlun.

Varðandi nafnabirtingar þá finnst mér líka fyrir neðan allar hellur þessar fjöldastuðningsmannayfirlýsingar sem hafa birst oft fyrir kosningar í dagblöðum (sérstaklega minnir mig að Reykavíkurlistinn hafi staðið fyrir þeim en allir tóku það upp) þar sem mörg hundruð Reykvíkingar lýsa yfir stuðningi við ákveðna aðila. Það eru margir í þannig störfum að það alls ekki rétt þeir skrifi undir svona yfirlýsingar (t.d. þeir sem gegna opinberum störfum í stjórnsýslunni) en ég geri ráð fyrir að það sé töluverð pressa á að fá sem flesta til að skrifa undir. Það er ekkert að því að fólk styðji opinberlega einhverja aðila m.a. með að lýsa yfir stuðningi við viðkomandi og bakka hann upp - en þegar þetta er orðið þannig að mörg þúsund nöfn eru birt sem stuðningsaðilar þá er þetta hætt að vera það - þá er þetta orðið eins og einhver fjöldaskráning og rafræn vöktun á skoðunum fólks og það eru þeir sem eiga mest undir sér og eru líklegir til að verða valdamestir sem hafa mesta möguleika á nafnasöfnun. Þeir hafa líka möguleika á að hegna þeim sem ekki vilja vera nöfn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég get tekið undir ýmislegt sem þú skrifar hér. Samtök eins og þessi og reyndar mörg fleiri verða að gæta sín mjög vel varðandi það hvernig hvernig þau fara með upplýsingar um fólk sem safnað er saman til stuðnings einhverju hvort sem það er ákveðið málefni eða einstaklingar. Útlitið á sáttmálanum er frekar hallærislegt en kannski af því ég á engin ríksskuldabréf þá minnti þetta mig meira á diploma skírteini. Útlitið fór samt ekki beint í pirrurnar á mér, kannski að innihaldið hafi haft þar áhrif á. Mér finnst eitt gott við sjónvarpsauglýsingarnar: Þessi nálgun virkar að því leyti að það tekst að láta fólkið tjá sig þannig að það er ekki eins og það sé að stauta sig fram úr lestri á einhverjum skjátexta. það er mikið af svoleiðis auglýsingum í gangi og ÞÆR pirra mig verulega. Ég held að hvíti liturinn í bakgrunninum hafi átt að hafa einhvern tilgang frekar að hann sé þarna vegna peningaskorts, hvaða tilgang veit ég ekki en bakgrunnurinn er alveg voðalega vondur og sólglearugu eiginlega það eina sem dugar ef maður á að lifa auglýsingatímann af

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 20.3.2007 kl. 12:46

2 Smámynd: halkatla

þetta Framtíðarlandsdót hefur alltaf pirrað mig, ég veit ekkert útaf hverju... 

halkatla, 20.3.2007 kl. 14:00

3 identicon

Þetta er sjónarmið Pálmar en fyrir mér horfir þetta þannig að börn geti og megi flytja boðskap í sjónvarpsauglýsingu og í þessu tilfelli á ég erfitt með að sjá að hann skaði þau. 

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 20.3.2007 kl. 15:07

4 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Auðvitað mega börn hafa skoðanir og tjá sig um þær, það er ekkert að því.  Það er samt ástæða til að hafa strangari reglur um ýmislegt varðandi börn og t.d. vinnu þeirra í auglýsingum og fjölmiðlum og leik þeirra í auglýsingum - og ekki síður um hvað má vera í auglýsingum sem beint er til barna.  Í sumum löndum þá er bannað að það séu sýndir læknar og hjúkrunarlið í auglýsingum f. börn og það er alveg bannað að auglýsa pillur, vegna hættu á að krakkar fari sér að voða. Krakkar eru áhrifagjarnari en fullorðnir og taka hlutina bókstaflegar. En þau mega alveg hafa skoðanir og tjá sig.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 20.3.2007 kl. 15:16

5 identicon

En haldið þið virkilega að börn hafi skoðanir á þessum málum?   Er þetta ekki s.s. bara lýgi?

María J. (IP-tala skráð) 20.3.2007 kl. 15:30

6 identicon

Ég tek undir það að þessi nafnabirting sé á nokkuð gráu svæði og þá ekki síður myndbirtingarnar. Mér finnst það að þingmenn séu litaðir grænir eða gráir í besta falli ósmekklegt og aðferðirnar jaðra við tilraun til skoðanakúgunar.  Víst er málefnið gott og hef ég hingað til verið nokkuð höll undir sambærilegar skoðanir en svona aðfarir fæla mig frá frekar en hitt.  Ég hef nefnilega alltaf verið lítið fyrir að láta draga mig í dilka eins og einhvern sauð.

Svava (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 14:14

7 Smámynd: Ragnar Bjarnason

Góður pistill og áhugaverður.

Ragnar Bjarnason, 22.3.2007 kl. 20:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband