Dr. Gunni og dr. Guðbjörg, varúlfurinn Gummi og frú Kolbeins

frettabladid-doktor-gunni-8mars07

Það er áhugavert að fylgjast með viðbrögðum við greiningu Guðbjargar Kolbeins á forsíðu á fermingarbæklingi Smáralindar. Árni Svanur gerði ágæta samantekt á umræðunni hérna : Bloggað um myndlestur  Málið snýst um að fræðimaður í fjölmiðlun túlkar mynd á forsíðu í auglýsingabæklingi sem sendur er inn á heimili á Íslandi. Hún túlkar myndina sem þekkta uppstillingu úr klámmyndagerð. Ég þekki ekki nógu mikið til klámmyndauppstillinga til að ég geti dæmt um það.

Það er hins vegar augljóst þeim sem vill sjá að myndin er sviðsett þannig að líkami stúlkunnar er til sýnis (það er nú verið að auglýsa föt svo það er nú ekkert að því) og uppstillingin snýst  ekki um að miðla valdi og hugrekki - uppstillingin er frekar dúkkuleg og gínuleg, stúlkan er sýnd eins og leikfang - Manni finnst þetta eins og uppstilling á líflausri barbiedúkku það sem útlimum er baðað út í loftið svona til sýnis en þessi uppstilling minnir ekkert á aktion manninn sem strákarnir leika sér með. Reyndar minnir uppstillingin og klæðnaðurinn mig á margar teikningar og uppstillingar úr manga teiknimyndasögunum japönsku. 

Það er áhugavert að sjá hvernig bæði blaðamenn á Fréttablaðinu og bloggarar eins og Eyþór Arnalds reyna að hæðast að Guðbjörgu með því að kalla hana frú og doktor. Það eru nú ekki venjulega skammarorð en það er alveg augljóslega gert í þessu samhengi  til að gera lítið úr Guðbjörgu og sérfræðiþekkingu hennar.  dr. Gunni sem ritar hinn snjalla pistil dagsins Fagra kvenveröld hefur verið  nefndur doktor síðan elstu menn muna. Það er áhugaverður hæðnistónn í þessari frétt: Frú Kolbeins klagar Smáralind fyrir klám  og það má lesa milli línanna að gagnrýni Guðbjargar sé einhvers konar pempíuskapur hjá "frú". Myndi pistillinn hafa verið "Herra Þorbjörn klagar Smáralind" ef karlkyns fjölmiðlafræðingur hefði birt pistil með greiningu sem blaðamanni féll ekki?

gudbjorg-fru-kolbeins

gudbjorg-doktor

 Það er dáldið fyndið að fylgjast með því hve sterk viðbrögð pistill Guðbjargar vakti hjá sumum en ég er nú samt hrædd að vera mikið á ferli á næstunni á fullu tungli því pistillinn vakti upp varúlfinn í Guðmundi Steingrímssyni sem er núna stjórnmálamaður í atkvæðaleit og engir eru nú alla jafna viðmótþýðari og blíðari. Ekki Guðmundur þó þegar kvenkyns fjölmiðlafræðingar dirfast að lesa annað út úr myndum en hann sér. Hann segir:

Þetta er yfirgengilegt kjaftæði. Kryppan skýst upp. Mér vaxa vígtennur. Klær. Hár. Þið sjáið mig spangólandi uppi á Vífilfelli ef þetta heldur svona áfram. Ég meika þetta ekki.

Úff... fegin er ég að búa ekki nálægt Vífilfelli.  Þessi viðbrögð minna mig á viðbrögðin sem voru á málefnin.com um árið þegar ég dirfðist að telja hversu margar myndir voru af konum og körlum í dagblöðunum. Það var ekki nóg með það að ég dirfðist að telja heldur birti ég líka niðurstöðuna. Það kallaði á gusu alls konar fúkkyrða frá karlkyns málverjum sem breyttust í varúlfa eins og Guðmundur bara af því að aðrir sáu heiminn öðru vísi en þeir.

En mín prédikun til heimsins á þessum merkisdegi 8. mars er sú sama og ég hef sagt aftur og aftur og á eftir að segja oft í framtíðinni. Verum umburðarlynd fyrir skoðunum og heimsýn sem er ekki sú sama og við höfum.  Fögnum fjölbreytileikanum en hann felst líka í því að fólk sem hefur ekki sömu skoðun og viðhorf og við sjálf á líka rétt á að við sýnum því virðingu og kurteisi og helst að við reynum að hlusta á það en breytumst ekki strax í öskrandi varúlfa.

Frú Salvör 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: www.zordis.com

Stutt og laggott;  Til hamingju með daginn .... megi allir njóta frelsis og skoðana, konur sem menn!  Við erum öll menn, öll með lífsþorsta og markmið!  Til hamingju.

www.zordis.com, 8.3.2007 kl. 23:01

2 identicon

Til hamingju með daginn í gær!

En mér finnst virkilega áhugavert hvernig þú reynir að draga úr alvarleika greinarinnar hjá Guðbjörgu og ýjar að því að Eyþór, dr. Gunni og hörð viðbrögð bloggheimsins séu nú í líkingu við öskrandi varúlfa og að við eigum að sýna virðingu og kurteisi ...

Gott og vel - sýnum virðingu og kurteisi - en það gerði Guðbjörg ekki. Þetta var ekki saklaus túlkun hennar, þetta var ótrúlegur dónaskapur þar sem fórnarlambið er fyrst og fremst stúlkan sjálf á forsíðunni. Því þökk sé huga og orðum Guðbjargar er hún óviljug stimpluð sem hóra og til í að láta taka sig aftan frá og stunda munnmök. Svona orðalag notar maður ekki þegar 15 ára stúlka á í hlut og þarna var alls ekki viðhaft "aðgát skal höfð í nærveru sálar".

Guðbjörg á því engan rétt á einhverri kurteisi fyrr en hún sýnir það sjálf - finnst mér - og ég hef hreinlega ekki lesið ógeðfelldara blogg en hennar - sem hún hefur tekið þó í burtu. Nokkrir hafa "lofað" hana fyrir það, en ef hún hefur tekið það út vegna þess að hún taldi sig hafa gert mistökin, þá þarf hún að ganga lengra og biðjast afsökunar. Ef hún hins vegar telur enn að skrif sín séu í lagi og ekki afsökunarverð ... þá er hún sorglega biluð. 

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 9.3.2007 kl. 08:24

3 Smámynd: Víðir Ragnarsson

Breytast í varúlf uppi á Vífilfelli? Hvað í ósköpunum er fólk að vilja uppá þak á verksmiðjubyggingu?

Þér og Guðmundi til upplýsingar vil ég geta þess að Vífilfell er verksmiðja sem meðal annars framleiðir hið kunna sykurseyði Coka-Cola samkv. amerísku recepti.

Það getur verið að hér sé verið að rugla saman framleiðanda ameríska elexírsins við fjallið Vífilsfell en munurinn liggur í essinu.

Víðir Ragnarsson, 9.3.2007 kl. 10:41

4 identicon

Sæl Salvör !

Fyndinn pistill um karla :) Mér held að þessi Smáralinadarforsíðutúlkun hjá þessari konu sé heldur langsótt. En alltaf gott að hafa uppi umræðu um þessi mál , þannig skírist allur misskilningur :)  Kveðja

Ragnheiður Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 9.3.2007 kl. 10:48

5 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Þakka þér frú Gissurardótti að minna okkur á tilltsemi og kurteisi.  

Bestu kveðjur 

Frú Helgadóttir

 ps. Er ekki þessi Hr. Steingrímsson, hinn óumburðarlyndi, frambjóðandi í flokki sem hefur verið að missa konur skv. skoðanakönnun, gætu þær verið á flótta undan honum?

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 9.3.2007 kl. 11:08

6 identicon

Ég hef sagt að 85% karla séu kynferðislega misþroska. Ef við tökum dæmi úr 15% afgangnum og að sá karl sé gagnkynhneigður faðir sem heitir Nonni. Nonni er að skoða blað hann flettir og sér auglýsingu þar sem stúlka er að auglýsa td. smörlíki, stúlkan er í frekar óvenjulegri stellingu og óvenjulegum klæðaburði miðað við að hún er að meðhöndla smjörlíki. Lítilleg kynörfun að fer af stað hjá Nonna vegna myndarinnar fyrstu sekúntuna þangað til að Nonni sér að fyrirsætan getur vart verið eldri en 13 ára. Nonni fyllist skömm og viðbjóði á sjálfum sér og auglýsandanum. En þetta er daglegt brauð hjá þessum 12% af þeim 15% sem ekki eru kynferðislega misþroskaðir. ( 3 af þessum 15 eru samkynhneigðir )

Er nefnd smjörlílisauglýsing óeðlileg vegna þessara 12%?

Kristján Sig. Kristjánsson (IP-tala skráð) 9.3.2007 kl. 11:59

7 Smámynd: LM

Það eru einhverjar geðrænar truflanir að baki umræddri greiningu.  Trúlega best að gera sem minnst úr þessu.

LM, 18.3.2007 kl. 01:00

8 identicon

Það eru ekki geðrænar truflanir að baki þessari myndgreiningu(greiningu Guðbjargar Kolbeins á forsíðu á fermingarbæklingi Smáralindar). Greiningin er í fullu samræmi við hugmyndafræði femínismans ( þess hluta hans sem flestir íslenskir femínistar virðast aðhyllast)

Ef þið viljið kynna ykkur þetta nánar þá er hér slóð á heimasíðu ritstjóra ritsins "Making Violence sexy" og höfund bókarinnar: "Pornography as  a Cause of Rape"

http://www.dianarussell.com/index.html

Ég hvet ykkur til að lesa hluta úr bókinni, meðal annars skilgreiningu hennar á klámi sem er mjög í anda íslenskra nýfemínista.

Varðandi myndgreiningu Dr. Guðbjargar Kolbeins, þá má sjá hliðstæðar greiningar í bókinni "Making Violence Sexy"

Þar er ma.a lýst myndum úr Playboy og er sérlega tekið til þess að háls stúlknanna sé ávallt ber og þær opnar fyrir kyrkingu (sic)

Persónulega skil ég ekki andúð femínista á klámi. Hversu mikið ég rýni þá finn ég ekki til haturs á konum, ellegar löngun til að nauðga þeim eða misþyrma.

Spurning mín til íslenskra nýfeminista er eftirfarandi: Er kynhvötin frumþörf sem þarfa að svala? Og ef svo er hvernig mega einhleypir, sem ekki eru gjaldgengir á kynlífsmarkaði ( vöruskiptamarkaði - kjöt fyrir kjöt - læt mig ekki dreyma um þróaðri peningamarkað) þar sem skiptivara þeirra er ekkki gjaldgeng ( of feitir/feitar, hreyfihamlaðiir, þroskaheftir, afmynduð eftir slys osfrv.), hvernig mega þeir svala kynþörf sinni.

Ef kynhvöt er samkvæmt skilningi kynjafræða ekki frumhvöt sem þarf að svala - heldur skemmtun sem sumt fólk hefur aðgang að og annað ekki. hvar eru þá mörk þeirrar skemmtunar.

Ef tveir einstaklingar sem hafa gert með sér samning um sameiginleg afnot líkama hvors annars til kynsvölunar í skemmtitilgangi, vilja skrásetja athafnir sínar á mynd, ellegar myndbandi er þeim það heimilt?

Ef þessir tveir einsaklingar telja frammistöðu sína eftirtektarverða og vilja deila henni með fleirum sem hliðstæða skemmtun stunda er þeim það heimilt?

Það er augljóslega dreifing á klámi og ekki einungis bönnuð með lögum, heldur fordæmd meðal femínista.

Stóra spurning mín er - hvernig geta femínistar tengt myndefni af  fólki í kynferðislegum stellingum, eitt sér eða saman að stunda blíðuhót og láta vel hvort að öðru og sjálfu sér, við ofbeldi?

Davíð Davíðsson (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 11:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband