Byggð á sprungusvæðum og kviksandi

Það hafa orðið stórir jarðskjálftar á höfuðborgarsvæðinu, það hafa orðið þar náttúruhamfarir og það munu verða þar jarðskjálftar og aðrar náttúruhamfarir. Það er raunar afar líklegt að eldgos verði einhvers staðar nálægt Reykjavík og hraun streymi yfir hraun. Það hefur gerst og það mun gerast. Við höfum reist byggð okkar á svæði sem er virkt eldgosasvæði, eyjan Ísland er raunar til orðin vegna möttulstróksins undir Íslandi

Dýr og fólk geta lagað sig að taktföstum breytingum á umhverfi, að árstíðabreytingum sem koma á fyrirsjáanlegum tíma og á fyrirsjáanlegan hátt. Þannig eru náttúruhamfarir ekki. Það eru samt ýmis konar merki sem við getum notað til að greina að þær séu í nánd og við getum lært af reynslu annarra um hvað gerist og hvað er hættulegast og hvernig á að bregðast við.

Við höfum lært af reynslu hvernig á að styrkja hús þannig að þau þoli jarðskjálfta af ákveðinni stærð og hérlendar byggingarreglur taka mið af því.  En því miður þá hefur ásókn í byggingarland verið svo mikið á síðustu áratugum á höfuðborgarsvæðinu  að varfærnisraddir um að varasamt sé að byggja á landfyllingum og á sprungusvæðum hafa ekki heyrst.  Í jarðskjálfum í Kaliforníu hefur komið í ljós að þeir staðir sem urðu verst úti voru staðir sem byggðir voru út í sjó á uppfyllingum.  Það hafa komið fram hugmyndir hjá stjórnmálamönnum um stór byggingarsvæði  við ströndina, sjávarsýn er vinsæl og eftirsóknarverð á íbúasvæðum og sum sveitarfélög hafa viljað reisa hafnarsvæði á uppfyllingum (stórskipahöfn á Kársnesi o.fl.) og í Reykjavík voru miklar hugmyndir um lúxusíbúðabyggð á uppfyllingu á Eiðsgranda út frá Ánanaustum.

 Hér er blaðagrein úr DV 2000

dv11nov200-bls6

Fyrirtækið Þyrping lét skipuleggja íbúðabyggð út í sjó, skipulagið minnir dálítið á  eyjurnar í Dubai. En svona átti umhverfið að líta út, mökkur af lúxusíbúðum byggðum út í sjó á uppfyllingum þarna í samfloti við alla olíugeymana (hafnarblaðið apríl 2007). Hrunið kom í veg fyrir allar þessar fyrirætlanir. 

hafnarbladid april  2007

Það eru samt töluvert miklar byggingar m.a. fjölbýlishús sem reist hafa verið á uppfyllingum við strandlengjuna frá Hafnarfirði til Reykjavíkur.  Á jarðskjálftasvæðum erlendis eru slík uppfyllingasvæði eins og kviksandur í jarðskjálftum, eru einhverjar öðruvísi aðstæður hérna?

Það er líka skrýtið að á sínum tíma mátti ekki byggja við Rauðavatn á svæðinu í kringum Morgunblaðshöllina í Hádegismóum út af misgengi í jarðlögum, þetta væri sprungusvæði. Svo virðist af einhverjum ástæðum sem ég skil ekki sprungurnar hafa horfið úr umræðunni og svæðið skipulagt án nokkurrar umræðu um það.  Þegar byggja átti Árbæjarlaugina kom í ljós 1 metra breið sprunga í klöppinni sem mun liggja í gegnum alla Reykjavík og var laugin færð til.Er einhvers staðar til kort af hvar þessi sprunga og aðrar sprungur sem vitað er um liggja?

Árið 1982 þegar Davíð Oddsson braust til valda í Reykjavík  og sigraði þáverandi meirihluta var aðalkosningamál hans nýtt hverfi við Grafarvog í staðinn fyrir  fyrirhugaða byggð á hinu hættulega sprungusvæði við Rauðavatn. Í blaðagrein 30. apríl 1981 segir Davíð það óðs manns æði að byggja á sprungusvæði. Það er því kaldhæðni örlaganna að núna vaki sami Davíð yfir Reykjavík í fjölmiðlamusteri sem byggt er á þessu sama sprungusvæði og í kring búa þúsundir manna í fjölbýlishúsum.  

Það er líklegt að einhverjar byggingar í Reykjavík séu byggðar beint yfir sprungur og einhverjar byggingar eru byggðar á uppfyllingum sem munu fara á ferð ef mjög stór skjálfti verður.  Það er hægt að koma í veg fyrir að fólk slasist og deyi í náttúruhamförum ef nógu vandaður undirbúningur er og upplýsingum er miðlað til fólks. 


mbl.is Jarðskjálfti í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð, tímabær og þörf áminning. Í þessu samhengi væri ekki úr vegi að benda t.d. Almannavörnum á að kynna sér afleiðingar skjálftanna á Nýja-Sjálandi. Þar eru allar aðstæður, bæði samfélagið sem slíkt, byggingarreglur og fleira, sambærilegt við það sem hér er. Kannski eitthvað minna af aulum, þjófum og ræningjum en hér reyndar.

Dreifbýlisdúddi (IP-tala skráð) 28.2.2011 kl. 14:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband